fimmtudagur, 29. maí 2008

Ógnun/Tækifæri?

Hækkun olíuverðs hefur verið mikið til umjöllunar undanfarið um allan heim. Atvinnubílstjórar kveina og biðja ríkið um skattalækkanir til að gera þeim reksturinn auðveldari. Ef mörg ríki myndu varða við þessari ósk myndi þetta náttúrulega bara auka eftirspurn og heimsmarkaðsverðið myndi fara enn hærra - olíufurstum til ánægju, ríkisstjórnum til armæðu og olíuneytendur munu ekki verða fyrir áhrifum - til lengri tíma litið. Málið er nefninlega að framboð af olíu er komið upp undir ákveðið þak sem olíuhreinsunarstöðvar heimsins anna - um 84 milljón tunnur á dag.

Það er skrítið að fylgjast með stefnuleysinu í heimsmálunum stundum. Þegar veðrahamfarir eiga sér stað kvarta menn yfir gróðurhúsaáhrifum og lofa betrun til að bæta úr skák. Svo þegar á að fara að rukka meira fyrir olíuna kvarta menn í staðin fyrir að slá tvær flugur í einu höggi og stuðla að bættu andrúmslofti og spara í leiðinni. Það er allavega klárt mál að það eru ótal leiðir til að spara í olíuneyslu ef menn einfaldlega nenna að spá í því. Ég nefni bara vistakstur, sem ég efast um að margir hafi kynnt sér og getur sparað ég-man-ekki-hvað marga tugi prósenta í bensíneyðslu. Vandinn er að sumir sjá bara ógnanir í breytingum.

Aðrir sjá tækifæri í þessu. Þar á meðal eru flutningafyrirtæki sem einbeita sér að því að fjárfesta í sparneytnari bílum og þjálfa bílstjórana upp í að vera meðvitaða um eyðsluna. Sum fyrirtæki finna tækifæri til að nýta olíuna betur en áður. Toyota er eitt af þeim með Priusinn og hafa stórgrætt á. Svo eru það náttúrulega orkufyrirtæki sem nýta "hreinar" náttúruauðlindir til orkuframleiðslu, þar getur maður nefnt jarðvarma og Enex á Íslandi.

Það sem ratar í fjölmiðlana er mótmæli bílstjóra á sköttum og gjöldum á olíu. Ég held að þessi neikvæða umfjöllun smiti út frá sér og menn fókusa of mikið á ógnanirnar í stöðunni. Því miður. En það er samt skrítið að sjá bílstjóra í Bretlandi og á Íslandi mótmæla sköttum á olíu nánast á sama tíma. Sennilega eru menn bara að reyna að finna blóraböggul fyrir þessum verðum, sem er náttúrulega ekki til (nema þeir sjálfir kannski). Bílstjórarnir og flutningafyrirtækin verða bara að velta verðhækkununum yfir á gjaldskrárnar hjá sér svo þeir lendi ekki í vandræðum með reksturinn.

Bottom line: Ég held að fólk verði einfaldlega að sjá tækifærin í þessum breytingum. Almenningur getur hjólað/labbað/tekið strætó í vinnuna eða keypt sér sparneytnari bíla (og sparað á þessu enn meira en áður!) og fyrirtæki geta auðveldlega hagnast á þessu ef þau einfaldlega sjá þessar breytingar sem tækifæri, ekki ógnun.

laugardagur, 10. maí 2008

Hraðsoðin fjármálaheimspeki

Peningar eru ekkert annað en mælikvarði á virði. Ef mig langar í bjór þá versla ég bjór ef verðið á honum er lægra en sem svarar hversu mikils virði hann er fyrir mig og hversu aflögufær ég er um peninga. Til þess nota ég fjármagn sem ég öðlaðist með því að skapa virði fyrir aðra. Hér ber að athuga að "virði" er ávallt mat einstaklingsins sjálfs, enda er hann hæfastur til þess að meta það í hverju tilfelli.

Alþjóðavæðingin með samgöngu-, fjarskipta- og upplýsingabyltingunni hefur ollið því að möguleikar fólks til að skapa virði verða stöðugt jafnari óháð fæðingarstað og staðsetningu einstaklingsins hverju sinni. Þetta gerir eftirfarandi að verkum:
Efnahagur þjóða verður stöðugt jafnari (ef frá eru taldar öfgafullar undantekningar sem orsakast af spilltum pólitíkusum, sbr. Robert Mugabe í dag).
Ríkir verða ríkari hraðar heldur en fátækir verða minna fátækir samhliða því að fyrirtæki stækka vegna samlegðaráhrifa og stjórnendur ausa í sjálfa sig aukinni risnu í krafti stærðarhagkvæmni. Þessi þróun verður þó ekki haldið út í hið endalausa, þar sem of stórum fyrirtækjum fylgja ákveðin skipulagsvandamál.
Fólk sem gegnir sömu störfum mun verða jafn vel launað, óháð staðsetningu. Þetta hefur valdið tímabundnum pirringi hjá verkamönnum á vesturlöndum (kannski fyrir utan Ísland, sem ekki er sérstaklega til umræðu hér).
Samhliða því að fleiri hafa efni á nauðsynjavöru og eftirspurn nálgast framleiðslugetu náttúruauðlinda hækkar verð á hrávöru til lengri tíma litið. Þetta hefur sést í öfgafullum mæli að undanförnu á olíu- og matvælamarkaði.

Er þessi þróun eitthvað sem menn ættu að óttast? Ég held ekki. Eftir þessa þróun verður staðan sú að styrkur hvers lands verður nýttur á bestan mögulegan máta til virðissköpunar. Hvort sem það felst í nýtingu á náttúruauðlindum, staðsetningu eða öðru. Einnig verður mannauðurinn í heiminum nýttur á sem bestan máta til virðissköpunar, þar sem jafn hæfir einstaklingar hafa sömu möguleika óháð fæðingarstað. Vesturlandabúar geta því ekki búist við að vera hærra launaðir heldur en aðrir jarðarbúar í framtíðinni, nema að þeir séu hæfari á einhvern hátt til virðissköpunar, sama hvort þeir eru verkamenn úr Jökuldal eða bankastjórar í New York.

Þróunin í þessa átt er langt frá því að vera slétt og felld, eins og við höfum séð sl. áratug eða svo. Meiriháttar verðbólur á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum hafa hamlað henni undanfarið og skapað "falskan" vöxt á vesturlöndum. Orsakir þessara atburða eru sennilega grafnar í mannlegt eðli og menn verða að búast við annað veifið. Það breytir því ekki að langtímaþróunin verður að mínu mati eins og ég lýsti að ofan. Sem er vel.

En þó svo að einsleitni og kerfislægni fer fjármálamörkuðum vel (að því gefnu að um gott kerfi sé að ræða) er ég ekki að segja að það sama fari öðru í heiminum vel. T.d. er mikilvægt að standa vörð um fjölbreytilega menningu í heiminum. Það verður ekkert gaman ef öll menning verður Amerísk. Sama hvort um er að ræða Færeyska hringdansa eða Afríska bumbuslagara.

Ofangreint byggir á eftirfarandi forsendum:
Skattalöggjöf þjóða heimsins verði sífellt einsleitari.
Pólitík þróast í átt frá spillingu og til aukins lýðræðis hjá þróunarlöndunum (Líklegt í ljósi síaukins upplýsingaflæðis).
Maðurinn er ekki haldinn einhverri dulinni sjálfsútrýmingarhvöt. Sbr. sífellt versnandi heilsufar vesturlandabúa.

Kannski svolítil einföldun á raunveruleikanum, en lengri færsla hefði sennilega gert marga þreytta og aðra þunglynda.

föstudagur, 9. maí 2008

Veðrið

Það er búið að vera yfir 20 stiga hiti alla vikuna. Mjög ákjósanlegt svona þegar önnin er að byrja og smá tími aflögu til að taka því rólega. Fór t.d. í fótbolta í gær með bekkjarfélögunum og er að fara aftur á morgun með Cass og á sunnudaginn með íslendingunum. Reyndar verða afköst í námi töluvert minni af þessum sökum (sennilega komið svar við spurningu minni hérna um daginn varðandi læsihlutfall heimsins). Ég hélt t.d. athyglinni ekki lengur en í 3 tíma að VBA (forritun) í dag. Ákvað þá að rölta aðeins um og skrapp niður á Oxford Street. Keypti ekkert, eins og mér er lagið, og sýndist vera frekar dræm verslun mv. frábært veður og seinnipart föstudags. Ætli það sé ekki að koma samdráttur hérna í UK eins og í US.

Bjarkey flaug til Íslands í dag til þess að vera við fermingu yngsta bróður síns, Sigþórs, sem verður á sunnudaginn. Hún fer svo í starfsviðtal á þriðjudaginn, áður en hún flýgur til baka. Já, við höfum aðeins verið að leita fyrir okkur með vinnu á klakanum líka, enda þýðir ekki að vera með of miklar kenjar varðandi starfsmöguleika þegar ástandið á fjármálamörkuðum er orðið eins og það er.

Planið hjá mér um helgina er því tvíþætt: fótbolti og forritun. Ætla að reyna að vera á undan VBA kennaranum að fara yfir efni áfangans svo ég þurfi ekki að mæta í tíma hjá honum (þar sem hann er arfaslakur kennari). Sýnist það ætti ekki að vera mikið mál, þar sem við erum með fína bók í þessu. Það er því hugsanlegt að maður hafi tíma í eitthvað fleira um helgina, hvort sem hann fer í nám eða afþreyingu.

þriðjudagur, 6. maí 2008

Heimsmet í kjaftæði?

Hvað gera menn þegar þeir geta ekki leyst af hendi verkefni og þurfa að skrifa skýrslu um niðurstöðurnar? Svo virðist sem nánast allur bekkurinn minn hafi verið í þessari aðstöðu með verkefnið sem var skilað í dag. Einhverju þurfti að skila og því framleiddum við einhvern þann ómerkilegasta pappír sem framleiddur hefur verið sem var haldið uppi með kenningum sem við skildum ekki til fulls og tilviljanakenndum tilvitnunum í kóða sem virkaði ekki.

Bjarta hliðin á þessu máli er þó sú að við þurfum ekki nema 15% út úr þessu verkefni, þar sem við fengum 85% fyrir það fyrra. Gætum sloppið þar sem svo að segja allir voru í sömu stöðu og við, þannig að bekkurinn í heild fær sennilega nokkra "erfiðleikapunkta" gefins. En þessu verkefni reynir maður að gleyma sem allra fyrst.

Það var því gríðarlega gott að komast út eftir að við skiluðum í dag og uppgötva að það var 25 stiga hiti og sól. Var víst búið að vera svona í nokkra daga, en ég hafði ekki tekið eftir því. Þannig að maður skrapp út í Regent´s Park í skokk. Maður er nú orðinn óttarlegur vesalingur eftir þetta nám og getur varla hlaupið í meira en 10 mínútur án þess að standa á öndinni. Vonandi að maður hafi meiri tíma til hreyfingar á 3. önninni, sem byrjar eftir 3 tíma.

fimmtudagur, 1. maí 2008

Próflok! - Þó ekki annarlok

Jæja, þá er því lokið. Síðasta prófið kom ekki mikið á óvart og var því í léttari kanntinum. Það hefði nú samt alveg getað gengið betur hjá manni, en þetta var próf af þeirri gerðinni sem ég er ekkert sérstaklega sterkur í. Þ.e. að leggja sem mest á minnið án þess að þurfa að skilja nokkuð af þessu. Ef maður hefði reynt að skilja þetta almennilega hefði maður þurft að eyða hálfri ævinni í það. En ég held að maður sé allavega sloppinn í gegnum þetta, sem er fyrir mestu.

Eftir prófið ákváðum ég og tveir hópfélagar mínir að setja geðheilsuna framar öðru svona til tilbreytingar og leyfðum okkur að fá okkur í glas. Sumir af bekkjarfélögunum tóku annan pól í hæðina og fóru beint út í skóla til að vinna í síðasta verkefni annarinnar sem á að skilast á þriðjudaginn í næstu viku. Þetta verður jafnframt sennilega erfiðasta verkefnið sem við tökumst á við. Sem betur fer þurfum við bara að fá 15% fyrir þetta verkefni, þar sem við skoruðum svo vel í fyrra verkefni áfangans. En helgin mun fara í þetta, sem þýðir að annir 2 og 3 munu liggja saman, þar sem næsta önn byrjar á mánudaginn. Megastuð!

Stefni samt á að gefa mér 1-2 tíma í hlaup/fótbolta um helgina.