þriðjudagur, 28. október 2008

Góðæri!

Jæja, þá er góðærið skollið á sem maður hefur verið að undirbúa sig fyrir meirihluta ævinnar. En það var fullt að gera í vinnunni sl. viku. Kom yfirleitt heim um eða uppúr miðnætti eftir streðið og mætti líka á laugardaginn. Líklegt er að ástandið verði svipað næstu vikurnar, þannig að það verður mikil þensla í Sigurviníska hagkerfinu á næstunni. Mikið er Ísland nú heppið að hafa viðlíka sveiflujafnara innanbúðar ;)

Annars lítið að frétta. Það var reyndar starfsdagur á föstudaginn hjá fyrirtækjasviði KPMG, sem var haldinn úti í Kjós. Farið var á fjórhjól með hópinn og endaði það með mat um kvöldið og léttum veitingum sem runnu það ljúflega niður að haldið var á galeiðuna þegar komið var aftur í bæinn, um kl. 1. Sumsé, mjög vel heppnað og höfðu menn gaman að.

Læt vita af mér eftir því sem tími vinnst til.

mánudagur, 20. október 2008

Ábyrgð og fyrirgefning

Einkennilegt hvað menn hlaupast alltaf undan merkjum þegar kemur að því að lýsa yfir ábyrgð á hruninu sem við erum að upplifa. Það er eins og menn séu alveg logandi hræddir við afleiðingarnar ef þeir gangast undir minnstu ábyrgð í stjórnmálum yfirhöfuð. Hugsanlega hefur þetta fólk ekki fengið mikla fyrirgefningu í æsku frá móður sinni eftir prakkarastrikin.

Menn ættu nú að fara að átta sig. Það vita allir sem vilja hverjir bera ábyrgðina. Það eina sem þeir vinna með þessari þvermóðsku er að þeir eru vanhæfir til að byggja upp eftir hrunið, af því að engin mistök hafa verið viðurkennd. Ef engin mistök hafa verið gerð, er þá einhver ástæða til að breyta út af einhverju í regluverki fjármálamarkaða, peningamálastjórn, fjármálastjórn hins opinbera eða öðru sem við kemur þessu rugli?

Því segi ég að ef enginn gengst við ábyrgð á þessu þá hlýtur íslenska þjóðin að krefjast þingkosninga og það verður flóðbylgja nýs fólks inn í stjórnmálaflokkana sem hreinsar út gömlu gildin. Vel menntað fólk á sviði viðskipta- og hagfræði, sem er nýbúið að missa vinnuna úr bönkunum og upplifði afleiðingar mistakanna frá fyrstu hendi, í stað gamalla íþróttakennara og skottulækna sem hafa verið allt of lengi við stjórnvölinn. Þetta getur gerst að því gefnu að fólk er ekki orðið of samdauna sjónvarpsdagskránni og aðgerðarleysinu sem mín kynslóð ólst upp við. Sem er reyndar líklegt.

Ef hins vegar þeir hinir ábyrgu taka við sér og gangast við ábyrgðinni þá treysti ég engum betur til að byggja upp eftir þetta heldur en þessu sama fólki. Það hlýtur að vera af vilja gert til að bæta fyrir mistök sín, enda hefur það hlotið fyrirgefningu þjóðarinnar fyrir, eitthvað sem jafnvel móðirinn gat einhverra hluta ekki veitt. Það hlýtur að vera einhvers virði.

Og þetta tal um að það verði tími síðar til að finna sökudólgana eru náttúrulega bara dylgjur. Þetta tekur ekki nema nokkrar sekúndur í sjónvarpi (eða með sjálfum sér, fyrir þá sem eru ekki það hátt settir) og þá geta viðkomandi farið að einbeita sér að uppbyggingunni með góðri samvisku.

Það er engin skömm að því að viðurkenna mistök eða skipta um skoðun. Það veit fólk sem stefnir einlæglega að því að bæta samfélagið, sama hvað eigin stolti líður.

þriðjudagur, 14. október 2008

... ég á egypskan faraó í frystinum...

Frétti af þessari miklu snilld frá Baggalúti í dag. Fer í flokk með þeirra allrabesta efni. Njótið.

http://www.vf.is/veftv/595/default.aspx

mánudagur, 13. október 2008

Frá sparifjáreigendum til skuldara

Þegar verðbólgan var hvað mest hérna fyrir langalöngu og áður en verðtryggingin kom til olli verðbólgan því að lán rýrnuðu og sparnaður "brann upp". Þannig að skuldarar græddu og sparifjáreigendur töpuðu. Þetta var þvert á markmið hins opinbera að hvetja til sparnaðar.

Í dag eru svipaðir hlutir að gerast, bara með öðrum hætti. Ríkisstjórnin er búin að gefa það út að þeir sem lenda í erfiðleikum með afborganir af húsnæðislánum verður hjálpað m.a. með því að láta Íbúðalánasjóð kaupa skuldirnar af bönkunum, lán fryst o.fl. Hvað upplifa sparifjáreigendur á sama tíma? Eignirnar brenna upp, hvort sem þær voru í lífeyrissjóðum, einstökum hlutabréfum eða í verðbréfasjóðum bankanna (nota bene, jafnvel þótt þær væru í fyrirfram tiltölulega eða mjög öruggum sjóðum).

Þannig að í krísuástandi virðist vera sem það sé eftirsóknarverðara að skulda heldur en að eiga, sama hverju stjórnmálum líður. Þannig myndi samvisku- og ábyrgðarlaus einstaklingur með mjög gott taugakerfi og þessa vitneskju sennilega bara steypa sér í skuldir og bíða eftir að hlutirnir reddist, eins og íslendinga er háttur. Ganga á stofnanir og biðja um aðstoð á grundvelli fávisku, líkt og margir lántakendur í erlendum gjaldmiðlum gera sér far um þessa dagana. Þannig myndi þessi einstaklingur hámarka efnisleg gæði sín á lífsleiðinni.

Væri nú ekki æskilegt að breyta þessu áður en næsta krísa dynur yfir? Hvort sem það verður eftir 50 eða 100 ár. Lykilatriði í þessum efnum er að koma fólki í skilning um grundvallaratriði í peningamálum. Þetta væri hægt að gera á skólastigi, eða bara í gegnum netið, þar sem öllum landsmönnum væri gert skylt að taka próf í fjármálum áður en þeim yrði gert kleift að kaupa íbúð eða bíl. Það er mjög auðvelt að framkvæma það með hjálp nútíma tölvutækni. Hugsanlegt væri líka að veita fólki ekki fjárræði fyrr en próf í fjármálum hefur verið staðið, alveg eins og fólki er ekki hleypt á bíl án bílprófs. Fólk sem skuldar ber samfélagslega ábyrgð. Það er skattfé samviskusamra og ábyrgra þegna íslands sem fer í að draga þetta fólk upp úr skítahaugnum sem það hefur mokað sig í undanfarin ár. Og það mun taka áraraðir í tilfelli íslendinga í dag.

Ef við gerðum fólk vitsmunalega ábyrgt fyrir gjörðum sínum með því að fræða það þá þurfa sparifjáreigendur ekki að skaðast eins mikið í krísum sem þessari í framtíðinni. Þeim örfáu óábyrgu aðilum sem rasa um ráð fram yrði leyft að fara á hausinn í friði, eins og drukkinn ökumaður sem er sviftur ökuskýrteininu, enda hefðu þeir stefnt jafnvægi í efnahagsmálum í voða.

miðvikudagur, 8. október 2008

Tækifærin í kreppunni

Þar sem eru ógnanir eru tækifæri. Tók saman eftirfarandi lista yfir það sem ég tel vera vaxandi geira þegar flestir aðrir dragast saman. Vonandi að þetta verði einhverjum nýatvinnulausum bankamanninum sá innblástur til að skipta um vettvang og nýta tækifærin í stöðunni.

10. Framleiðsla á niðursoðnum matvörum.
9. Lyfjaframleiðsla (freistandi er fyrir marga að dópa sig frá áhyggjunum)
8. Jarðarfararþjónustur (fjármálaáhyggjur auka líkur á sjúkdómum sem geta dregið fólk til dauða og sjálfsmorðum hlítur að fjölga)
7. Fæðingaþjónusta (sýnt hefur verið fram á að fæðingum fjölgar í kjölfar erfiðleikatíma)
6. Lögfræðiþjónusta
5. Innheimtuþjónusta
4. Sálfræðiþjónusta
3. Pakkaferðir mann- og félagsfræðinga til landsins til að fylgjast með viðbrögðum nýríkrar þjóðar í glímu við stórkostlegt fjármálaáfall.
2. Sala á tækjum og hrávörum til heimabruggunar
1. Lífvarðaþjónusta handa ráðamönnum þjóðarinnar.

Varðandi bloggið í gær gleymdi ég að taka fram stýrivaxtastefnuna í dag, eftir hrunið (eða í því miðju). Það ætti að vera löngu búið að lækka stýrivexti. Ég myndi halda að það væri lágmark að fara með þá niður í 10% í fyrsta stökki. Og það þyrfti að gerast sem fyrst.

þriðjudagur, 7. október 2008

Hetja - Skúrkur

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að tjá eftirfarandi álit minn um þennan mann, eftir að hafa unnið mjög gott verk í pólitíkinni er hann greinilega kominn inn á svið sem hann á ekki heima. En hann þessi er því miður búinn að gera svo rækilega upp á bak að það er komið í hárið á honum!

Eftirfarandi mistök eru að kosta skattgreiðendur gríðarlegar upphæðir. Og þær hækka nú hratt frá degi til dags, eftir því sem mistökunum fjölgar, því nú eru mjög krítískir tímar og hver ákvörðun er mjög mikilvæg.

Ég geri mér grein fyrir að ekki er allt 100% honum að kenna og aðrir seðlabankastjórar eiga náttúrulega sinn þátt í þessum ákvörðunum. En hann á klárlega sinn þátt. Eins er sjálfsagt fleira sem hægt er að taka til, sem ég man ekki í augnablikinu.

1. Stýrivextir voru hækkaðir allt of hægt í kjölfar þess að hann kom inn.
2. Bindiskylda var lækkuð þegar hún hefði í raun átt að vera hækkuð fyrir þremur árum og jók þannig enn á verðbólguna.
3. Seðlabankinn beytti sér ekki nægilega staðfast gegn útlánabrjálæðinu til íslenskra fyrirtækja og heimila sem náði hámarki í erlendu lánunum sl. 2 ár.
4. Samskiptaörðugleikar virðast hafa verið milli íslenska og bandaríska seðlabankans sem olli því að SÍ var ekki í gjaldeyrisswappinu við norðurlöndin. Ef ekki samskiptaörðugleikar þá léleg ákvörðunartaka í stýringu á gjaldeyrisforðanum, sem kemur á sama stað niður.
5. Yfirtakan á Glitni var mjög umdeild og aldrei kom nægjanlega góð skýring á þeim gjörningi.
6. Lekinn í dag um Rússneska lánið er mjög alvarlegur. Það er vinnuregla allra aðila á mörkuðum að halda samningum fyrir sig þangað til þeir eru frágengnir. Eftir þetta er seðlabankinn ekki í neinni samningsaðstöðu.
7. Tilkynning dagsins um að ætlunin var að festa gengi krónunnar í 131 kr/eur var ótrúleg. Allt of sterkt gengi mv. undanfarna daga. Sem betur fer var bara smotterí sem skipti um hendur á þessu gengi frá SÍ, en ef þeir hefðu verið mjög staðfastir í þessu gæti ég trúað að markaðsaðilar hefðu gengið nærri gjaldeyrisvarasjóðinum og kostað skattborgara milljarða á milljarða ofan.

Ath. ég tiltek ekki háa vexti, enda er verðbólgan tilkomin af nr. 2 og 3 og þeir verða að hækka svo hægt sé að glíma við verðbólgu.

Svo kemur hann fram og blandar peningamálunum, fjármálum fyrirtækja og ríkisfjármálunum rækilega saman, sem mér finnst alls ekki við hæfi. Segir frá mistökum sínum án þess að virðast sýna vott af iðrun.

Ef fólk skildi mistökin og hvað þau eru að kosta þjóðarbúið væri örugglega löngu búið að gera biltingu gegn SÍ. Í staðin eru þetta örfáir nördar eins og ég hver í sínu horni að röfla við sjálfan sig.

mánudagur, 6. október 2008

Hvað gerðist?

Ríkið getur yfirtekið eignir, tekið við stjórn fjármálafyrirtækja og Íbúðalánasjóður getur keypt íbúðalánaskuldir af bönkunum. Í rauninni hefur ríkið því miklar heimildir til að taka yfir verðmæti fjármálafyrirtækja fyrirvaralaust.

Þetta hjálpar ekki kerfinu í heild, sem eru mikil vonbrigði. Hins vegar eru hagsmunir innistæðueigenda betur tryggðir, sem er jákvætt. Það er því enga utanaðkomandi hjálp að fá að utan og mér sýnist að ríkið sé að taka á sig meiri ábyrgð, sem endurspeglast m.a. í því að S&P lækkaði lánshæfismat Íslenska ríkisins niður í BBB í kvöld, sem er lægsta einkunn sem er viðurkennt sem "investment grade" af fjármálakerfinu úti. M.ö.o. íslensk ríkisskuldabréf eru á barmi þess að vera talin meðal ruslskuldabréfa (junk bonds), sem þýðir að margir sjóðir erlendis mættu ekki fjárfesta í bréfunum, lögum samkvæmt. Ríkið mun því þurfa að greiða mun hærri vexti af þeim lánum sem það tekur í náinni framtíð.

Þetta lítur því mjög illa út. Við erum sennilega sú þjóð sem á í mestum vanda, þó flestar aðrar þjóðir séu að díla við það sama. Vonandi bara að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjargi okkur út þessu, þó þeir séu nú yfirleitt að aðstoða þróunarríki. Við ráðum einfaldlega ekki við ástandið eins og það er í dag.

Til að líta á björtu hliðarnar getum við sagt að mannfræðingar geti haft verðugt rannsóknarefni á næstu dögum/vikum/mánuðum/árum í að fylgjast með hvernig ástandið þróast. Gæti verið viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu? ;)

laugardagur, 4. október 2008

Þeir sem vissu

Hæstvirtur forsætisráðherra hefur ítrekað talað um að við séum fórnarlömb aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum sem enginn sá fyrir. Að sjálfsögðu sáu ekki margir fyrir gjaldþrot þeirra risabanka sem komið hafa í ljós. Hins vegar eru til þeir aðilar sem hafa um áraraðir varað við skuggalegri þróun á heimsmörkuðunum.

Á fasteignamörkuðum:
Robert Schiller
Prófessor við Yale í BNA sem spáði fyrir endalokum hlutabréfabólunnar 2000 í bók sinni, Irrational Exuberance (órökrétt gróska/gnægð). Endurútgaf bókina árið 2005 þar sem hann benti á að bólan hafði í raun ekki sprungið, heldur aðeins færst yfir á fasteignamarkaðinn.
http://www.econ.yale.edu/~shiller/

Á fjármálamörkuðum:
Nassim Nicholas Taleb
Óheyrilega gáfaður maður sem hefur barist af alefli við að segja fólki að áhætta er stórlega vanmetin á fjármálamörkuðum, vegna þess að módelin sem bankar vinna út frá byggja á röngum forsendum. Gerir óspart grín að fólki með of hátt sjálfstraust/þekkingar - hlutfall, sem er þjóðþrifaverk sem einhver verður að taka að sér. Eftir að hrikta fór í stoðum fjármálamarkaðanna í fyrra fóru bækur hans, "The Black Swan" og "Fooled by randomness" skyndilega að seljast í bílförmum.
http://www.fooledbyrandomness.com/

Spilling og tenging við Ísland:
Jóhannes Björn
Mér skilst að margir hafi hlegið að þessum manni þegar hann skrifaði um samsæriskenningar sínar í bókinni "Falið vald". Hann hefur hins vegar lengi talað um að fjármálakerfið sem við byggjum á er byggt á sandi.
http://www.vald.org/

Þá hef ég fylgst með umræðum hér, þar sem fjöldi íslendinga hafa varað við löskuðu kerfi, skuldsetningu, viðskiptahalla og fleiri aðsteðjandi vandamálum í heimshagkerfinu og Íslandshagkerfinu. Í heiminum eru því eflaust milljónir manna sem sáu og áttuðu sig á aðsteðjandi vandamálum. Samt fór sem fór.

Af hverju var ekki hlustað á þessa menn? Var þekking þeirra ofvaxin skilningi stjórnmálamanna og þeirra sem báru ábyrgð á þróun mála í heiminum? Eða vildi kannski enginn bera ábyrgð á þróuninni? Kannski langaði menn bara ekki til að skilja þetta. Málið er að það voru fjöldi aðila sem hafði hag af því að bólurnar á fasteigna- og fjármálamörkuðum yrðu sem stærstar. Er þar nóg að nefna fasteignasala, fasteignalánamiðlara, verðbréfamiðlara og stjórnendur banka á árangurstengdum launum. Þessir aðilar hafa grætt vel á bólunni og eru ekkert nauðsynlega að tapa neinu við hrun markaðanna í dag. Hagsmunum þessara aðila var því best borgið með því að hlusta ekki. Stjórnmálamenn lögðu of mikið traust á aðila fjármálamarkaðarins til að halda kerfinu heilbrigðu.

Ég vona því að ráðamenn ráðfæri sig við menn sem þessa áður en þeir fara að ana af stað í myrkrinu, það gæti sparað skattgreiðendum óheyrilegar fjárhæðir. Þeir þurfa ekki einu sinni að ganga svo langt að hafa samband við þá. Schiller hefur gefið út bók um hvernig takast skuli á við þessa krísu sem heimurinn glímir við í dag.