Hæstvirtur forsætisráðherra hefur ítrekað talað um að við séum fórnarlömb aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum sem enginn sá fyrir. Að sjálfsögðu sáu ekki margir fyrir gjaldþrot þeirra risabanka sem komið hafa í ljós. Hins vegar eru til þeir aðilar sem hafa um áraraðir varað við skuggalegri þróun á heimsmörkuðunum.
Á fasteignamörkuðum:
Robert Schiller
Prófessor við Yale í BNA sem spáði fyrir endalokum hlutabréfabólunnar 2000 í bók sinni, Irrational Exuberance (órökrétt gróska/gnægð). Endurútgaf bókina árið 2005 þar sem hann benti á að bólan hafði í raun ekki sprungið, heldur aðeins færst yfir á fasteignamarkaðinn.
http://www.econ.yale.edu/~shiller/
Á fjármálamörkuðum:
Nassim Nicholas Taleb
Óheyrilega gáfaður maður sem hefur barist af alefli við að segja fólki að áhætta er stórlega vanmetin á fjármálamörkuðum, vegna þess að módelin sem bankar vinna út frá byggja á röngum forsendum. Gerir óspart grín að fólki með of hátt sjálfstraust/þekkingar - hlutfall, sem er þjóðþrifaverk sem einhver verður að taka að sér. Eftir að hrikta fór í stoðum fjármálamarkaðanna í fyrra fóru bækur hans, "The Black Swan" og "Fooled by randomness" skyndilega að seljast í bílförmum.
http://www.fooledbyrandomness.com/
Spilling og tenging við Ísland:
Jóhannes Björn
Mér skilst að margir hafi hlegið að þessum manni þegar hann skrifaði um samsæriskenningar sínar í bókinni "Falið vald". Hann hefur hins vegar lengi talað um að fjármálakerfið sem við byggjum á er byggt á sandi.
http://www.vald.org/
Þá hef ég fylgst með umræðum hér, þar sem fjöldi íslendinga hafa varað við löskuðu kerfi, skuldsetningu, viðskiptahalla og fleiri aðsteðjandi vandamálum í heimshagkerfinu og Íslandshagkerfinu. Í heiminum eru því eflaust milljónir manna sem sáu og áttuðu sig á aðsteðjandi vandamálum. Samt fór sem fór.
Af hverju var ekki hlustað á þessa menn? Var þekking þeirra ofvaxin skilningi stjórnmálamanna og þeirra sem báru ábyrgð á þróun mála í heiminum? Eða vildi kannski enginn bera ábyrgð á þróuninni? Kannski langaði menn bara ekki til að skilja þetta. Málið er að það voru fjöldi aðila sem hafði hag af því að bólurnar á fasteigna- og fjármálamörkuðum yrðu sem stærstar. Er þar nóg að nefna fasteignasala, fasteignalánamiðlara, verðbréfamiðlara og stjórnendur banka á árangurstengdum launum. Þessir aðilar hafa grætt vel á bólunni og eru ekkert nauðsynlega að tapa neinu við hrun markaðanna í dag. Hagsmunum þessara aðila var því best borgið með því að hlusta ekki. Stjórnmálamenn lögðu of mikið traust á aðila fjármálamarkaðarins til að halda kerfinu heilbrigðu.
Ég vona því að ráðamenn ráðfæri sig við menn sem þessa áður en þeir fara að ana af stað í myrkrinu, það gæti sparað skattgreiðendum óheyrilegar fjárhæðir. Þeir þurfa ekki einu sinni að ganga svo langt að hafa samband við þá. Schiller hefur gefið út bók um hvernig takast skuli á við þessa krísu sem heimurinn glímir við í dag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Jó!
Nú þarftu að þýða daginn fyrir mig og spá fyrir um framhaldið!
sjá nýja færslu. Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um framtíðina, nema hvað varðar möguleika í ferðaþjónustu, sem ég tiltók.
Skrifa ummæli