sunnudagur, 30. mars 2008

Einkannir og verkefnaskil

Jæja, þá eru einkannir haustannar loksins ljósar. Svo sem engar flennieinkannir, meðaleinkunn um 62%. En öllu var náð, sem er fyrir mestu. Bjarkey hins vegar sáttari við sitt, en hún er með í kringum 80%, eins og staðan er núna, sem er sennilega með því hæsta í bekknum.

Svo var helsti verkefnakúfurinn að klárast á föstudaginn. Skilaði einu verkefni sem telur heilan áfanga og einu 25% hópverkefni. Eins og venjulega voru allir að klára þetta á síðustu klukkutímunum/mínútunum, þannig að menn voru hálfdasaðir á pöbbnum í kjölfarið. Menn slepptu því djamminu þetta föstudagskvöldið.

Fram undan er sumsé upplestrar"frí", en fyrsta prófið er 21. apríl. Reyndar þarf ég líka að skila 50% hópverkefni 14. apríl, þannig að það verður feykinóg að gera, eins og venjulega.

Helgin fór því að mestu í útihlaup, afslöppun og skipulagningu fyrir næsta mánuðinn. Við Bjarkey fórum reyndar líka í bíó í gærkvöldi á 10,000 BC, sem var allt í lagi svo lengi sem maður hugsaði ekki um svívirðilegar sögulegar staðreyndarangfærslur, sem nóg var af.

Á laugardaginn nk. förum við Bjarkey svo á Arsenal-Liverpool á Emirates! Sú heimsókn verður í boði ÍV, en þeir voru svo rausnarlegir að gefa mér 2 miða á leik að eigin vali í deildinni í kveðjuskyni sl. haust. Fínt að geta tekið einn dag í eitthvað annað en lærdóm svona mitt í prófundirbúningnum.

Já, og svo voru Siggalára "meðalstóra" systir og Árni að skýra um sl. helgi. "Friðrik" var fyrir valinu, sem er í hausinn á föður Árna, sem féll frá rétt um ári áður en sá litli fæddist.

Fyrir utan áframhaldandi taugaveiklun á fjármálamörkuðum er ekkert annað í fréttum.

laugardagur, 22. mars 2008

Ísland hvað?

Í gær fórum við Bjarkey í sól og blíðu út í Waitrose að kaupa í páskamatinn ofl. Þetta væri nú svosem ekki til frásögu færandi, nema hvað að þegar við vorum komin heim aftur um hálftíma síðar var orðið heldur betur þungbúið. Stuttu seinna heyrðust þrumur og örskömmu seinna var komið... HAGLÉL! og það af sverari gerðinni. Held að ég hafi varla verið vitni að öðru eins á Íslandi. Höglin örugglega um 1 cm í þvermál og stóð élið í um mínútu. Jörðin var orðin grá eftir þetta. Breytilegt veðurfar er semsagt að finna víðar en á Íslandi, öfugt við það sem mér hefur fundist samhljóða álit íslendinga vera.

Kíkti annars aðeins út í gærkvöldi og hitti Halldór hollending, sem er í heimsókn í London yfir helgina og kvaddi Kacper, pólskan félaga minn og skiptinema í Cass, sem er að hverfa aftur til heimalandsins á morgun. Bara rólegt pöbbarölt og var kominn heim fyrir miðnætti. Ekki til ofdrykkjunnar boðið vegna verkefnaálags.

Já, og svo tók ég próf á fimmtudaginn í Risk analysis og fékk 86%. Prófið var reyndar fáránlega létt, en gott að fá eitt svona til að hífa meðaleinkunnina aðeins upp. Skilaði 25% verkefni í econometrics í gær og er að vinna í stóru verkefni (gildir 2/3 af heilum áfanga) sem á að skilast nk. föstudag ásamt með öðru 25% verkefni. Eftir það verður helsti kúfurinn liðinn hjá, án þess að hægt sé að segja að það verði rólegt.

Á morgun er planið að háma í sig lamb í hádeginu með frúnni og fara svo út að borða með Halldóri og Bjarkey á malasískan stað. Þess á milli verður borðað íslenskt páskaegg og unnið í risaverkefninu. Þetta verður því þéttur páskadagur á alla kanta. :)

Gleðilega Páska!

mánudagur, 17. mars 2008

Sjö prósent

Gjaldeyrismarkaðir bjóða yfirleitt ekki upp á meiri sveiflur en hlutabréfamarkaðir frá degi til dags, en í dag var breyting þar á. 7% veiking á gjaldmiðli er fáheyrt. Það er helst að álíka hafi gerst í Rússlandi undir Borís Jeltsín eða við hrunið í Argentínu á 10. áratugnum. Munurinn er hins vegar sá að Ísland er þróað, (að því að við teljum okkur trú um) nútímalegt hagkerfi. Vissulega er skuldsetning landans á heimsmælikvarða en ástæða þessarar hreyfingar er fyrst og fremst að leita í vandræðum yfirskuldsettra fjárfesta sem hafa sennilega loksins neyðst til að gefast upp og loka stöðum sínum. Þetta ætti því að vera tímabundið ástand og krónan að koma til baka í framtíðinni. Hún gæti reyndar mögulega veikst eitthvað meira, en það væri þá bara tímabundið.

Eftir að hafa eytt smá tíma hérna úti hefur maður fengið nýja sýn á íslenskt hagkerfi og þá sérstaklega vegna atorkunnar í fólkinu. Það þarf ekki annað en að fara út í búð til að sjá muninn. Fjórtán ára krakkinn á kassa í Bónus á íslandi myndi taka 35 ára indverjann í Teskó í nefið hvað varðar afgreiðsluhraða. Svona er þetta varðandi flest hérna úti. Engin framleiðni. Að maður tali nú ekki um infrastrúktúrinn. Ísland er áratugum á undan Bretlandi varðandi gæði fasteigna, að því að mér virðist. Svo er það náttúrulega ódýra og hreina orkan sem við höfum heima, sem hefur og á eftir að fleyta okkur mjög langt í framtíðinni. Sérstaklega ef menn róa sig aðeins og rembast ekki við að koma upp álveri á hverjum útára helst í gær og setja með því allt kerfið á hliðina í óskilgreindan tíma. Það er ekki hollt.

En mestu tækifærin liggja þó í fólkinu. Þekking á eftir að verða í sífellt meira mæli sú náttúruauðlind sem skapar mest virði í heiminum. Til þess að geta hugsað þarf súrefni og af því hafa íslendingar nóg af, ólíkt mörgum öðrum þjóðum eins og t.d. kínverjum. Menntastigið er sífellt að aukast og menn eru orðir sjóaðri í alþjóðaviðskiptunum.

Ég held því að framtíðin sé björt. Það er aðeins spurning hvað millitíðin ber í skauti sér.

Annars kláraði ég eitt 25% verkefni um helgina, sem á að skila á föstudaginn nk. Kláraði minn hluta af 25% hópverkefni, sem á að skila föstudaginn 28. Samt er bilað að gera og maður sér ekki út úr verkefnastaflanum. 10% próf í Risk Analysis á fimmtudaginn, svo þarf ég að fara að byrja á verkefni sem telur heilan áfanga og á að skila 28. mars o.s.frv. Stuð.

Gaf mér samt tíma til að hitta Manna á laugardagskvöldið, sem var á ferðinni með pabba sínum í borginni til að sjá Arsenal - Middlesbrough. Kíkti í mat og nokkra bjóra með þeim - og fór svo aftur heim í verkefnavinnu þegar það var frá. Stuð.

sunnudagur, 9. mars 2008

Sama gamla

Vikan fór í verkefnavinnu. Veitti mér þann munað að fara í fótbolta á laugardaginn að venju svo ég bilist ekki af lærdómi. Fór reyndar líka í mjög stutt, fámennt og góðmennt afmæli hjá pólskum félaga mínum úr skólanum síðdegis á laugardag.

Næsta vika verður áframhaldandi verkefnavinna og púl. Það styttist í helstu skiladagana sem verða flestir á síðarihluta mánaðarins. Síðan kemur hann Manni, félagi minn, að sjá Arsenal-Middlesbrough um næstu helgi, vonandi næ ég að skrapa saman nokkrum mínútum í vikunni til að hitta hann.

sunnudagur, 2. mars 2008

Dagur frá námi

Fór á Arsenal - Aston Villa í gær ásamt með Bjarkey, tengdaforeldrunum og Sigþóri bróður hennar. Það leit nú ekki vel út með úrslitin, Aston Villa var 1-0 yfir þangað til á síðustu sekúndunum þegar bauninn, Nicklas Bendtner, skoraði með línupoti eftir kraðak í teignum. 1-1 voru því úrslitin sem eru kannski þolanleg fyrir Arsenal þar sem þeir eru enn á toppnum eftir þennan frekar slappa leik og eru að fara að fá menn úr meiðslum á næstu vikum sem ætti að hjálpa þeim í lokaslagnum. Stuðningsmenn Villa (sem sátu beint fyrir neðan okkur) voru hins vegar mjög ósáttir við þetta, en þeir töldu að þær 3 mínútir sem dómarinn bætti við væru löngu búnar.

Það er alltaf svolítið mögnuð upplifun að fara á fótboltaleik í Englandi. Þarna sýna fullorðnir menn vanþroska í verki og fá útrás fyrir bældar tilfinningar og beina þeim alla jafna að stuðningsmönnum andstæðinganna. Þetta virðist oft vera mikilvægari ástæða fyrir ferðinni á völlinn heldur en að horfa á fótbolta. Ég varð vitni að ófáum niðrandi orðbrögðum og handabendingum auk þess að lögreglan mátti hafa sig alla við að halda stuðningsmönnum liðanna í sundur á tímabili. Þetta virðist vera hluti af leiknum sem maður sér samt sjaldan í sjónvarpinu.

Það kom í ljós í vikunni að það verður ekki lengur umflúið. Nemendur í Quantitative Finance verða að vera töluvert vel að sér í "Stochastic Calculus" ætli þeir sér að ná 2 af 4 áföngum á þessari önn. Flestir í bekknum hafa gert atlögu að því að læra þessar rúnir, en fáir haft nokkurt erindi sem erfiði. Næstu dagar og vikur hjá mér munu því væntanlega vera helgaðar þessum fræðum sem Einstein notaði fyrstur til að lýsa tilviljanakenndri hreyfingu rafeinda um kjarna atóms. Ég þarf því að fara að koma "fattaranum" í gang sem fyrst ef ég ætla að komast í gegnum þetta nám. Vökunætur gætu verið á næsta leiti.

Annars flaug Bjarkey með foreldrum sínum og bróður í tveggja daga verslunar- og skemmtiferð til Amsterdam í morgun. Ég ákvað að ég hefði ekki tíma í það. Sé ekki eftir því núna eftir áðurnefnda uppgötvun.

Sumsé: Gamanið búið í bili og meira streð framundan.