Það er búið að vera yfir 20 stiga hiti alla vikuna. Mjög ákjósanlegt svona þegar önnin er að byrja og smá tími aflögu til að taka því rólega. Fór t.d. í fótbolta í gær með bekkjarfélögunum og er að fara aftur á morgun með Cass og á sunnudaginn með íslendingunum. Reyndar verða afköst í námi töluvert minni af þessum sökum (sennilega komið svar við spurningu minni hérna um daginn varðandi læsihlutfall heimsins). Ég hélt t.d. athyglinni ekki lengur en í 3 tíma að VBA (forritun) í dag. Ákvað þá að rölta aðeins um og skrapp niður á Oxford Street. Keypti ekkert, eins og mér er lagið, og sýndist vera frekar dræm verslun mv. frábært veður og seinnipart föstudags. Ætli það sé ekki að koma samdráttur hérna í UK eins og í US.
Bjarkey flaug til Íslands í dag til þess að vera við fermingu yngsta bróður síns, Sigþórs, sem verður á sunnudaginn. Hún fer svo í starfsviðtal á þriðjudaginn, áður en hún flýgur til baka. Já, við höfum aðeins verið að leita fyrir okkur með vinnu á klakanum líka, enda þýðir ekki að vera með of miklar kenjar varðandi starfsmöguleika þegar ástandið á fjármálamörkuðum er orðið eins og það er.
Planið hjá mér um helgina er því tvíþætt: fótbolti og forritun. Ætla að reyna að vera á undan VBA kennaranum að fara yfir efni áfangans svo ég þurfi ekki að mæta í tíma hjá honum (þar sem hann er arfaslakur kennari). Sýnist það ætti ekki að vera mikið mál, þar sem við erum með fína bók í þessu. Það er því hugsanlegt að maður hafi tíma í eitthvað fleira um helgina, hvort sem hann fer í nám eða afþreyingu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli