mánudagur, 24. september 2007

Tilgangurinn

Eitt af því sem mér finnst hvað skemmtilegast er að spyrja stórra spurninga. Ekki skiptir öllu máli hvernig eða hvort spurningunum er svarað, heldur er það glíman við þær sem gerir þær skemmtilegar. Spurningin um tilgang lífsins er sennilega ein sú allra stærsta. Mig langar að glíma við þessa spurningu stuttlega út frá eigin sjónarhóli.

Hægt er að skilja þessa spurningu á a.m.k. tvo vegu, eftir því hvort "lífið" er skilgreint sem "líf einstaklings" eða "lífið á jörðinni". Ég ætla að byrja á tilganginum með lífinu á jörðinni.

Lífið á jörðinni sem heild er mjög einangrað í alheimslegu samhengi og ég get ekki séð að það sé tilgangur með því í núverandi mynd. Það bara er þarna, eins og fyrir hálfgerða tilviljun. Vísindamenn telja að sólin muni gleypa jörðina eftir einhverja 4 milljarða ára (ef ég man rétt), og taka Mars a.m.k. með sér. Þegar að því kemur hafa væntanlega orðið drastískar breytingar á lífríkinu á jörðinni svo maðurinn fær mjög líklega ekki tækifæri til að lifa fram að þeim tíma. Altént verður maðurinn að vera búinn að hypja sig áður en að því kemur, ef hann, eða eitthvað afsprengi af honum (Superman), nær að lifa fram að þeim tíma. Takist Superman þetta bíður enn skuggalegra verkefni, sem er að lifa af alkulið og vöntunina á orku sem fylgir því þegar allar sólir nálgast það að verða útbrunnar og svartholunum fækkar samhliða samruna þeirra. Alheimurinn verður á endanum algjörlega svartur og gjörsamlega ólífvænlegur (skv. því sem vísindamenn segja í dag). Það getur því ekki verið tilgangur sem fylgir því að lífið nái fram að ganga út í eilífðina. Hins vegar er hugsanlegt að lífið á jörðinni (eða annarsstaðar) hafi einhvern tilgang óafvitandi. Það væri t.d. hægt að ímynda sér guð stökkva fram á sjónarsviðið einn daginn og tilkynna: til hamingju! takmarkinu er náð! maðurinn er nú orðin jafn fjölmennur og öll skordýr í heiminum til samans! Pési! Opnaðu nú fyrir öllum og svo höldum við rækilega upp á þetta! Og við myndum öll hverfa til himna til forfeðra okkar og ekki þurfa neinu að kvíða eftir það.

Hugsanlegt, en trúleysi mitt aftrar mér frá því að aðhyllast kenningu sem þessa.

Ef við skrúfum hins vegar aðeins inn á við og horfum á einstakar lífverur er auðvelt að sjá að þær hafa allar sinn tilgang: að halda lífinu á jörðinni gangandi. Ég held að allar lífverur fyrir utan manninn séu pottþéttar á hver tilgangur lífsins er, sem er einfaldlega að lifa af og koma erfðaefnum sínum áfram til næstu kynslóðar. Nái lífverur þessum tilgangi sínum trúað ég að þær hverfi sáttar yfir móðuna miklu.

Mannkynið hefurlifað eftir þessum sama tilgangi, þar til eftir iðnbyltinguna, þegar það að lifa af varð ekki eins krefjandi. Menn fara bara og vinna t.d. 40% af vökustundum sínum og þá er búið að redda málunum. Þar sem svo auðvelt er að ná þessu markmiði sem þurfti áður að berjast fyrir með kjafti og klóm er eðlilegt að maðurinn fyllist tilvistarkreppu og viti ekki hvað hann eigi við sig að gera.

Það er í höndum hvers og eins hvernig hann eyðir þessum tíma. Eyði hann tímanum í samræmi við gildismat sitt og í sátt við samfélagið eru góðar líkur á að hann öðlist hamingju og lífsfyllingu (líklega svipuð tilfinning og aðrar lífverur upplifa þegar þeirra lífstilgangi hefur verið náð, trúi ég) og getur þar með horfið sáttur á braut frá þessum heimi. Ef hann hins vegar villist af braut og lifir eftir hugmyndum og skoðunum annarra og/eða í trássi við samfélagið er ólíklegra að hann verði sáttur við sitt á endanum.

Þannig trúi ég að tilgangur lífsins (allra manna) sé einfaldlega að nota tímann sem við höfum í það sem er okkur og samfélagi okkar fyrir bestu og þannig er mögulegt öðlast verðlaunin (t.a.m. hamingjuna) sem því fylgja. Ég held að tilgangurinn geti því verið jafn mismunandi og mennirnir eru margir. Hann getur verið tónsmíðar, fótbolti, áhættustýringu, leikritun, leit að auknum skilningi á eðli alheimsins, eða hvað annað sem mönnum dettur í hug. Sennilega er heldur ekkert verra að hafa fleiri en einn tilgang.

Þetta er altént mín skoðun.

Engin ummæli: