sunnudagur, 24. febrúar 2008

Uppfærsla

Það sem hefur gerst hjá mér frá síðustu færslu er eftirfarandi:
1. Fór í paintball um sl. helgi ásamt bekkjarfélögunum. Ég var að prófa þetta í fyrsta skipti og mæli klárlega með þessu fyrir þá sem hafa gaman að því að hafa gaman.
2. Skrapp aðeins á barinn eftir skóla á föstudaginn með nokkrum af bekkjarfélögunum. Það var stemming.
3. Fór út að borða með bekkjarfélögum í gærkvöldi á Mexíkóskan stað í Covent Garden. Það var stuð.
4. Fór í fótbolta í gær og um síðustu helgi. Það var gaman.
Fyrir utan þetta hef ég lítið annað gert en að læra. Við Bjarkey reynum þó að taka okkur tíma frá náminu annars lagið til að dorma yfir imbanum, en það er nú ekkert of oft sem það gerist. Það er líka búið að vera mikið að gera hjá henni. Miðannarpróf, starfsviðtöl og verkefnavinna.
Svo þarf ég að fara að ganga frá því hvort ég ætli að skrifa lokaritgerð eða ekki. Er farinn að hallast frekar að því að taka 3 auka áfanga í staðin fyrir ritgerð. Held að það sé meira að græða á því. Ég myndi þá líka klára skólann 13. júní mv. það plan.
Ástandið á fjármálamörkuðum gerir það að verkum að maður hefur varla hugleitt að sækja um vinnu nýlega. Ekki það að maður sé eitthvað að örvænta. Maður hefur séð ýmis atvinnutækifæri hér í borg ef maður er opinn fyrir nýjungum. T.d. væri hægt að fá vinnu sem blaðadreifari á einhverju götuhorninu, handsápudælari á einhverjum barnum hér í borg eða götusópari. Tækifæri fjármálaverkfræðinga eru allstaðar, bara ef menn eru vakandi.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Tjáningaþörf

Magnað hvað menn hafa mismikla þörf fyrir að tjá sig og deila lífi sínu með öðrum. Ástæður þessa eru sennilega mjög mismunandi. Genetískar og/eða áunnar.

Altént er ljóst hvar ég lendi á skalanum, sbr. Þetta blogg :)

Það hefur sumsé ekki mikið verið fréttnæmt að gerast undanfarið að mínu mati, fyrir utan námsstreðið sem er eiginlega hætt að vera fréttnæmt.

Sé til hvort tjáningaþörfin verði kannski fyrir hendi um helgina.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Forritun á föstudagskvöldi

Vaknaði upp við það rétt í þessu að ég var búinn að eyða 6 klukkutímum samfellt í forritunarverkefni, án þess að taka eftir því. Merkilegt hvað þetta verður skemmtilegt þegar maður kann eitthvað smá í þessu. Mætti líkja þessu við tilraun til að leysa gestaþraut.

Það er sumsé bara þetta gamla að frétta. Glíman við verkefnin er byrjuð fyrir alvöru. Þetta er sá tími annar þar sem maður fílar sig samviskusaman fram úr hófi, þar sem flestir samnemendurnir eru lítið farnir að spá í verkefnunum. Hópurinn minn er hins vegar allur á sama meiði og vill klára þetta af sem fyrst sem ég er mjög sáttur við. Svo eru fögin líka farin að verða töluvert strembnari. Maður þarf því að halda mjög vel á spöðunum næstu 2 mánuðina ef skorið á að vera ásættanlegt þessa önnina. Svo þarf ég að fara að ákveða hvort ég ætli að skrifa lokaritgerð. Það myndi þýða ca. mánuð í viðbót fyrir framan tölvuna í júlí í staðin fyrir sumarfrí. En ég held að ég myndi bæta töluvert meiru við þekkinguna á því að skrifa ritgerð. En þetta veltur líka á því hvort ég finni eitthvað nógu áhugavert til að skrifa um.

Annars er búið að plana ferð á Arsenal - Aston Villa þann 1. mars, afmælisdegi bjórsins á íslandi, með tengdafamelíunni sem verður í verslunarferð um þá helgi. Á von á hörkuleik, sérstaklega þar sem Aston Villa er komið í baráttuna um Evrópusæti, jafnvel Meistaradeildarsæti, eins og staðan er núna.

Annars er frúin í afmæli hjá tveimur bekkjarsystkynum núna, þannig að maður er bara einn í koti með bjór við hönd í tilefni vikulokanna.

Fór í fótbolta í ca. 20 stiga hita í Regent´s park í dag. Ekki amarlegt, sérstaklega þegar maður hugsar til útihlaupanna í snjósköflunum á Egilsstöðum og Akureyri forðum og núverandi veðráttu heima, sem mér skilst að sé ekki álitleg.

Jæja, ætli maður fari ekki að skoða gamlar lokaritgerðir og sjái hvort manni detti eitthvað sniðugt í hug sem lokaritgerðarefni.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Nýr erfingi

Þau tíðindi urðu í gærmorgun að hún Siggalára systir mín varð léttari. Eignaðist hún strák og heilsast móður og barni vel. Svipar honum mjög til Gyðu, systur hans, þegar hún var nýfædd. Nema hvað að hann er töluvert minni. Enda fæddur 6 dögum fyrir tímann, en Gyða var einhverjum 2 vikum eftir tímann, ef ég man rétt. Fær nýstækkuð fjölskylda bestu kveðjur frá London.

Hins vegar er lítið að frétta af suðausturvígstöðvunum. Er að reyna að vera gríðarlega samviskusamur og skipulagður og taka önnina snemma til þess að dreifa álaginu. Það er samt meira en að segja það. Virðist alltaf vera sem maður þurfi einhverja tímapressu til þess að hlutirnir gangi almennilega. Maður reynir þá bara að nota tímann og velta fyrir sér mögulegum lokaritgerðarverkefnum. En það verður val um hvort maður vill skrifa lokaritgerð eða taka 3 auka áfanga. Ég hef nokkurn hug á ritgerðinni, að því gefnu að ég finni eitthvað nógu áhugavert og praktískt.

Skrapp í fótbolta á laugardaginn með nokkrum skólafélögum. Annars fór helgin í lærdóm og rólegheit bara. Bjarkey hefur verið á kafi í lærdómi, en hún er að skila fyrsta verkefni annarinnar á morgun, sem telur 50% af heilum áfanga.