Peningar eru ekkert annað en mælikvarði á virði. Ef mig langar í bjór þá versla ég bjór ef verðið á honum er lægra en sem svarar hversu mikils virði hann er fyrir mig og hversu aflögufær ég er um peninga. Til þess nota ég fjármagn sem ég öðlaðist með því að skapa virði fyrir aðra. Hér ber að athuga að "virði" er ávallt mat einstaklingsins sjálfs, enda er hann hæfastur til þess að meta það í hverju tilfelli.
Alþjóðavæðingin með samgöngu-, fjarskipta- og upplýsingabyltingunni hefur ollið því að möguleikar fólks til að skapa virði verða stöðugt jafnari óháð fæðingarstað og staðsetningu einstaklingsins hverju sinni. Þetta gerir eftirfarandi að verkum:
Efnahagur þjóða verður stöðugt jafnari (ef frá eru taldar öfgafullar undantekningar sem orsakast af spilltum pólitíkusum, sbr. Robert Mugabe í dag).
Ríkir verða ríkari hraðar heldur en fátækir verða minna fátækir samhliða því að fyrirtæki stækka vegna samlegðaráhrifa og stjórnendur ausa í sjálfa sig aukinni risnu í krafti stærðarhagkvæmni. Þessi þróun verður þó ekki haldið út í hið endalausa, þar sem of stórum fyrirtækjum fylgja ákveðin skipulagsvandamál.
Fólk sem gegnir sömu störfum mun verða jafn vel launað, óháð staðsetningu. Þetta hefur valdið tímabundnum pirringi hjá verkamönnum á vesturlöndum (kannski fyrir utan Ísland, sem ekki er sérstaklega til umræðu hér).
Samhliða því að fleiri hafa efni á nauðsynjavöru og eftirspurn nálgast framleiðslugetu náttúruauðlinda hækkar verð á hrávöru til lengri tíma litið. Þetta hefur sést í öfgafullum mæli að undanförnu á olíu- og matvælamarkaði.
Er þessi þróun eitthvað sem menn ættu að óttast? Ég held ekki. Eftir þessa þróun verður staðan sú að styrkur hvers lands verður nýttur á bestan mögulegan máta til virðissköpunar. Hvort sem það felst í nýtingu á náttúruauðlindum, staðsetningu eða öðru. Einnig verður mannauðurinn í heiminum nýttur á sem bestan máta til virðissköpunar, þar sem jafn hæfir einstaklingar hafa sömu möguleika óháð fæðingarstað. Vesturlandabúar geta því ekki búist við að vera hærra launaðir heldur en aðrir jarðarbúar í framtíðinni, nema að þeir séu hæfari á einhvern hátt til virðissköpunar, sama hvort þeir eru verkamenn úr Jökuldal eða bankastjórar í New York.
Þróunin í þessa átt er langt frá því að vera slétt og felld, eins og við höfum séð sl. áratug eða svo. Meiriháttar verðbólur á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum hafa hamlað henni undanfarið og skapað "falskan" vöxt á vesturlöndum. Orsakir þessara atburða eru sennilega grafnar í mannlegt eðli og menn verða að búast við annað veifið. Það breytir því ekki að langtímaþróunin verður að mínu mati eins og ég lýsti að ofan. Sem er vel.
En þó svo að einsleitni og kerfislægni fer fjármálamörkuðum vel (að því gefnu að um gott kerfi sé að ræða) er ég ekki að segja að það sama fari öðru í heiminum vel. T.d. er mikilvægt að standa vörð um fjölbreytilega menningu í heiminum. Það verður ekkert gaman ef öll menning verður Amerísk. Sama hvort um er að ræða Færeyska hringdansa eða Afríska bumbuslagara.
Ofangreint byggir á eftirfarandi forsendum:
Skattalöggjöf þjóða heimsins verði sífellt einsleitari.
Pólitík þróast í átt frá spillingu og til aukins lýðræðis hjá þróunarlöndunum (Líklegt í ljósi síaukins upplýsingaflæðis).
Maðurinn er ekki haldinn einhverri dulinni sjálfsútrýmingarhvöt. Sbr. sífellt versnandi heilsufar vesturlandabúa.
Kannski svolítil einföldun á raunveruleikanum, en lengri færsla hefði sennilega gert marga þreytta og aðra þunglynda.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
ókei. Meikar sens. Gerði mig ekki þunglynda, en pínulítið syfjaða.
Til hamingju með afmælið í gær!
Takk fyrir það.
Skrifa ummæli