laugardagur, 22. mars 2008

Ísland hvað?

Í gær fórum við Bjarkey í sól og blíðu út í Waitrose að kaupa í páskamatinn ofl. Þetta væri nú svosem ekki til frásögu færandi, nema hvað að þegar við vorum komin heim aftur um hálftíma síðar var orðið heldur betur þungbúið. Stuttu seinna heyrðust þrumur og örskömmu seinna var komið... HAGLÉL! og það af sverari gerðinni. Held að ég hafi varla verið vitni að öðru eins á Íslandi. Höglin örugglega um 1 cm í þvermál og stóð élið í um mínútu. Jörðin var orðin grá eftir þetta. Breytilegt veðurfar er semsagt að finna víðar en á Íslandi, öfugt við það sem mér hefur fundist samhljóða álit íslendinga vera.

Kíkti annars aðeins út í gærkvöldi og hitti Halldór hollending, sem er í heimsókn í London yfir helgina og kvaddi Kacper, pólskan félaga minn og skiptinema í Cass, sem er að hverfa aftur til heimalandsins á morgun. Bara rólegt pöbbarölt og var kominn heim fyrir miðnætti. Ekki til ofdrykkjunnar boðið vegna verkefnaálags.

Já, og svo tók ég próf á fimmtudaginn í Risk analysis og fékk 86%. Prófið var reyndar fáránlega létt, en gott að fá eitt svona til að hífa meðaleinkunnina aðeins upp. Skilaði 25% verkefni í econometrics í gær og er að vinna í stóru verkefni (gildir 2/3 af heilum áfanga) sem á að skilast nk. föstudag ásamt með öðru 25% verkefni. Eftir það verður helsti kúfurinn liðinn hjá, án þess að hægt sé að segja að það verði rólegt.

Á morgun er planið að háma í sig lamb í hádeginu með frúnni og fara svo út að borða með Halldóri og Bjarkey á malasískan stað. Þess á milli verður borðað íslenskt páskaegg og unnið í risaverkefninu. Þetta verður því þéttur páskadagur á alla kanta. :)

Gleðilega Páska!

Engin ummæli: