laugardagur, 24. nóvember 2007

Vikan í stuttu...

Hef verið að stunda verkefnavinnu sennilega 80% af vökutíma mínum í vikunni, ákvað því að henda einhverju inn til tilbreytingar.

Mín helstu viðfangsefni í vikunni hafa verið kenningar þeirra félaga Choleski og Monte Carlo, en þeir hafa verið að reyna að hjálpa mér að herma þróun hlutabréfavísitalna og -safna. Búin að vera mikil glíma, og þá helst við Choleski. En nú er allt komið á hreint okkar á milli og við orðnir bestu félagar.

Gaf mér reyndar tíma til að fara í fótbolta í Regent´s Park í dag með fótboltaklúbbnum í Cass. Reyndar mættu ekki nema 5 og voru þeir frá Englandi (2), Ghana, Indlandi og Möltu. Dæmigert fyrir skólann, sem er með þeim alþjóðlegustu í bransanum, sem er mjög jákvætt.

Innan við 2 vikur eftir í skiladag dauðans. Einn hópmeðlimanna stefnir í að verða mesti "free rider" sem ég hef kynnst (og hef ég kynnst þeim nokkrum), svo líklegt er að við tilkynnum hátterni hans til yfirvaldsins ef ekki verður bragabót á fyrir mánudag. Ótrúlegt að enn skuli finnast svona fólk á mastersstigi í menntakerfinu (og þetta er víst ekki sá eini í bekknum sem gerir ekkert, að mér skilst). Sannar sennilega að fjölbreytileiki mannkyns nær til allra stiga þjóðfélagsins. Þ.e. hægt er að finna fólk af öllum gerðum á öllum stigum. Snillinga á götunni og bjálfa í stöðu valdamesta manns heims.

Aðrar fréttir: Arsenal komið með 3 stiga forustu og leik til góða eftir daginn í dag!
http://www.skysports.com/football/league/0,19540,11660,00.html

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Þetta er rugl

Jæja, þá er maður farinn að finna fyrir tímapressu vegna verkefnavinnu. Þó eru næstum þrjár vikur í skiladag. Hins vegar mun þessi skiladagur (7. des.) fela þrjú massív verkefni í sér. Ekki bætir úr skák að þetta eru allt hópverkefni, þar sem sömu hóparnir vinna saman í öllum þeirra. Dregið var í hópa og þóttist ég vera nokkuð heppinn að vera með báðum "class representativunum", þ.e. aðilar sem eru tengiliðir bekkjarins við yfirstjórnina og sitja fundi með deildarforseta og kennurum.

Ætla mætti að svona fólk væri þekkingarlega sterkt á flestum sviðum. Hins vegar hefur komið í ljós að þau hafa mjög litla þekkingu á fjármálaafurðum og ekki er að marka eitt einasta orð sem kemur út úr þessu. Meira að segja excelkunnáttan er í dræmara lagi. Sem betur fer er fjórði aðilinn í hópnum sem hægt er að nota töluvert, þó hann hafi ekki mikinn skilning á því sem er að gerast.

Ég reikna því með að næstu 18 dagar verði í strembnara lagi og ég komi ekki til með að gera neitt annað en vinna upp skít eftir aðra og útskýra vexti 50 sinnum. Spennó. Kannski að maður reyni bara að klára sem mest sjálfur áður en hinir nái að koma puttunum í þetta.

Mikið er gott að geta skrifað svona um einhverja og vita að þeir eiga ekki séns á að komast að því :)

Annars er ágætt að frétta. Kominn með bankareikning. Fór í annan banka og fékk hann frítt. Reyndar engir vextir á honum og það er ekki hægt að nota kortið í verslunum, en það sleppur. Mamma var rétt áðan að tjá mér að hún ætlar að fjárfesta í bílnum okkar Bjarkeyjar og þar með binda endi á þann markaðsbrest sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði á bílamarkaði og færa sig um leið inn í 21. öldina í bílamálum. Subaruinn hefur víst verið seldur nú þegar. Tengdamamma og pabbi voru í London um helgina og var notað tækifærið og farið út að borða á fös.og lau.

Læt þetta duga að sinni. Guð veit hvenær ég gef mér aftur tíma í blogg.

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Fasteignabóla vesturlanda

Magnað hvað menn eru alltaf ginkeyptir fyrir galdralausnum sem eiga að koma mannkyninu og heiminum öllum á æðra tilverustig. Dæmi um þetta eru síminn, faxtækið, kjarnorkan, tölvan og netið. Birtingarmynd þessa voru t.d. tækni- og netfyrirtækin á síðasta áratug síðustu aldar. Við vitum öll hvernig það fór. Þennan áratug voru það fasteignir. En hvernig í ósköpunum datt mönnum í hug að fasteignir væru einhver galdralausn?

Augljóst er að allir þurfa að eiga eða leigja fasteign ef þeir ætla að lifa þokkalega mannsæmandi lífi. Sú staðreynd ein skapar frábæran grundvöll fyrir bólu. Eftir netbóluna voru menn komnir með nóg af illskiljanlegum fyrirtækjum og vildu hverfa til áþreifanlegri viðskipta "back to the basics". Vaxtaumhverfið var mjög hagstætt skuldurum í upphafi aldarinnar og flæði fjármagns um heiminn var orðið frjálsara. Þetta gerði mönnum kleift að fá lán í lágvaxtamynntum (t.d. jenum) og fjárfesta í sinni heimamynt (þetta er kallað "Carry Trade" og veldur styrkingu hávaxtagjaldmiðla á mótu lágvaxtagjaldmiðlum). Framboð fasteigna er mjög tregbreytanlegt (vegna framkvæmdatíma og á óskiljanlegan hátt, tregðu stjórnvalda til að deila út landi - sennilega séríslenskt fyrirbrigði), en það hjálpar til við að ýta verði upp. Þessir þættir, auk græðgi mannsins og þörf hans til að fara stuttu leiðina að auknum lífsgæðum, hafa ollið því að fasteignamarkaðir heimsins hafa hækkað jafn hratt og raun ber vitni. En hvernig er það, hafa fasteignir ekki skilað mjög góðri ávöxtun yfir lengri tímabil sögunnar?

Sannleikurinn er sá að fasteignir hafa skilað verri ávöxtun en ríkisvíxlar frá 1890 til 2005 og þá er ekki búið að taka tillit til viðhaldskostnaðar, sem gerir ávöxtunina enn slappari (ef menn hafa áhuga á að kynna sér málið frekar, mæli ég með þessari). Auk þess sem almenn gæði fasteigna voru langt frá því sem við þekkjum í dag (klósett voru munaður). Góð langtímaávöxtun fasteigna er því ein af þeim dylgjum sem hafa skotið upp kollinum þessa bóluna og menn hafa notað óspart til að réttlæta óþarflega viðamiklar fasteignafjárfestingar. Önnur dylgja sem reglulega heyrist er að land hljóti að hækka með veldisvexti eftir því sem fólki á jörðinni fjölgar. Hér er hollt að skoða kort af heiminum, horfa á óbyggðu svæðin og hafa í huga að nýjustu mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúafjöldi heimsins nái hámarki í "aðeins" 10 mö. manns (erum núna um 6.6 ma. Wikipedia), sem er töluverð lækkun frá fyrri spám (minnir að menn hafi verið að spá 14 mö. fyrir nokkrum árum). Skortur á landi er því ekki í augsýn.

Mikilvægasti þátturinn í fasteignahækkuninni er þó auðvelt aðgengi að ódýru fjármagni undanfarinn áratug. Þetta fjármagn hefur leitað út í hagkerfið í gegnum verktakafyrirtækin, aukið neyslu, hagvöxt og verðbólgu í hinum vestræna heimi. Menn hafa því bara getað verið "jollý fíling" yfir þessu öllu. Þetta hefur valdið stöðugum vaxtahækkunum, sem hækkar fjármagnskostnað íbúðakaupenda (mishratt, eins og dæmin sanna) og gerir þá viðkvæmari fyrir áföllum sem valda tekjutapi (t.d. slys eða atvinnumissir). Þegar hægja tekur á hinu vestræna hagkerfi og atvinnuleysi eykst mun skuldsetningin því valda miklum vandræðum fyrir heimilin og hraða lækkun fasteignaverðs.

Bankarnir virðast ekki hafa haft miklar áhyggjur af útlánaáhættu (að fá lánin endurgreidd), heldur lánað fólki sem hefur lent í vandræðum til að "redda því fyrir horn". Þetta hefur verið auðvelt, þar sem fasteignir hafa hækkað stöðugt og veðhæfið þar með líka. Peningamagn í umferð hefur því aukist jafnt og þétt.

Nú sér hins vegar fyrir endan á þessari bólu. Fasteignalán í BNA hafa súrnað allverulega undanfarna mánuði og afleiðingarnar berast víða. Nota bene, þetta hefur gerst á sama tíma og hagvöxtur í heiminum hefur verið góður og atvinnuleysi lítið, sumsé fínt umhverfi til að standa í skilum. Núverandi lánveitendur (óbeinir lánveitendur, sem hafa keypt allskyns fjármálaafurðir af upphaflegu lánveitendunum) keppast nú við að afskrifa þessi lán. Fasteignir í BNA hafa lækkað jafnt og þétt undanfarið ár og almennt er búist við að breski markaðurinn fari að lækka á næstunni. Á endanum mun íslenski fasteignamarkaðurinn einnig leiðrétta sig, þegar menn hefa áttað sig á hvílíkar skýjaborgir menn hafa byggt sér. Vegna tregbreytanleika markaðarins gæti lækkun fasteignamarkaða gæti hins vegar tekið langan tíma, jafnvel nokkur ár. Þeir sem eru hvað skuldugastir munu verða hvað verst úti.

Mér finnst líklegt að væntanleg lækkun fasteignamarkaða muni hafa veruleg áhrif á vestræna hagkerfið í heild og fjárfesting og neysla dragist saman (hagvöxtur minnkar). Þetta mun aftur hafa áhrif á hlutabréfamarkaðina. Það gæti því verið leiðinlegt ár í vændum á vestrænum fjármálamörkuðum. Ég ætla hins vegar ekki að dæma um Asíu eða aðra fjarræna fasteignamarkaði, sem ég þekki ekki eins vel. Reyndar gæti ég trúað að Asía eigi eftir að draga á vesturlönd í þjóðarframleiðslu eftir þetta ævintýri.

Ég bara varð að létta á hjarta mínu.

föstudagur, 2. nóvember 2007

Boltinn

Fór ekki alveg eins og ætlað var. Við komumst ekki upp úr riðlinum, en held að við höfum gert ágætlega m.v. "gæði" liðsins. Ljósi punkturinn var þó sá að við unnum kennarana 1-0, þar sem ég sett´ann hjá deildarforsetanum okkar utanaf kanti. Það var nú gaman. Við enduðum jafnir þeim að stigum, en þeir komust úr riðlinum á fleiri skoruðum mörkum. Sem var ekki eins gaman.

Er reyndar ennþá slappur, þannig að ég ákvað að sleppa því að fara á pöbbinn þar sem verðlaunin verða afhent, o.fl. Svo það verða bara rólegheit í kvöld. Í mesta lagi smá lærdómur. Enda var síðasta helgi alveg nóg í bili.

Síðan er náttúrulega stórleikur á morgun kl. 12:15 þegar mínir menn mæta rauðu helvítunum.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Áskipti

Er orðinn eitthvað slappur. Hálsbólga og slen síðan gærkvöldi og í morgun. Mér þykir þetta nú allóvenjulegt, þar sem ég er yfirleitt ekki veikur lengur oftar en einu sinni á ári, en er búinn að vera tvisvar veikur á einum mánuði núna. Maður er kannski enn að venjast loftinu (les. loftleysinu og menguninni). Vona að ég verði orðinn góður á morgun, þar sem ég stefni á fótboltatúrneringu seinnipartinn. En við spilum m.a. við deildarforsetann okkar, sem gæti orðið áhugavert :). Verði ég ekki orðinn góður þá reyni ég örugglega bara að hlaupa þetta úr mér.

Bjarkey er hins vegar orðin góð af ristilveseninu og sannaði það með því að rúlla upp einu stykki "Strategic cost management" - prófi í dag.

Þannig að við skiptumst eiginlega á að vera dugleg og veik þessa dagana.