Jæja, þá er maður búinn að prófa fyllerí að hætti breta. Mér líst mjög vel á bekkinn. Þetta virðist ætla að verða þokkalega samheldinn hópur.
Fórum um 10 strákar (2 írar, 2 englendingar, 2 indverjar, 1 hollendingur, 1 Pólverji, og 1 keníabúi/indverji/englendingur) úr bekknum á háskólapöbbinn eftir skóla (kl. 6 í gær), en þá var þegar orðið fullsetið, en við fengum okkur einn þar sem við stóðum þarna. Vorum reyndar búnir að kíkja á restaurant fyrir tímann þar sem menn fengu sér einn með matnum (sem orsakaði reyndar það að diffurjöfnurnar runnu ekki alveg eins greiðlega ofan í mannskapinn).
Eftir það fórum við á kráarrölt og var tekið nokkuð vel á því. Írarnir keyrðu þetta áfram, eins og þeim einum er lagið. Eftir kvöldið vorum við búnir að flakka á milli 3 kráa og fara á einn "klúbb", án þess að setjast einu sinni niður og með skólatöskurnar á okkur allan tímann (allar merktar Cass, þannig að markaðsspekúlantarnarnir væru örugglega ánægðir með auglýsingagildið á þessu hjá okkur.)
Þetta var sennilega fyrsta og eina bekkjardjammið á þessari önn, en við reiknum með að þetta verði bara stíf keyrsla þar til í lok janúar, þegar prófum líkur. Þá er stefnt á næsta geim.
Það er nokkur eftirmáli af þessu hjá mér, almennur slappleiki og slen. Gæti verið að ég sé búin að ná mér í kvef, en Bjarkey er búin að vera nokkuð slöpp gær og í dag. Maður hefur því bara verið að taka því rólega í dag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli