miðvikudagur, 4. mars 2009

Er ekki dauður...

...hef bara ekki nennt að blogga.

En gleðilegt ár og til hamingju með afmælið, allir sem það hafa átt síðan síðast.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Enn ein snilldin ...

... frá Baggalúti var að koma út. Sjá hér.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Eftirátryggingar

Magnað hvað maðurinn getur verið sjónlaus á hættur sem fylgja breytingum í umhverfinu á sama tíma og hann fórnar hverju sem er til að forðast endurtekningu á hamförum fortíðar.

Þetta má til dæmis merkja af:
1. Snjóflóðavarnargörðunum sem byggðir voru eftir flóðin á Vestfjörðum ´95.
2. Viðvaranarkerfið sem sett var upp eftir flóðin í Indlandshafi 2004.
3. Hugmyndir manna um að ganga í EB núna eftir fjármálakrísuna.

Af hverju var ekki búið að grípa til varúðarráðstafana áður en áföllin dundu yfir? Var enginn búinn að sjá hættuna af ofangreindum atburðum? Allavega voru þeir til sem vissu af möguleikanum af fjármálakrísunni. Á sama hátt er ég 100% viss um að þeir voru til sem vöruðu við hinum tveimur atburðunum. Af hverju ætli að það sé ekki hlustað á þessa menn? Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir:
1. Þetta er fólk sem eyðir tíma sínum í rannsóknir og er því ekki í eins miklum tengslum við valdamenn og þeir sem vinna jafnvel við að "networka".
2. Þar sem þetta fólk tilheyrir ekki stjórnmálaöflum komast viðlagaáætlanirnar ekki í stefnuskrár og fjárlög.
3. Þetta fólk er oft álitið bölsýnisfólk, sem er leiðinlegt að umgangast, þessvegna er best að hlusta ekki á það, forðast það og halda því utan við umræðuna. Þá líður öllum betur í ábyrgðarleysi sínu, geta notað fávisku sína til að verjast gagnrýni í framtíðinni og haldið áfram að byggja hús sín á sandi.
4. Það er miklu vinsælla meðal almúgans að vera jákvæður og byggja opp heldur en að vera fyrirhygginn og bregðast við mögulegum atburðum sem hafa aldrei gerst.

Nauðsynlegt er að þetta fólk fái meiri athygli í umræðunni og hjá stjórnmálamönnum í framtíðinni. Þá fara ráðstafanir okkar vonandi að bjarga einhverju, í stað þess að vera minnisvarðar um andvaraleysi og skort á fyrirhyggju. Það hefur varla fallið snjókorn á Íslandi frá snjóflóðunum á Vestfjörðum, spennan í jarðskorpunni á Indlandshafi minnkaði til muna með skjálftanum 2004, svo ekki eru líkur á viðlíka skjálfta næstu áratugina. Önnur eins fjármálakrísa og við eigum eftir að upplifa mun sennilega ekki sjást aftur á þessari öld.

Hins vegar er nóg af öðrum ógnunum sem þarf að fara að horfa til.
Sem dæmi má nefna Las Palma, sem er spænsk eldfjallaeyja úti fyrir ströndum Afríku. Næst þegar hún gýs eru góðar líkur á að stór hluti hennar hrynji í sjó og myndi 100 metra háa öldu, sem myndi skella á ströndum hafa svívirðilegar afleiðingar. Hægt er að lesa um þetta hér. Þetta hefur mjög lítið verið rætt, þrátt fyrir að svo virðist sem um gríðarlega ógn sé að ræða.

Svo eru það náttúrulega allar þær ógnir vegna veðurfarslegra breytinga. Læt eiga sig að endurtaka það allt. Hefur allt komið fram í fjölmiðlum.

Allavega, ég held að það sé kominn tími til að stjórnmálamenn láti þessi mál sig varða og hætta þessari sífelldu eftirámúgsefjun, sem hefur viðgengist síðustu áratugi, að því er virðist. Tryggjum fyrirá! ;)

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Fátt er svo með öllu illt

Þó að fjármálakrísan eigi eftir að reyna á þolrif margra og setja jafnvel á hausinn er klárt að hún mun örugglega einnig hafa jákvæð áhrif til lengri tíma. Ég trúi því allavega að til þess að mannkynið geti haldið áfram för sinni til betra samfélags verði annars lagið að stíga skref afturábak tímabundið áður en áfram er haldið. Ég held að eftirfarandi geti gerst á næstu árum:

Samhygð á eftir að aukast nú þegar þrengir að, sem kemur í stað eiginhagsmunapotsins áður. Fólk mun því læra meira hvert af öðru og þroskast sem einstaklingar.

Meiri tími verður til þess að huga að því mikilvæga í lífinu, í stað þess að vera alltaf að rembast við að klára verkefnastaflann fyrir tilsettan tíma.

Atvinnuleysi eykst til skemmri tíma, en svo vænti ég að verkefnaálagi verði dreift á atvinnulausa og þeir þannig virkjaðir. Þetta gæti t.d. gerst með styttingu vinnuskyldunnar, t.d. í 7 tíma á dag. Enn meiri tími í það sem skiptir raunverulega máli.

Fókusinn hjá fólkinu verður ekki lengur á lífsgæðakapphlaupið, heldur á það sem raunverulega skiptir máli; að hámarka hamingjuna.

Nú þegar kreppir að mun fólk huga betur að því að nýta allt sem best. Þetta dregur úr sóun og hægir á eyðingu náttúruauðlinda.

Neyðin kennir naktri konu að spinna. Tækniþróun gerist í stökkum. Ekki er ólíklegt að tekin verði stór skref í tækniþróun í náinni framtíð, þar sem oft virðist sem snilldin fæðist við kröpp kjör. Ekki ólíklegt að þessi þróun verði á sviði orkugjafa.

Í krísuástandi fæðast leiðtogar. Væntanlega hefur áhugi manna á pólitík vaxið mjög núna á síðustu vikum. Það má alveg búast við að við fáum notið ávaxtanna af því næstu áratugina.

Fólk verður víðsýnna. Gengur ekki að heiminum sem vísum eða að hægt sé að framlengja fortíðina inn í framtíðina. Heimurinn er flóknari en svo. Samfélagið verður því raunsærra og skemmtilegra.

Þetta er allavega það sem mér dettur í hug svona í fljótu bragði. Örugglega er þó margt fleira sem mætti tiltaka í þessum efnum.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Vegna fjölda áskorana

Kemur hér blogg um verðbólgu og vexti.

Verðbólga er í rauninni bara þegar fólk er að reyna að nota of marga peninga til að kaupa of fáar vörur. Þegar allir eru í jollí fíling að taka lán á milljón til að eyða í vitleysu hækkar verð og þá er verðbólga. Þetta hefur verið raunin sl. 5 ár allavega á Íslandi. Síðan verður líka verðbólga ef ekki eru til nógu mikið af vörum til að selja fólki (t.d. þegar Dabbi kóngur leyfir ekki innflutning á öðru en því sem honum finnst nauðsynlegt). Í báðum tilfellum hækkar verð á vörum, og verðtryggð lán hækka í takt (sem lántakendum finnst ömurlegt), sem og verðtryggðar innistæður (sem eigendum þeirra finnst æðislegt). Í dag eru sumir lántakendur í hættunni á að fara á hausinn, þannig að eðlilega hafa kvartanir þeirra heyrist hærra en gleðihróp síðarnefnda hópsins.

Fræðilega séð eiga vextir að slá á verðbólgu. Þetta er af því að háir vextir valda auknum útgjöldum skuldara (sem eru mun fleiri en fjármagnseigendur), þannig að þeir hafa minna á milli handanna til að eyða í drasl. Hence, færri krónur að eltast við sömu vörur og þ.a.l. minni verðbólga. Þetta hefur hins vegar ekki virkað undanfarin ár, út af því að:

1. Meirihluta almennings hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
2. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
3. Sumu fólki er nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðli lánið er.
4. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðlum lánin eru.

Þess vegna hafa bankarnir bara lánað meira og meira til fólks í allskonar gjaldmiðlum(fleiri peningar að eltast við sömu vörurnar), sem hefur yfirunnið áhrif hærri vaxta.

Svo gæti ég líka skrifað langan og leiðinlegan texta um að stýrivextir virki illa á Íslandi vegna þess að meirihluti lána eru verðtryggð, en ég nenni því ekki núna. Þetta samband ætti að virka hvort sem er til lengri tíma litið.

Hins vegar er staðan núna þannig að hálf þjóðin er að fara á hausinn. Sem þýðir miklu minna af peningum verður fyrir hendi í fyrirsjáanlegri framtíð til að eltast við vörur = minni verðbólga. Þó gæti líka orðið miklu minna af vörum fyrir hendi = meiri verðbólga. Það er því mikil óvissa framundan. Ég treysti mér þó til að spá fyrir um eitt: Fasteignaverð lækkar. IMF er að reyna að halda þessum fáu peningum sem eftir eru í landinu hérna með því að hækka vexti. Hliðaráhrifin eru hins vegar þau að fleiri fara á hausinn, og fyrr, en ella.

Ekki bara óvissa hvað varðar þróun í efnahagslífinu. Ég held að þjóðfélagið eigi eftir að taka stakkaskiptum. Yfirborðsleg bjartsýni undanfarinna ára mun víkja fyrir raunsæi, vonandi þó ekki svartsýni. Þetta verður mikill skellur fyrir mest skuldsettu skýjaglópana. Þetta verður "make or break" fyrir íslensku þjóðina næstu mánuði og ár. Það besta sem ég held að hægt sé að gera er að hætta að "vona" hitt og þetta (sbr. ráðamenn), sætta sig við stöðuna eins og hún er og það versta sem gæti gerst (ef menn hugsa þetta til enda er þetta ekki það slæmt). Ef fólk nær þessu fram á það mun auðveldara með að byggja sig og sína upp eftir áfallið.

Vona að þetta hafi verið skiljanlegt :)

þriðjudagur, 28. október 2008

Góðæri!

Jæja, þá er góðærið skollið á sem maður hefur verið að undirbúa sig fyrir meirihluta ævinnar. En það var fullt að gera í vinnunni sl. viku. Kom yfirleitt heim um eða uppúr miðnætti eftir streðið og mætti líka á laugardaginn. Líklegt er að ástandið verði svipað næstu vikurnar, þannig að það verður mikil þensla í Sigurviníska hagkerfinu á næstunni. Mikið er Ísland nú heppið að hafa viðlíka sveiflujafnara innanbúðar ;)

Annars lítið að frétta. Það var reyndar starfsdagur á föstudaginn hjá fyrirtækjasviði KPMG, sem var haldinn úti í Kjós. Farið var á fjórhjól með hópinn og endaði það með mat um kvöldið og léttum veitingum sem runnu það ljúflega niður að haldið var á galeiðuna þegar komið var aftur í bæinn, um kl. 1. Sumsé, mjög vel heppnað og höfðu menn gaman að.

Læt vita af mér eftir því sem tími vinnst til.

mánudagur, 20. október 2008

Ábyrgð og fyrirgefning

Einkennilegt hvað menn hlaupast alltaf undan merkjum þegar kemur að því að lýsa yfir ábyrgð á hruninu sem við erum að upplifa. Það er eins og menn séu alveg logandi hræddir við afleiðingarnar ef þeir gangast undir minnstu ábyrgð í stjórnmálum yfirhöfuð. Hugsanlega hefur þetta fólk ekki fengið mikla fyrirgefningu í æsku frá móður sinni eftir prakkarastrikin.

Menn ættu nú að fara að átta sig. Það vita allir sem vilja hverjir bera ábyrgðina. Það eina sem þeir vinna með þessari þvermóðsku er að þeir eru vanhæfir til að byggja upp eftir hrunið, af því að engin mistök hafa verið viðurkennd. Ef engin mistök hafa verið gerð, er þá einhver ástæða til að breyta út af einhverju í regluverki fjármálamarkaða, peningamálastjórn, fjármálastjórn hins opinbera eða öðru sem við kemur þessu rugli?

Því segi ég að ef enginn gengst við ábyrgð á þessu þá hlýtur íslenska þjóðin að krefjast þingkosninga og það verður flóðbylgja nýs fólks inn í stjórnmálaflokkana sem hreinsar út gömlu gildin. Vel menntað fólk á sviði viðskipta- og hagfræði, sem er nýbúið að missa vinnuna úr bönkunum og upplifði afleiðingar mistakanna frá fyrstu hendi, í stað gamalla íþróttakennara og skottulækna sem hafa verið allt of lengi við stjórnvölinn. Þetta getur gerst að því gefnu að fólk er ekki orðið of samdauna sjónvarpsdagskránni og aðgerðarleysinu sem mín kynslóð ólst upp við. Sem er reyndar líklegt.

Ef hins vegar þeir hinir ábyrgu taka við sér og gangast við ábyrgðinni þá treysti ég engum betur til að byggja upp eftir þetta heldur en þessu sama fólki. Það hlýtur að vera af vilja gert til að bæta fyrir mistök sín, enda hefur það hlotið fyrirgefningu þjóðarinnar fyrir, eitthvað sem jafnvel móðirinn gat einhverra hluta ekki veitt. Það hlýtur að vera einhvers virði.

Og þetta tal um að það verði tími síðar til að finna sökudólgana eru náttúrulega bara dylgjur. Þetta tekur ekki nema nokkrar sekúndur í sjónvarpi (eða með sjálfum sér, fyrir þá sem eru ekki það hátt settir) og þá geta viðkomandi farið að einbeita sér að uppbyggingunni með góðri samvisku.

Það er engin skömm að því að viðurkenna mistök eða skipta um skoðun. Það veit fólk sem stefnir einlæglega að því að bæta samfélagið, sama hvað eigin stolti líður.