Mér þykir leiðinlegt að þurfa að tjá eftirfarandi álit minn um þennan mann, eftir að hafa unnið mjög gott verk í pólitíkinni er hann greinilega kominn inn á svið sem hann á ekki heima. En hann þessi er því miður búinn að gera svo rækilega upp á bak að það er komið í hárið á honum!
Eftirfarandi mistök eru að kosta skattgreiðendur gríðarlegar upphæðir. Og þær hækka nú hratt frá degi til dags, eftir því sem mistökunum fjölgar, því nú eru mjög krítískir tímar og hver ákvörðun er mjög mikilvæg.
Ég geri mér grein fyrir að ekki er allt 100% honum að kenna og aðrir seðlabankastjórar eiga náttúrulega sinn þátt í þessum ákvörðunum. En hann á klárlega sinn þátt. Eins er sjálfsagt fleira sem hægt er að taka til, sem ég man ekki í augnablikinu.
1. Stýrivextir voru hækkaðir allt of hægt í kjölfar þess að hann kom inn.
2. Bindiskylda var lækkuð þegar hún hefði í raun átt að vera hækkuð fyrir þremur árum og jók þannig enn á verðbólguna.
3. Seðlabankinn beytti sér ekki nægilega staðfast gegn útlánabrjálæðinu til íslenskra fyrirtækja og heimila sem náði hámarki í erlendu lánunum sl. 2 ár.
4. Samskiptaörðugleikar virðast hafa verið milli íslenska og bandaríska seðlabankans sem olli því að SÍ var ekki í gjaldeyrisswappinu við norðurlöndin. Ef ekki samskiptaörðugleikar þá léleg ákvörðunartaka í stýringu á gjaldeyrisforðanum, sem kemur á sama stað niður.
5. Yfirtakan á Glitni var mjög umdeild og aldrei kom nægjanlega góð skýring á þeim gjörningi.
6. Lekinn í dag um Rússneska lánið er mjög alvarlegur. Það er vinnuregla allra aðila á mörkuðum að halda samningum fyrir sig þangað til þeir eru frágengnir. Eftir þetta er seðlabankinn ekki í neinni samningsaðstöðu.
7. Tilkynning dagsins um að ætlunin var að festa gengi krónunnar í 131 kr/eur var ótrúleg. Allt of sterkt gengi mv. undanfarna daga. Sem betur fer var bara smotterí sem skipti um hendur á þessu gengi frá SÍ, en ef þeir hefðu verið mjög staðfastir í þessu gæti ég trúað að markaðsaðilar hefðu gengið nærri gjaldeyrisvarasjóðinum og kostað skattborgara milljarða á milljarða ofan.
Ath. ég tiltek ekki háa vexti, enda er verðbólgan tilkomin af nr. 2 og 3 og þeir verða að hækka svo hægt sé að glíma við verðbólgu.
Svo kemur hann fram og blandar peningamálunum, fjármálum fyrirtækja og ríkisfjármálunum rækilega saman, sem mér finnst alls ekki við hæfi. Segir frá mistökum sínum án þess að virðast sýna vott af iðrun.
Ef fólk skildi mistökin og hvað þau eru að kosta þjóðarbúið væri örugglega löngu búið að gera biltingu gegn SÍ. Í staðin eru þetta örfáir nördar eins og ég hver í sínu horni að röfla við sjálfan sig.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Já, þessi gaur hefur alltaf verið fáviti. Gott að þú ert að sjá ljósið. ;-)
Ég vil nú ekki segja að hann sé fáviti. En hann hefur litla þekkingu á efnahagsmálum og stjórnunarstíll hans hentar alls ekki seðlabankanum.
En þetta mun sennilega valda því að VG fær ca. 40% í næstu þingkosningum, spái ég.
Einmitt. Veit fátt = fá-viti. ;-)
Skrifa ummæli