mánudagur, 21. apríl 2008

Púff!

Fyrsta prófi annarinna er þar með lokið. Þetta verður að teljast eitt erfiðasta próf sem ég hef tekið og óvíst að maður sleppi í gegn. Öllum sem ég hef talað við gekk illa og sumum var heitt í hamsi vegna ósamræmis á milli upplýsinga sem kennarinn veitti um prófið og þess sem raunin svo varð. Það verða því sennilega margir sem þurfa að fara í upptökupróf í ágúst/september í haust. Mögulegt er að þetta próf hafi verið hugsað sem sía, þar sem mjög fáir féllu á haustprófunum.

En það þýðir víst ekki að dvelja við það. Verð að byrja fljótlega að undirbúa næstu tvö próf sem verða á þriðjudag og fimmtudag í næstu viku. Vænti þess þó að þau verði minni fyrirstaða en prófið í dag, sérstaklega þriðjudagsprófið.

Ég hef þó leyft mér að slappa af í kvöld áður en næsta törn byrjar. Verst að það er orðið svo langt síðan maður leyfði sér að gera eitthvað annað en að læra að maður veit ekki hvað maður á að gera við sig...

...kannski maður skipuleggi undirbúning næstu tveggja prófa.

Bjarkey er að fara í fyrsta prófið á miðvikudaginn. Hún fer svo í þrjú í næstu viku: mánudag - miðvikudag - föstudag. Næsta vika hjá okkur verður því í beinann ættlegg af helvíti. Eða eitthvað svoleiðis. Gaman að því!

2 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Hih. Í beinan ættlegg af helvíti... Ég ætla að stela þessum við tækifæri. Gangi ykkur vel, rýjurnar mínar.

Þessi árstími virðist annars alltaf vera í frekar svona "beinan ættlegg af helvíti" hvort sem maður er í námi eður ei. Ég stend allavega alltaf í deddlænum uppfyrir haus í maí og þar í kring. Og árið í ár er engin undanteknin, þó maður eigi að heita í fæðingarorlofi...

Sigurvin sagði...

Gæta skal að geta heimildar þegar vísað er í þessi orð í mæltu máli með því að lyfta báðum höndum og hreyfa vísifingur og löngutöng til marks um beina tilvitnun, sísvona: "Beinan ættlegg af helvíti". Annað varðar við brot á höfundarréttarlögum. Örugglega.

En takk fyrir það og sömuleiðis. Veit að þú klárar þig af þessu afsprengi helvítis.