Gjaldeyrismarkaðir bjóða yfirleitt ekki upp á meiri sveiflur en hlutabréfamarkaðir frá degi til dags, en í dag var breyting þar á. 7% veiking á gjaldmiðli er fáheyrt. Það er helst að álíka hafi gerst í Rússlandi undir Borís Jeltsín eða við hrunið í Argentínu á 10. áratugnum. Munurinn er hins vegar sá að Ísland er þróað, (að því að við teljum okkur trú um) nútímalegt hagkerfi. Vissulega er skuldsetning landans á heimsmælikvarða en ástæða þessarar hreyfingar er fyrst og fremst að leita í vandræðum yfirskuldsettra fjárfesta sem hafa sennilega loksins neyðst til að gefast upp og loka stöðum sínum. Þetta ætti því að vera tímabundið ástand og krónan að koma til baka í framtíðinni. Hún gæti reyndar mögulega veikst eitthvað meira, en það væri þá bara tímabundið.
Eftir að hafa eytt smá tíma hérna úti hefur maður fengið nýja sýn á íslenskt hagkerfi og þá sérstaklega vegna atorkunnar í fólkinu. Það þarf ekki annað en að fara út í búð til að sjá muninn. Fjórtán ára krakkinn á kassa í Bónus á íslandi myndi taka 35 ára indverjann í Teskó í nefið hvað varðar afgreiðsluhraða. Svona er þetta varðandi flest hérna úti. Engin framleiðni. Að maður tali nú ekki um infrastrúktúrinn. Ísland er áratugum á undan Bretlandi varðandi gæði fasteigna, að því að mér virðist. Svo er það náttúrulega ódýra og hreina orkan sem við höfum heima, sem hefur og á eftir að fleyta okkur mjög langt í framtíðinni. Sérstaklega ef menn róa sig aðeins og rembast ekki við að koma upp álveri á hverjum útára helst í gær og setja með því allt kerfið á hliðina í óskilgreindan tíma. Það er ekki hollt.
En mestu tækifærin liggja þó í fólkinu. Þekking á eftir að verða í sífellt meira mæli sú náttúruauðlind sem skapar mest virði í heiminum. Til þess að geta hugsað þarf súrefni og af því hafa íslendingar nóg af, ólíkt mörgum öðrum þjóðum eins og t.d. kínverjum. Menntastigið er sífellt að aukast og menn eru orðir sjóaðri í alþjóðaviðskiptunum.
Ég held því að framtíðin sé björt. Það er aðeins spurning hvað millitíðin ber í skauti sér.
Annars kláraði ég eitt 25% verkefni um helgina, sem á að skila á föstudaginn nk. Kláraði minn hluta af 25% hópverkefni, sem á að skila föstudaginn 28. Samt er bilað að gera og maður sér ekki út úr verkefnastaflanum. 10% próf í Risk Analysis á fimmtudaginn, svo þarf ég að fara að byrja á verkefni sem telur heilan áfanga og á að skila 28. mars o.s.frv. Stuð.
Gaf mér samt tíma til að hitta Manna á laugardagskvöldið, sem var á ferðinni með pabba sínum í borginni til að sjá Arsenal - Middlesbrough. Kíkti í mat og nokkra bjóra með þeim - og fór svo aftur heim í verkefnavinnu þegar það var frá. Stuð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli