miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Í fótspor feðranna

Jæja, eftir tæplega mánaðar leit hérna á íslandi eftir atvinnu er henni nú lokið. Fyrr í dag réð ég mig nefninlega inn á fyrirtækjasvið KPMG, þar sem ég hef störf á mánudaginn nk. Gríðarlega sáttur við að vera búinn að ganga frá þessu og reyndar hafði ég úr fleiri möguleikum að moða, þannig að ástandið virðist nú ekki eins vonlaust fyrir fjármálamenn og margir vilja halda. Þetta er sennilega eins og mig grunnti alltaf; þeir sem vilja og geta unnið fá eitthvað við sitt hæfi þó síðar verði.

Ég mun því starfa hjá sama fyrirtæki og karl faðir minn til margra ára og er enn í nánu samstarfi við. Ég verð reyndar ekki í samskonar störfum, þar sem þetta er meira ráðgjafatengt og miðar að verðlagningu á afleiðum, áhættustýringu o.fl. sem ég var m.a. að læra úti. Þetta er því mjög ánægjulegt og ég held að ég hafi aldrei hlakkað eins mikið til að mæta í vinnuna á mánudegi :)

Önnur gleðitíðindi: Fékk síðustu einkunnina úr náminu: 94% í VBA, sem þýðir að ég fæ merit frá skólanum. Ákaflega ánægjulegt líka, þó það skipti kannski ekki öllu máli upp á framtíðina.

Millibilsástandinu er því lokið og ný kafli í mínu lífi hefst. Best að fagna með því að taka á móti handboltalandsliðinu og fara svo í fótbolta!

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Millibilsástand

Ég biðst velvirðingar á bloggleysi undanfarnar vikur. Ég er búinn að vera of upptekinn við að slappa af og að vera atvinnulaus síðan ég kom á klakann til að blogga.

Júlímánuðurinn var notaður í afslöppun á Egilsstöðum. Fótbolti, golf og bjór var þema mánaðarins eftir frækilega frammistöðu í náminu í vetur. Bjarkey eyddi mestum hluta mánaðarins á eigin heimaslóðum, þannig að við breiddum vel úr okkur landfræðilega eftir að vera búin að hýrast í sama kústaskápnum í London í heilan vetur.

Við fluttumst svo í Hafnarfjörðinn í lok júlí og Bjarkey byrjaði vinnu sína hjá Ríkisendurskoðun 1. ágúst. Ég hef sjálfur verið að leita að vinnu síðan eftir verslunarmannahelgi hérna fyrir sunnan. Hlutirnir eru farnir að þokast í rétta átt í þeim efnum. Allavega hef ég verið að fá viðtöl hjá nokkrum aðilum núna á síðustu dögum. Vonandi verður eitthvað meira að frétta af þeim málum á næstu dögum/vikum.

Annars þakka ég mínu sæla að vera þó allavega að leita að vinnu, en ekki að læra fyrir upptökupróf úti í London, eins og mjög margir af mínum bekkjarfélögum þessa dagana. Ég er búinn að fá allar einkunnir nema eina af síðustu önninni og ég er í séns að fá það sem er kallað "Merit" eða "dyggð", sem fæst fyrir 65% meðaleinkunn þarna í Bretlandi. Það væri nú gaman.