sunnudagur, 30. september 2007

Veikindi

Jæja, veikindin ágerðust töluvert meira en ég reiknaði með. Var kominn með hita og beinverki (í fyrsta skipti sem ég hef upplifað svoleiðis) þegar ég fór að sofa í gær. Bjarkey er hægt og rólega að ná sér, þó hún hafi nú ekki komist langt fram úr rúminu í dag, frekar en ég. Dagurinn hefur því að mestu farið í afslöppun, líkt og gærdagurinn. Vona að ég verði eftir þetta búinn að taka út veikindaskammtinn fyrir næsta árið a.m.k. Þá væri þetta ásættanlegt. Kannski að maður reyni að koma sér í smá form í kjölfarið af þessu. Það er ágætis forvörn gegn veikluleika.

laugardagur, 29. september 2007

Skólatöskudjamm

Jæja, þá er maður búinn að prófa fyllerí að hætti breta. Mér líst mjög vel á bekkinn. Þetta virðist ætla að verða þokkalega samheldinn hópur.

Fórum um 10 strákar (2 írar, 2 englendingar, 2 indverjar, 1 hollendingur, 1 Pólverji, og 1 keníabúi/indverji/englendingur) úr bekknum á háskólapöbbinn eftir skóla (kl. 6 í gær), en þá var þegar orðið fullsetið, en við fengum okkur einn þar sem við stóðum þarna. Vorum reyndar búnir að kíkja á restaurant fyrir tímann þar sem menn fengu sér einn með matnum (sem orsakaði reyndar það að diffurjöfnurnar runnu ekki alveg eins greiðlega ofan í mannskapinn).

Eftir það fórum við á kráarrölt og var tekið nokkuð vel á því. Írarnir keyrðu þetta áfram, eins og þeim einum er lagið. Eftir kvöldið vorum við búnir að flakka á milli 3 kráa og fara á einn "klúbb", án þess að setjast einu sinni niður og með skólatöskurnar á okkur allan tímann (allar merktar Cass, þannig að markaðsspekúlantarnarnir væru örugglega ánægðir með auglýsingagildið á þessu hjá okkur.)

Þetta var sennilega fyrsta og eina bekkjardjammið á þessari önn, en við reiknum með að þetta verði bara stíf keyrsla þar til í lok janúar, þegar prófum líkur. Þá er stefnt á næsta geim.

Það er nokkur eftirmáli af þessu hjá mér, almennur slappleiki og slen. Gæti verið að ég sé búin að ná mér í kvef, en Bjarkey er búin að vera nokkuð slöpp gær og í dag. Maður hefur því bara verið að taka því rólega í dag.

miðvikudagur, 26. september 2007

Rip-off útgáfan af bankakerfi

Jæja, nú stendur yfir mikil barátta við hið breska skrifræði. Að stofna bankareikning er líklega einn almesti höfuðverkur sem hægt er að fást við í London. Er búinn að skila inn umsókn í HSBC bankann (sem varð að gerast á netinu, eins og flestannað hér í borg), eftir að hafa farið nokkra hringi í skólanum til að redda pappírum til staðfestingar á að ég væri raunverulega námsmaður og að hafa farið fýluferð í bankann þar sem við fengum þær upplýsingar að hægt væri að gera þetta í næsta útibúi. Nú er bara að bíða í þessar tvær vikur eftir svarinu og athuga hvort ég hljóti samþykki yfirdrottnara búrókratíunnar fyrir geymslu á peningum. Ef mér hlotnast sá heiður fæ ég að borga 5 pund! á mánuði!! til þess að fá að geyma peningana hjá hinum háæruverðuga banka.
Það væri nú gaman. Ég gef þessu þó aðeins 50/50 líkur á að verða lokið fyrir áramót. Sjálfsagt hægt að kalla það "þvingaðan sparnað".
Annars lítið að frétta. Fyrir utan þetta: http://www.skysports.com/football/league/0,19540,11660,00.html. :)

mánudagur, 24. september 2007

Tilgangurinn

Eitt af því sem mér finnst hvað skemmtilegast er að spyrja stórra spurninga. Ekki skiptir öllu máli hvernig eða hvort spurningunum er svarað, heldur er það glíman við þær sem gerir þær skemmtilegar. Spurningin um tilgang lífsins er sennilega ein sú allra stærsta. Mig langar að glíma við þessa spurningu stuttlega út frá eigin sjónarhóli.

Hægt er að skilja þessa spurningu á a.m.k. tvo vegu, eftir því hvort "lífið" er skilgreint sem "líf einstaklings" eða "lífið á jörðinni". Ég ætla að byrja á tilganginum með lífinu á jörðinni.

Lífið á jörðinni sem heild er mjög einangrað í alheimslegu samhengi og ég get ekki séð að það sé tilgangur með því í núverandi mynd. Það bara er þarna, eins og fyrir hálfgerða tilviljun. Vísindamenn telja að sólin muni gleypa jörðina eftir einhverja 4 milljarða ára (ef ég man rétt), og taka Mars a.m.k. með sér. Þegar að því kemur hafa væntanlega orðið drastískar breytingar á lífríkinu á jörðinni svo maðurinn fær mjög líklega ekki tækifæri til að lifa fram að þeim tíma. Altént verður maðurinn að vera búinn að hypja sig áður en að því kemur, ef hann, eða eitthvað afsprengi af honum (Superman), nær að lifa fram að þeim tíma. Takist Superman þetta bíður enn skuggalegra verkefni, sem er að lifa af alkulið og vöntunina á orku sem fylgir því þegar allar sólir nálgast það að verða útbrunnar og svartholunum fækkar samhliða samruna þeirra. Alheimurinn verður á endanum algjörlega svartur og gjörsamlega ólífvænlegur (skv. því sem vísindamenn segja í dag). Það getur því ekki verið tilgangur sem fylgir því að lífið nái fram að ganga út í eilífðina. Hins vegar er hugsanlegt að lífið á jörðinni (eða annarsstaðar) hafi einhvern tilgang óafvitandi. Það væri t.d. hægt að ímynda sér guð stökkva fram á sjónarsviðið einn daginn og tilkynna: til hamingju! takmarkinu er náð! maðurinn er nú orðin jafn fjölmennur og öll skordýr í heiminum til samans! Pési! Opnaðu nú fyrir öllum og svo höldum við rækilega upp á þetta! Og við myndum öll hverfa til himna til forfeðra okkar og ekki þurfa neinu að kvíða eftir það.

Hugsanlegt, en trúleysi mitt aftrar mér frá því að aðhyllast kenningu sem þessa.

Ef við skrúfum hins vegar aðeins inn á við og horfum á einstakar lífverur er auðvelt að sjá að þær hafa allar sinn tilgang: að halda lífinu á jörðinni gangandi. Ég held að allar lífverur fyrir utan manninn séu pottþéttar á hver tilgangur lífsins er, sem er einfaldlega að lifa af og koma erfðaefnum sínum áfram til næstu kynslóðar. Nái lífverur þessum tilgangi sínum trúað ég að þær hverfi sáttar yfir móðuna miklu.

Mannkynið hefurlifað eftir þessum sama tilgangi, þar til eftir iðnbyltinguna, þegar það að lifa af varð ekki eins krefjandi. Menn fara bara og vinna t.d. 40% af vökustundum sínum og þá er búið að redda málunum. Þar sem svo auðvelt er að ná þessu markmiði sem þurfti áður að berjast fyrir með kjafti og klóm er eðlilegt að maðurinn fyllist tilvistarkreppu og viti ekki hvað hann eigi við sig að gera.

Það er í höndum hvers og eins hvernig hann eyðir þessum tíma. Eyði hann tímanum í samræmi við gildismat sitt og í sátt við samfélagið eru góðar líkur á að hann öðlist hamingju og lífsfyllingu (líklega svipuð tilfinning og aðrar lífverur upplifa þegar þeirra lífstilgangi hefur verið náð, trúi ég) og getur þar með horfið sáttur á braut frá þessum heimi. Ef hann hins vegar villist af braut og lifir eftir hugmyndum og skoðunum annarra og/eða í trássi við samfélagið er ólíklegra að hann verði sáttur við sitt á endanum.

Þannig trúi ég að tilgangur lífsins (allra manna) sé einfaldlega að nota tímann sem við höfum í það sem er okkur og samfélagi okkar fyrir bestu og þannig er mögulegt öðlast verðlaunin (t.a.m. hamingjuna) sem því fylgja. Ég held að tilgangurinn geti því verið jafn mismunandi og mennirnir eru margir. Hann getur verið tónsmíðar, fótbolti, áhættustýringu, leikritun, leit að auknum skilningi á eðli alheimsins, eða hvað annað sem mönnum dettur í hug. Sennilega er heldur ekkert verra að hafa fleiri en einn tilgang.

Þetta er altént mín skoðun.

föstudagur, 21. september 2007

Fréttir

Fattaði að ég opnaði bloggið án þess að segja neinar fréttir. Eftirfarandi er það sem á daga okkar Bjarkeyjar hefur drifið undanfarnar 2 vikur.

Flutningar:
Eyddum tveimur nóttum á hóteli hérna í London áður en við fengum íbúðina okkar, sem er við York Terrace East. Þetta er í Westminster, rétt sunnan við Regent´s Park, fyrir þá sem þekkja til. Mér sýnist þetta vera nokkurskonar ríkramannahverfi (Menn láta t.a.m. varla sjá sig á eldri bílum en 2006 og York Terrace West- gatan er einkavegur, sem er vaktaður allan sólahringinn, að ég held). Íbúðin er eftir væntingum. Málningin farin að flagna á baðinu, gólfið hallar allstaðar inn að miðju og myndar nokkursskonar skál, þannig að maður situr í ca. 5% halla hér við skrifborðið. Vona bara að þetta endi ekki með að við hrynjum niður á næstu hæð. En þetta dugar alveg, enda verður maður sennilega ekki mikið í því að halda kokteilboð næsta árið a.m.k.. Við eyddum síðan einum degi í að fara í IKEA til að versla það sem vantaði í íbúðina og setja það saman.
Verslaði mér einnig Acer-tölvu sem inniheldur Windows Vista (sem þið ættuð að forðast eins og heitan eldinn. Nema þið hafið ótakmarkaðann tíma í uppfærslur og hafið gaman af því að reka ykkur á veggi við að finna út úr einföldustu hlutum).

Skemmtun:
Fórum í skoðunarferð um London á þriðjudeginum í síðustu viku þar sem var rölt um borgina og farið létt yfir söguna. Tengdafamelían kom í heimsókn um síðustu helgi og fórum við m.a. á leik West Ham og Middlesbrough, sem endaði 3-0 f. WH. Lítill tími hefur hins vegar gefist til skemmtana enn sem komið er vegna allskyns redderinga tengda flutningunum.

Skólinn:
Byrjaði á þriðjudaginn en nú standa induction-vikur yfir, sem eru 2 og ætlaðar til uppryfjunar á námsefni og fyrir okkur til að kynna okkur skólann almennt. Alvöruskólinn byrjar svo 1. okt. Deildarforsetinn hjá mér náði að hræða úr fólkinu líftóruna með tali um það hvað þetta yrði erfitt nám hjá okkur. Einn hefur þegar skipt og farið í almenn fjármál og fleiri hafa hugleitt að flytja sig um set. Það hefur hins vegar ekki hvarflað að mér. Sennilega of þrjóskur.
Eftir skóla í dag verður samkoma fyrir alla MSc nema og kennara þar sem við verðum formlega boðin velkomin, væntanlega með snittum og léttum veitingum.

Þetta er gróflega það sem hefur gengið á undanfarið. Held ykkur uppfærðum.

fimmtudagur, 20. september 2007

Blogg

Jæja, þá er maður orðinn einn af bloggurum alheimsins. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég staddur úti í London við nám í fjármálaverkfræði og er blogg þetta m.a. hugsað sem fréttamiðill sérsniðinn að þörfum vina og ættingja sem áhuga hafa á að fylgjast með því sem er að gerast hjá mér í útlandinu. Þykir mér þetta hentugt form nú þar sem ég hef aldrei verið mikill símamasari og mun þar að auki engan vegin hafa tíma til að halda fólki uppfærðu um það sem er að gerast hjá mér, vegna fyrirsjáanlegra anna í náminu. Ég vona þó að mér vinnist tími til að henda hingað inn heimspekivangaveltum um mannlegt eðli og/eða fjármálamarkaði. Það væri nú gaman.
Held ég hafi þetta ekki lengra að sinni. Ég stefni á að henda inn einhverjum myndum frá útlandinu og svona þegar ég er búinn að læra á þetta bloggsýstem.

bless á meðan.