miðvikudagur, 3. desember 2008

Enn ein snilldin ...

... frá Baggalúti var að koma út. Sjá hér.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Eftirátryggingar

Magnað hvað maðurinn getur verið sjónlaus á hættur sem fylgja breytingum í umhverfinu á sama tíma og hann fórnar hverju sem er til að forðast endurtekningu á hamförum fortíðar.

Þetta má til dæmis merkja af:
1. Snjóflóðavarnargörðunum sem byggðir voru eftir flóðin á Vestfjörðum ´95.
2. Viðvaranarkerfið sem sett var upp eftir flóðin í Indlandshafi 2004.
3. Hugmyndir manna um að ganga í EB núna eftir fjármálakrísuna.

Af hverju var ekki búið að grípa til varúðarráðstafana áður en áföllin dundu yfir? Var enginn búinn að sjá hættuna af ofangreindum atburðum? Allavega voru þeir til sem vissu af möguleikanum af fjármálakrísunni. Á sama hátt er ég 100% viss um að þeir voru til sem vöruðu við hinum tveimur atburðunum. Af hverju ætli að það sé ekki hlustað á þessa menn? Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir:
1. Þetta er fólk sem eyðir tíma sínum í rannsóknir og er því ekki í eins miklum tengslum við valdamenn og þeir sem vinna jafnvel við að "networka".
2. Þar sem þetta fólk tilheyrir ekki stjórnmálaöflum komast viðlagaáætlanirnar ekki í stefnuskrár og fjárlög.
3. Þetta fólk er oft álitið bölsýnisfólk, sem er leiðinlegt að umgangast, þessvegna er best að hlusta ekki á það, forðast það og halda því utan við umræðuna. Þá líður öllum betur í ábyrgðarleysi sínu, geta notað fávisku sína til að verjast gagnrýni í framtíðinni og haldið áfram að byggja hús sín á sandi.
4. Það er miklu vinsælla meðal almúgans að vera jákvæður og byggja opp heldur en að vera fyrirhygginn og bregðast við mögulegum atburðum sem hafa aldrei gerst.

Nauðsynlegt er að þetta fólk fái meiri athygli í umræðunni og hjá stjórnmálamönnum í framtíðinni. Þá fara ráðstafanir okkar vonandi að bjarga einhverju, í stað þess að vera minnisvarðar um andvaraleysi og skort á fyrirhyggju. Það hefur varla fallið snjókorn á Íslandi frá snjóflóðunum á Vestfjörðum, spennan í jarðskorpunni á Indlandshafi minnkaði til muna með skjálftanum 2004, svo ekki eru líkur á viðlíka skjálfta næstu áratugina. Önnur eins fjármálakrísa og við eigum eftir að upplifa mun sennilega ekki sjást aftur á þessari öld.

Hins vegar er nóg af öðrum ógnunum sem þarf að fara að horfa til.
Sem dæmi má nefna Las Palma, sem er spænsk eldfjallaeyja úti fyrir ströndum Afríku. Næst þegar hún gýs eru góðar líkur á að stór hluti hennar hrynji í sjó og myndi 100 metra háa öldu, sem myndi skella á ströndum hafa svívirðilegar afleiðingar. Hægt er að lesa um þetta hér. Þetta hefur mjög lítið verið rætt, þrátt fyrir að svo virðist sem um gríðarlega ógn sé að ræða.

Svo eru það náttúrulega allar þær ógnir vegna veðurfarslegra breytinga. Læt eiga sig að endurtaka það allt. Hefur allt komið fram í fjölmiðlum.

Allavega, ég held að það sé kominn tími til að stjórnmálamenn láti þessi mál sig varða og hætta þessari sífelldu eftirámúgsefjun, sem hefur viðgengist síðustu áratugi, að því er virðist. Tryggjum fyrirá! ;)

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Fátt er svo með öllu illt

Þó að fjármálakrísan eigi eftir að reyna á þolrif margra og setja jafnvel á hausinn er klárt að hún mun örugglega einnig hafa jákvæð áhrif til lengri tíma. Ég trúi því allavega að til þess að mannkynið geti haldið áfram för sinni til betra samfélags verði annars lagið að stíga skref afturábak tímabundið áður en áfram er haldið. Ég held að eftirfarandi geti gerst á næstu árum:

Samhygð á eftir að aukast nú þegar þrengir að, sem kemur í stað eiginhagsmunapotsins áður. Fólk mun því læra meira hvert af öðru og þroskast sem einstaklingar.

Meiri tími verður til þess að huga að því mikilvæga í lífinu, í stað þess að vera alltaf að rembast við að klára verkefnastaflann fyrir tilsettan tíma.

Atvinnuleysi eykst til skemmri tíma, en svo vænti ég að verkefnaálagi verði dreift á atvinnulausa og þeir þannig virkjaðir. Þetta gæti t.d. gerst með styttingu vinnuskyldunnar, t.d. í 7 tíma á dag. Enn meiri tími í það sem skiptir raunverulega máli.

Fókusinn hjá fólkinu verður ekki lengur á lífsgæðakapphlaupið, heldur á það sem raunverulega skiptir máli; að hámarka hamingjuna.

Nú þegar kreppir að mun fólk huga betur að því að nýta allt sem best. Þetta dregur úr sóun og hægir á eyðingu náttúruauðlinda.

Neyðin kennir naktri konu að spinna. Tækniþróun gerist í stökkum. Ekki er ólíklegt að tekin verði stór skref í tækniþróun í náinni framtíð, þar sem oft virðist sem snilldin fæðist við kröpp kjör. Ekki ólíklegt að þessi þróun verði á sviði orkugjafa.

Í krísuástandi fæðast leiðtogar. Væntanlega hefur áhugi manna á pólitík vaxið mjög núna á síðustu vikum. Það má alveg búast við að við fáum notið ávaxtanna af því næstu áratugina.

Fólk verður víðsýnna. Gengur ekki að heiminum sem vísum eða að hægt sé að framlengja fortíðina inn í framtíðina. Heimurinn er flóknari en svo. Samfélagið verður því raunsærra og skemmtilegra.

Þetta er allavega það sem mér dettur í hug svona í fljótu bragði. Örugglega er þó margt fleira sem mætti tiltaka í þessum efnum.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Vegna fjölda áskorana

Kemur hér blogg um verðbólgu og vexti.

Verðbólga er í rauninni bara þegar fólk er að reyna að nota of marga peninga til að kaupa of fáar vörur. Þegar allir eru í jollí fíling að taka lán á milljón til að eyða í vitleysu hækkar verð og þá er verðbólga. Þetta hefur verið raunin sl. 5 ár allavega á Íslandi. Síðan verður líka verðbólga ef ekki eru til nógu mikið af vörum til að selja fólki (t.d. þegar Dabbi kóngur leyfir ekki innflutning á öðru en því sem honum finnst nauðsynlegt). Í báðum tilfellum hækkar verð á vörum, og verðtryggð lán hækka í takt (sem lántakendum finnst ömurlegt), sem og verðtryggðar innistæður (sem eigendum þeirra finnst æðislegt). Í dag eru sumir lántakendur í hættunni á að fara á hausinn, þannig að eðlilega hafa kvartanir þeirra heyrist hærra en gleðihróp síðarnefnda hópsins.

Fræðilega séð eiga vextir að slá á verðbólgu. Þetta er af því að háir vextir valda auknum útgjöldum skuldara (sem eru mun fleiri en fjármagnseigendur), þannig að þeir hafa minna á milli handanna til að eyða í drasl. Hence, færri krónur að eltast við sömu vörur og þ.a.l. minni verðbólga. Þetta hefur hins vegar ekki virkað undanfarin ár, út af því að:

1. Meirihluta almennings hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
2. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
3. Sumu fólki er nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðli lánið er.
4. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðlum lánin eru.

Þess vegna hafa bankarnir bara lánað meira og meira til fólks í allskonar gjaldmiðlum(fleiri peningar að eltast við sömu vörurnar), sem hefur yfirunnið áhrif hærri vaxta.

Svo gæti ég líka skrifað langan og leiðinlegan texta um að stýrivextir virki illa á Íslandi vegna þess að meirihluti lána eru verðtryggð, en ég nenni því ekki núna. Þetta samband ætti að virka hvort sem er til lengri tíma litið.

Hins vegar er staðan núna þannig að hálf þjóðin er að fara á hausinn. Sem þýðir miklu minna af peningum verður fyrir hendi í fyrirsjáanlegri framtíð til að eltast við vörur = minni verðbólga. Þó gæti líka orðið miklu minna af vörum fyrir hendi = meiri verðbólga. Það er því mikil óvissa framundan. Ég treysti mér þó til að spá fyrir um eitt: Fasteignaverð lækkar. IMF er að reyna að halda þessum fáu peningum sem eftir eru í landinu hérna með því að hækka vexti. Hliðaráhrifin eru hins vegar þau að fleiri fara á hausinn, og fyrr, en ella.

Ekki bara óvissa hvað varðar þróun í efnahagslífinu. Ég held að þjóðfélagið eigi eftir að taka stakkaskiptum. Yfirborðsleg bjartsýni undanfarinna ára mun víkja fyrir raunsæi, vonandi þó ekki svartsýni. Þetta verður mikill skellur fyrir mest skuldsettu skýjaglópana. Þetta verður "make or break" fyrir íslensku þjóðina næstu mánuði og ár. Það besta sem ég held að hægt sé að gera er að hætta að "vona" hitt og þetta (sbr. ráðamenn), sætta sig við stöðuna eins og hún er og það versta sem gæti gerst (ef menn hugsa þetta til enda er þetta ekki það slæmt). Ef fólk nær þessu fram á það mun auðveldara með að byggja sig og sína upp eftir áfallið.

Vona að þetta hafi verið skiljanlegt :)

þriðjudagur, 28. október 2008

Góðæri!

Jæja, þá er góðærið skollið á sem maður hefur verið að undirbúa sig fyrir meirihluta ævinnar. En það var fullt að gera í vinnunni sl. viku. Kom yfirleitt heim um eða uppúr miðnætti eftir streðið og mætti líka á laugardaginn. Líklegt er að ástandið verði svipað næstu vikurnar, þannig að það verður mikil þensla í Sigurviníska hagkerfinu á næstunni. Mikið er Ísland nú heppið að hafa viðlíka sveiflujafnara innanbúðar ;)

Annars lítið að frétta. Það var reyndar starfsdagur á föstudaginn hjá fyrirtækjasviði KPMG, sem var haldinn úti í Kjós. Farið var á fjórhjól með hópinn og endaði það með mat um kvöldið og léttum veitingum sem runnu það ljúflega niður að haldið var á galeiðuna þegar komið var aftur í bæinn, um kl. 1. Sumsé, mjög vel heppnað og höfðu menn gaman að.

Læt vita af mér eftir því sem tími vinnst til.

mánudagur, 20. október 2008

Ábyrgð og fyrirgefning

Einkennilegt hvað menn hlaupast alltaf undan merkjum þegar kemur að því að lýsa yfir ábyrgð á hruninu sem við erum að upplifa. Það er eins og menn séu alveg logandi hræddir við afleiðingarnar ef þeir gangast undir minnstu ábyrgð í stjórnmálum yfirhöfuð. Hugsanlega hefur þetta fólk ekki fengið mikla fyrirgefningu í æsku frá móður sinni eftir prakkarastrikin.

Menn ættu nú að fara að átta sig. Það vita allir sem vilja hverjir bera ábyrgðina. Það eina sem þeir vinna með þessari þvermóðsku er að þeir eru vanhæfir til að byggja upp eftir hrunið, af því að engin mistök hafa verið viðurkennd. Ef engin mistök hafa verið gerð, er þá einhver ástæða til að breyta út af einhverju í regluverki fjármálamarkaða, peningamálastjórn, fjármálastjórn hins opinbera eða öðru sem við kemur þessu rugli?

Því segi ég að ef enginn gengst við ábyrgð á þessu þá hlýtur íslenska þjóðin að krefjast þingkosninga og það verður flóðbylgja nýs fólks inn í stjórnmálaflokkana sem hreinsar út gömlu gildin. Vel menntað fólk á sviði viðskipta- og hagfræði, sem er nýbúið að missa vinnuna úr bönkunum og upplifði afleiðingar mistakanna frá fyrstu hendi, í stað gamalla íþróttakennara og skottulækna sem hafa verið allt of lengi við stjórnvölinn. Þetta getur gerst að því gefnu að fólk er ekki orðið of samdauna sjónvarpsdagskránni og aðgerðarleysinu sem mín kynslóð ólst upp við. Sem er reyndar líklegt.

Ef hins vegar þeir hinir ábyrgu taka við sér og gangast við ábyrgðinni þá treysti ég engum betur til að byggja upp eftir þetta heldur en þessu sama fólki. Það hlýtur að vera af vilja gert til að bæta fyrir mistök sín, enda hefur það hlotið fyrirgefningu þjóðarinnar fyrir, eitthvað sem jafnvel móðirinn gat einhverra hluta ekki veitt. Það hlýtur að vera einhvers virði.

Og þetta tal um að það verði tími síðar til að finna sökudólgana eru náttúrulega bara dylgjur. Þetta tekur ekki nema nokkrar sekúndur í sjónvarpi (eða með sjálfum sér, fyrir þá sem eru ekki það hátt settir) og þá geta viðkomandi farið að einbeita sér að uppbyggingunni með góðri samvisku.

Það er engin skömm að því að viðurkenna mistök eða skipta um skoðun. Það veit fólk sem stefnir einlæglega að því að bæta samfélagið, sama hvað eigin stolti líður.

þriðjudagur, 14. október 2008

... ég á egypskan faraó í frystinum...

Frétti af þessari miklu snilld frá Baggalúti í dag. Fer í flokk með þeirra allrabesta efni. Njótið.

http://www.vf.is/veftv/595/default.aspx

mánudagur, 13. október 2008

Frá sparifjáreigendum til skuldara

Þegar verðbólgan var hvað mest hérna fyrir langalöngu og áður en verðtryggingin kom til olli verðbólgan því að lán rýrnuðu og sparnaður "brann upp". Þannig að skuldarar græddu og sparifjáreigendur töpuðu. Þetta var þvert á markmið hins opinbera að hvetja til sparnaðar.

Í dag eru svipaðir hlutir að gerast, bara með öðrum hætti. Ríkisstjórnin er búin að gefa það út að þeir sem lenda í erfiðleikum með afborganir af húsnæðislánum verður hjálpað m.a. með því að láta Íbúðalánasjóð kaupa skuldirnar af bönkunum, lán fryst o.fl. Hvað upplifa sparifjáreigendur á sama tíma? Eignirnar brenna upp, hvort sem þær voru í lífeyrissjóðum, einstökum hlutabréfum eða í verðbréfasjóðum bankanna (nota bene, jafnvel þótt þær væru í fyrirfram tiltölulega eða mjög öruggum sjóðum).

Þannig að í krísuástandi virðist vera sem það sé eftirsóknarverðara að skulda heldur en að eiga, sama hverju stjórnmálum líður. Þannig myndi samvisku- og ábyrgðarlaus einstaklingur með mjög gott taugakerfi og þessa vitneskju sennilega bara steypa sér í skuldir og bíða eftir að hlutirnir reddist, eins og íslendinga er háttur. Ganga á stofnanir og biðja um aðstoð á grundvelli fávisku, líkt og margir lántakendur í erlendum gjaldmiðlum gera sér far um þessa dagana. Þannig myndi þessi einstaklingur hámarka efnisleg gæði sín á lífsleiðinni.

Væri nú ekki æskilegt að breyta þessu áður en næsta krísa dynur yfir? Hvort sem það verður eftir 50 eða 100 ár. Lykilatriði í þessum efnum er að koma fólki í skilning um grundvallaratriði í peningamálum. Þetta væri hægt að gera á skólastigi, eða bara í gegnum netið, þar sem öllum landsmönnum væri gert skylt að taka próf í fjármálum áður en þeim yrði gert kleift að kaupa íbúð eða bíl. Það er mjög auðvelt að framkvæma það með hjálp nútíma tölvutækni. Hugsanlegt væri líka að veita fólki ekki fjárræði fyrr en próf í fjármálum hefur verið staðið, alveg eins og fólki er ekki hleypt á bíl án bílprófs. Fólk sem skuldar ber samfélagslega ábyrgð. Það er skattfé samviskusamra og ábyrgra þegna íslands sem fer í að draga þetta fólk upp úr skítahaugnum sem það hefur mokað sig í undanfarin ár. Og það mun taka áraraðir í tilfelli íslendinga í dag.

Ef við gerðum fólk vitsmunalega ábyrgt fyrir gjörðum sínum með því að fræða það þá þurfa sparifjáreigendur ekki að skaðast eins mikið í krísum sem þessari í framtíðinni. Þeim örfáu óábyrgu aðilum sem rasa um ráð fram yrði leyft að fara á hausinn í friði, eins og drukkinn ökumaður sem er sviftur ökuskýrteininu, enda hefðu þeir stefnt jafnvægi í efnahagsmálum í voða.

miðvikudagur, 8. október 2008

Tækifærin í kreppunni

Þar sem eru ógnanir eru tækifæri. Tók saman eftirfarandi lista yfir það sem ég tel vera vaxandi geira þegar flestir aðrir dragast saman. Vonandi að þetta verði einhverjum nýatvinnulausum bankamanninum sá innblástur til að skipta um vettvang og nýta tækifærin í stöðunni.

10. Framleiðsla á niðursoðnum matvörum.
9. Lyfjaframleiðsla (freistandi er fyrir marga að dópa sig frá áhyggjunum)
8. Jarðarfararþjónustur (fjármálaáhyggjur auka líkur á sjúkdómum sem geta dregið fólk til dauða og sjálfsmorðum hlítur að fjölga)
7. Fæðingaþjónusta (sýnt hefur verið fram á að fæðingum fjölgar í kjölfar erfiðleikatíma)
6. Lögfræðiþjónusta
5. Innheimtuþjónusta
4. Sálfræðiþjónusta
3. Pakkaferðir mann- og félagsfræðinga til landsins til að fylgjast með viðbrögðum nýríkrar þjóðar í glímu við stórkostlegt fjármálaáfall.
2. Sala á tækjum og hrávörum til heimabruggunar
1. Lífvarðaþjónusta handa ráðamönnum þjóðarinnar.

Varðandi bloggið í gær gleymdi ég að taka fram stýrivaxtastefnuna í dag, eftir hrunið (eða í því miðju). Það ætti að vera löngu búið að lækka stýrivexti. Ég myndi halda að það væri lágmark að fara með þá niður í 10% í fyrsta stökki. Og það þyrfti að gerast sem fyrst.

þriðjudagur, 7. október 2008

Hetja - Skúrkur

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að tjá eftirfarandi álit minn um þennan mann, eftir að hafa unnið mjög gott verk í pólitíkinni er hann greinilega kominn inn á svið sem hann á ekki heima. En hann þessi er því miður búinn að gera svo rækilega upp á bak að það er komið í hárið á honum!

Eftirfarandi mistök eru að kosta skattgreiðendur gríðarlegar upphæðir. Og þær hækka nú hratt frá degi til dags, eftir því sem mistökunum fjölgar, því nú eru mjög krítískir tímar og hver ákvörðun er mjög mikilvæg.

Ég geri mér grein fyrir að ekki er allt 100% honum að kenna og aðrir seðlabankastjórar eiga náttúrulega sinn þátt í þessum ákvörðunum. En hann á klárlega sinn þátt. Eins er sjálfsagt fleira sem hægt er að taka til, sem ég man ekki í augnablikinu.

1. Stýrivextir voru hækkaðir allt of hægt í kjölfar þess að hann kom inn.
2. Bindiskylda var lækkuð þegar hún hefði í raun átt að vera hækkuð fyrir þremur árum og jók þannig enn á verðbólguna.
3. Seðlabankinn beytti sér ekki nægilega staðfast gegn útlánabrjálæðinu til íslenskra fyrirtækja og heimila sem náði hámarki í erlendu lánunum sl. 2 ár.
4. Samskiptaörðugleikar virðast hafa verið milli íslenska og bandaríska seðlabankans sem olli því að SÍ var ekki í gjaldeyrisswappinu við norðurlöndin. Ef ekki samskiptaörðugleikar þá léleg ákvörðunartaka í stýringu á gjaldeyrisforðanum, sem kemur á sama stað niður.
5. Yfirtakan á Glitni var mjög umdeild og aldrei kom nægjanlega góð skýring á þeim gjörningi.
6. Lekinn í dag um Rússneska lánið er mjög alvarlegur. Það er vinnuregla allra aðila á mörkuðum að halda samningum fyrir sig þangað til þeir eru frágengnir. Eftir þetta er seðlabankinn ekki í neinni samningsaðstöðu.
7. Tilkynning dagsins um að ætlunin var að festa gengi krónunnar í 131 kr/eur var ótrúleg. Allt of sterkt gengi mv. undanfarna daga. Sem betur fer var bara smotterí sem skipti um hendur á þessu gengi frá SÍ, en ef þeir hefðu verið mjög staðfastir í þessu gæti ég trúað að markaðsaðilar hefðu gengið nærri gjaldeyrisvarasjóðinum og kostað skattborgara milljarða á milljarða ofan.

Ath. ég tiltek ekki háa vexti, enda er verðbólgan tilkomin af nr. 2 og 3 og þeir verða að hækka svo hægt sé að glíma við verðbólgu.

Svo kemur hann fram og blandar peningamálunum, fjármálum fyrirtækja og ríkisfjármálunum rækilega saman, sem mér finnst alls ekki við hæfi. Segir frá mistökum sínum án þess að virðast sýna vott af iðrun.

Ef fólk skildi mistökin og hvað þau eru að kosta þjóðarbúið væri örugglega löngu búið að gera biltingu gegn SÍ. Í staðin eru þetta örfáir nördar eins og ég hver í sínu horni að röfla við sjálfan sig.

mánudagur, 6. október 2008

Hvað gerðist?

Ríkið getur yfirtekið eignir, tekið við stjórn fjármálafyrirtækja og Íbúðalánasjóður getur keypt íbúðalánaskuldir af bönkunum. Í rauninni hefur ríkið því miklar heimildir til að taka yfir verðmæti fjármálafyrirtækja fyrirvaralaust.

Þetta hjálpar ekki kerfinu í heild, sem eru mikil vonbrigði. Hins vegar eru hagsmunir innistæðueigenda betur tryggðir, sem er jákvætt. Það er því enga utanaðkomandi hjálp að fá að utan og mér sýnist að ríkið sé að taka á sig meiri ábyrgð, sem endurspeglast m.a. í því að S&P lækkaði lánshæfismat Íslenska ríkisins niður í BBB í kvöld, sem er lægsta einkunn sem er viðurkennt sem "investment grade" af fjármálakerfinu úti. M.ö.o. íslensk ríkisskuldabréf eru á barmi þess að vera talin meðal ruslskuldabréfa (junk bonds), sem þýðir að margir sjóðir erlendis mættu ekki fjárfesta í bréfunum, lögum samkvæmt. Ríkið mun því þurfa að greiða mun hærri vexti af þeim lánum sem það tekur í náinni framtíð.

Þetta lítur því mjög illa út. Við erum sennilega sú þjóð sem á í mestum vanda, þó flestar aðrar þjóðir séu að díla við það sama. Vonandi bara að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjargi okkur út þessu, þó þeir séu nú yfirleitt að aðstoða þróunarríki. Við ráðum einfaldlega ekki við ástandið eins og það er í dag.

Til að líta á björtu hliðarnar getum við sagt að mannfræðingar geti haft verðugt rannsóknarefni á næstu dögum/vikum/mánuðum/árum í að fylgjast með hvernig ástandið þróast. Gæti verið viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu? ;)

laugardagur, 4. október 2008

Þeir sem vissu

Hæstvirtur forsætisráðherra hefur ítrekað talað um að við séum fórnarlömb aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum sem enginn sá fyrir. Að sjálfsögðu sáu ekki margir fyrir gjaldþrot þeirra risabanka sem komið hafa í ljós. Hins vegar eru til þeir aðilar sem hafa um áraraðir varað við skuggalegri þróun á heimsmörkuðunum.

Á fasteignamörkuðum:
Robert Schiller
Prófessor við Yale í BNA sem spáði fyrir endalokum hlutabréfabólunnar 2000 í bók sinni, Irrational Exuberance (órökrétt gróska/gnægð). Endurútgaf bókina árið 2005 þar sem hann benti á að bólan hafði í raun ekki sprungið, heldur aðeins færst yfir á fasteignamarkaðinn.
http://www.econ.yale.edu/~shiller/

Á fjármálamörkuðum:
Nassim Nicholas Taleb
Óheyrilega gáfaður maður sem hefur barist af alefli við að segja fólki að áhætta er stórlega vanmetin á fjármálamörkuðum, vegna þess að módelin sem bankar vinna út frá byggja á röngum forsendum. Gerir óspart grín að fólki með of hátt sjálfstraust/þekkingar - hlutfall, sem er þjóðþrifaverk sem einhver verður að taka að sér. Eftir að hrikta fór í stoðum fjármálamarkaðanna í fyrra fóru bækur hans, "The Black Swan" og "Fooled by randomness" skyndilega að seljast í bílförmum.
http://www.fooledbyrandomness.com/

Spilling og tenging við Ísland:
Jóhannes Björn
Mér skilst að margir hafi hlegið að þessum manni þegar hann skrifaði um samsæriskenningar sínar í bókinni "Falið vald". Hann hefur hins vegar lengi talað um að fjármálakerfið sem við byggjum á er byggt á sandi.
http://www.vald.org/

Þá hef ég fylgst með umræðum hér, þar sem fjöldi íslendinga hafa varað við löskuðu kerfi, skuldsetningu, viðskiptahalla og fleiri aðsteðjandi vandamálum í heimshagkerfinu og Íslandshagkerfinu. Í heiminum eru því eflaust milljónir manna sem sáu og áttuðu sig á aðsteðjandi vandamálum. Samt fór sem fór.

Af hverju var ekki hlustað á þessa menn? Var þekking þeirra ofvaxin skilningi stjórnmálamanna og þeirra sem báru ábyrgð á þróun mála í heiminum? Eða vildi kannski enginn bera ábyrgð á þróuninni? Kannski langaði menn bara ekki til að skilja þetta. Málið er að það voru fjöldi aðila sem hafði hag af því að bólurnar á fasteigna- og fjármálamörkuðum yrðu sem stærstar. Er þar nóg að nefna fasteignasala, fasteignalánamiðlara, verðbréfamiðlara og stjórnendur banka á árangurstengdum launum. Þessir aðilar hafa grætt vel á bólunni og eru ekkert nauðsynlega að tapa neinu við hrun markaðanna í dag. Hagsmunum þessara aðila var því best borgið með því að hlusta ekki. Stjórnmálamenn lögðu of mikið traust á aðila fjármálamarkaðarins til að halda kerfinu heilbrigðu.

Ég vona því að ráðamenn ráðfæri sig við menn sem þessa áður en þeir fara að ana af stað í myrkrinu, það gæti sparað skattgreiðendum óheyrilegar fjárhæðir. Þeir þurfa ekki einu sinni að ganga svo langt að hafa samband við þá. Schiller hefur gefið út bók um hvernig takast skuli á við þessa krísu sem heimurinn glímir við í dag.

laugardagur, 20. september 2008

Fjármálakrísan

Sjaldan eða aldrei hefur fjármálaheimurinn verið eins mikið í sviðsljósinu og sl. viku, og hefur hann þó verið mjög fyrirferðamikill undanfarinn áratug. Eins og oft áður þegar fjölmiðlar þurfa að fara að taka á málum verður umræðan yfirborðskennd og áherslupunktarnir ekki mjög góðir. Enda starfa ekki sérfræðingar á fjölmiðlum, heldur "alfræðingar" - fólk sem á að þekkja til alsstaðar, og gerir það. Bara ekki nógu vel. Afleiðingin verður oft á tíðum afvegaleidd og marklaus umræða sem getur leitt af sér ranghugmyndir almennings - sem geta verið mjög hættulegar samfélaginu. Ég ætla að reyna að bæta úr þessu hér. Svona fyrir þá sem ekki hafa botnað upp eða niður í því sem hefur verið í gangi undanfarið.

Orsakir:
Upp úr aldamótunum 2000 og eftir 11. sept. 2001 var bandarískur fjármálamarkaður í miklum erfiðleikum. Alan Greenspan brást þá við með því að lækka stýrivexti alveg niður í eitt prósent (2002). Þetta var allt gert í góðri meiningu (forðast gjaldþrotahrinu og fjöldaatvinnuleysi). Hins olli þetta auðveldara aðgengi að lánsfé, vegna þess að minni líkur eru á að fólk/fyrirtæki fari á hausinn þegar vextir eru lágir (af því að flestir skulda töluvert), þannig að bankar lánuðu þá bara meira, vegna þess að þeir treystu á lága vexti og þ.a.l. lágt gjaldþrotahlutfall. Peningarnir fóru að miklu leyti inn á fasteignamarkaðinn, vegna hjarðhegðunar samfélagsins, og jós þannig olíu á eld húsnæðisverðhækkanir, sem voru orðnar mjög miklar fyrir. Þessi stemming á fasteignamarkaðinum í BNA smitaðist svo yfir á önnur vestræn ríki.

Önnur orsök þess að fallið er svo hátt nú eru faldir í bónusgreiðslum til stjórnenda og annarra starfsamnna útlánafyrirtækja á heimsvísu. Sú staðreynd að í mörgum tilfellum fær starfsfólk hlutdeild í hagnaði fjármálafyrirtækja gerir það að verkum að það verður áhættusæknara. Dæmi: Ef valið stendur á milli þess að lána mjög góðum skuldara á 5% vöxtum eða meðalgóðum skuldara á t.d. 6% vöxtum, eru meiri líkur á að stjórnandinn velji verri skuldarann, vegna þess að hann fær hlutdeild í þessum auka vaxtatekjum (mismunurinn, 1%), en þó svo að hann fari á hausinn ber hann engan skaða af - grunnlaunin eru alltaf til staðar. Auk þess treystir hann á að vextir verði lækkaðir aftur, eins og upp úr 2000 til þess að bjarga skuldaranum frá þroti. Þetta eykur enn á útlán, hækkanir fasteignaverðs, verðbólgu, góðæri, stemmingu, ofurlaun, launamun, stéttaskiptingu.

Þriðja orsökin, sem hefur ekki hlotið mikla umgjöllun fjölmiðla (hér heima allavega), eru lánshæfismatsfyrirtækin. Þau gefa út opinber álit á hversu líklegt er að skuldarar standi í skilum. Þau brugðust trausti fjárfesta þegar þau gáfu út hæsta lánshæfismat á skuldabréfaafurðir sem m.a. innihéldu fasteignaskuldir slakra skuldara í BNA (nefnd undirmálslán á ísl.), sem hafði jafnvel verið neitað um lán hjá venjulegum bönkum þar í landi. Líklega hafa fá gjaldþrot síðan snemma á síðasta áratu, vegna vaxtastefnu Greenspan, einnig haft sín áhrif þarna.

Hlutverk Kína
Ókey. Bandaríkjamenn og mörg önnur vestræn ríki hafa verið að safna skuldum eins og enginn sé morgundagurinn undanfarin ár. En hver er þá að lána og þ.a.l. að fjármagna neysluna? Í raun eru það fyrirtæki út um allan heim sem hafa verið að kaupa þessi skuldabréf og er þetta því dreift út um allt. En meira vægi hafa þær þjóðir sem hafa verið að flytja út meira heldur en þeir flytja inn (eru þ.a.l. með viðskiptaafgang). Það er t.d. Kína sem hefur verið að flytja gríðarlega mikið út og notað andvirðið að miklu leyti til fjárfestinga erlendis. Þetta er að sjálfsögðu mun flóknara net, enda flæða verðbréf óhindrað út um allan heim í dag, en í grunninn er þetta það sem er að gerast. Kínverjar og fleiri ríki með viðskiptaafgang lána vesturlandabúum fyrir vörunum sem þeir framleiða fyrir okkur. Hægt er að stemma stigu við þessari þróun, m.a. með því að leyfa Kínverska Júaninu að fljóta. En Kínverjar hafa ekki viljað það enn sem komið er.

Afleiðingarnar
Á endanum gátu margir af fasteignaeigendum ekki staðið undir greiðslubyrgðinni og fasteignabólan byrjaði að springa, eins og ég var búinn að taka á í öðru bloggi. Afleiðing af þessu er að verðlítil lán sitja eftir í bönkum og fjármálastofnunum í BNA, og út um allan heim vegna skuldabréfavaafurðanna, sem seldar höfðu verið. Þegar eignir þínar (skuldabréf í þessu tilfelli) eru í raun mun minna virði en þú hélst og færðir í bækur eru orðnar meiri líkur á að þú lendir í vandræðum og farir á hausinn. Þetta er raunin sem hefur verið að líta dagsins ljós í auknum mæli sl. ár.

Bandaríkjastjórn hefur brugðist við með því að bjarga fáum útvöldum fjármálafyrirtækjum, sem eru of mikilvægar þjónustustofnanir við almenning til að þeir geti leyft þeim að fara á haustinn (Fannie Mae, Freddie Mac og AIG). Að auki er nú frumvarp fyrir þingi að Hið opinbera kaupi verðfallin skuldabréf á einhverju X verði. Þannig yrði til eins konar risastór ruslakista fyrir verðlítil skuldabréf. Kista þessi yrði kostuð af skattborgurum, og út á krít frá Kína, eins og áður hefur verið komið inn á. Það má segja að Bandaríska ríkið sé að leggja allt í sölurnar með þessari aðgerð og eru örlög bandarískra fyrirtækja og hins opinbera að miklu leyti samtvinnuð eftir þessar aðgerðir. Ekki er ólíklegt að lánshæfismatsfyrirtækin þurfi að lækka einkun sína á Bandaríska ríkið eftir þetta, enda hafa skuldir þeirra vaxtið gríðarlega við þetta. Vissulega liggja eignir á móti, en mikil óvissa er um raunverulegt verðgildi þeirra. Lægra lánshæfismat þýðir hærri vaxtakostnað fyrir þjóðina.

Skortsala
Best er fyrir hagkerfið ef verðbréf eru verðlögð sem næst raunverulegu virði þeirra á fjármálamörkuðum. Ef aðili sem á ekki hlutabréf en telur verð hlutabréfa of hátt þá getur hann beitt skortsölu til að hagnast á stöðunni og stuðlað að réttu verði á ný. Þá eru bréf fengin að láni, þau seld á markaði og keypt aftur á ákveðnum degi í framtíðinni og skilað til þess sem lánar bréfin. Skortsalinn hefur þ.a.l. hagnast ef verðið hefur lækkað í millitíðinni. Sá sem lánar fær greiðslu frá skortsalanum fyrir lánið á bréfunum. Það að banna skortsölu, eins og gert var í lok vikunnar (í BNA og Bretlandi), er til þess fallið að útiloka skoðanir þeirra sem standa utan við markaðinn og álíta hlutabréfaverð of hátt. Niðurstaðan verður hærra hlutabréfaverð heldur en fyrirtækin og hagkerfið stendur undir. Til lengri tíma litið hins vegar mun alltaf verða verðleiðrétting þar sem verðbréf horfa aftur til raunvirði þeirra. Því miður hefur skortsala hefur ekki verið stunduð hér á landi að neinu marki, en lífeyrissjóðir gætu haft miklar tekjur af verðbréfalánum til skortsala. Enda eiga þeir mikið af bréfum sem ekki er ætlunin að selja í nánustu framtíð.

Stóra spurningin núna fyrir flest vestræn ríki er sú sama: Tekst okkur að auka útflutning og minnka innflutning, og snúa þannig viðskiptahallanum í viðskiptaafgang, án þess að of margir fari á hausinn. Takist þetta ætti verðbólgan að minnka og vextir geta lækkað.

Þær spurningar sem margar vestrænar ríkisstjórnir hafa verið að standa frammi fyrir er hvaða fyrirtækjum skal bjarga frá gjaldþroti og hverjum ekki. Glapræði væri að bjarga öllum frá gjaldþroti, þar sem það myndi hafa svipuð áhrif og Greenspan hafði með sínum vaxtalækkunum og fjárfestar myndu álíta að áhætta væri varla til. Sama rússíbanareiðin myndi því hefjast aftur á fjármálamörkuðum. Mikilvægt er að leyfa fólki og fyrirtækjum að bera ábyrgð á gjörðum sínum, fara á hausinn í friði og vera þannig ákveðin viðvörun áður en næsta uppsveifla hefst. Menn verða að axla ábyrgð, þó svo að þeir höfðu ekki víðsýni til að sjá vandamálin í tæka tíð til að bregðast við þeim. Verði öllum bjargað frá gjaldþroti af ríkinu eru einfaldlega auknar líkur á að vestrænt ríki geti ekki staðið í skilum, sem auðvitað hefði gríðarleg áhrif á viðkomandi ríki. Að maður minnist nú ekki á að það er í rauninni hinn almenni skattborgari sem borgar þegar fjármálastofnunum er bjargað með þessum hættti; skattborgarar eru að bera þá ábyrgð sem stjórnendur fjármálastofnana hefðu átt að bera vegna sóknar sinnar í bónusgrieðslur.

Hvað á að gera?
Ég hef það á tilfinninguni að almenningur á Íslandi tengi engan vegin á milli skilaboða sem gefin eru í fjölmiðlum og raunveruleikans. Þannig er oft bísnast yfir því að ekki sé hægt að fá lán í dag, akkúrat það sem fólk á ekki að reyna við núverandi aðstæður. Þá hefur verið vinsælt að kenna krónunni um allt saman. Vel getur verið að betra sé að hafa annan gjalmiðli, en það leysir ekki núverandi vanda að skipta krónunni út.

Hvað á fólk þá að gera?
Draga úr neyslu (ekki kaupa sér flatskjái, bíla, o.fl. drasl. Ekki nema menn eigi fyrir því og telja sig nauðsynlega þurfa).
Spara (bíða með að fjárfesta þangað til auðveldara er að fá lán, setja peningana á bankareikning eða peningamarkaðssjóði, þar sem er líka hægt að fá mjög góða vexti)
Vinna
Hlúa að andlegri heilsu (það er fleira í þessu lífi en peningar og botnlaus neysla. Spurning um að lesa heimspekirit eða sjálfshjálparbækur ef menn eru að fara yfirum af eirðarleysi).

Málið er nefninlega það að ef fyrirtæki og heimili landsins eru rekin sómasamlega þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af gjaldmiðlum, hlutabréfamörkuðum og gjaldþrotum. Alveg á sama hátt og við þurfum að hafa minni áhyggjur af heilsunni ef við hreyfum okkur og borðum skynsamlega.

Ég vona að einhverjir séu einhverju nær eftir að hafa lesið þessa langloku.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Í fótspor feðranna

Jæja, eftir tæplega mánaðar leit hérna á íslandi eftir atvinnu er henni nú lokið. Fyrr í dag réð ég mig nefninlega inn á fyrirtækjasvið KPMG, þar sem ég hef störf á mánudaginn nk. Gríðarlega sáttur við að vera búinn að ganga frá þessu og reyndar hafði ég úr fleiri möguleikum að moða, þannig að ástandið virðist nú ekki eins vonlaust fyrir fjármálamenn og margir vilja halda. Þetta er sennilega eins og mig grunnti alltaf; þeir sem vilja og geta unnið fá eitthvað við sitt hæfi þó síðar verði.

Ég mun því starfa hjá sama fyrirtæki og karl faðir minn til margra ára og er enn í nánu samstarfi við. Ég verð reyndar ekki í samskonar störfum, þar sem þetta er meira ráðgjafatengt og miðar að verðlagningu á afleiðum, áhættustýringu o.fl. sem ég var m.a. að læra úti. Þetta er því mjög ánægjulegt og ég held að ég hafi aldrei hlakkað eins mikið til að mæta í vinnuna á mánudegi :)

Önnur gleðitíðindi: Fékk síðustu einkunnina úr náminu: 94% í VBA, sem þýðir að ég fæ merit frá skólanum. Ákaflega ánægjulegt líka, þó það skipti kannski ekki öllu máli upp á framtíðina.

Millibilsástandinu er því lokið og ný kafli í mínu lífi hefst. Best að fagna með því að taka á móti handboltalandsliðinu og fara svo í fótbolta!

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Millibilsástand

Ég biðst velvirðingar á bloggleysi undanfarnar vikur. Ég er búinn að vera of upptekinn við að slappa af og að vera atvinnulaus síðan ég kom á klakann til að blogga.

Júlímánuðurinn var notaður í afslöppun á Egilsstöðum. Fótbolti, golf og bjór var þema mánaðarins eftir frækilega frammistöðu í náminu í vetur. Bjarkey eyddi mestum hluta mánaðarins á eigin heimaslóðum, þannig að við breiddum vel úr okkur landfræðilega eftir að vera búin að hýrast í sama kústaskápnum í London í heilan vetur.

Við fluttumst svo í Hafnarfjörðinn í lok júlí og Bjarkey byrjaði vinnu sína hjá Ríkisendurskoðun 1. ágúst. Ég hef sjálfur verið að leita að vinnu síðan eftir verslunarmannahelgi hérna fyrir sunnan. Hlutirnir eru farnir að þokast í rétta átt í þeim efnum. Allavega hef ég verið að fá viðtöl hjá nokkrum aðilum núna á síðustu dögum. Vonandi verður eitthvað meira að frétta af þeim málum á næstu dögum/vikum.

Annars þakka ég mínu sæla að vera þó allavega að leita að vinnu, en ekki að læra fyrir upptökupróf úti í London, eins og mjög margir af mínum bekkjarfélögum þessa dagana. Ég er búinn að fá allar einkunnir nema eina af síðustu önninni og ég er í séns að fá það sem er kallað "Merit" eða "dyggð", sem fæst fyrir 65% meðaleinkunn þarna í Bretlandi. Það væri nú gaman.

föstudagur, 27. júní 2008

Endalokin nálgast!

Jæja, þá er farið að líða að lokum dvalar okkar hérna í Lundúnaborg. Brottför verður á mánudagskvöld og skil á íbúðinni um morgun sama dags. Óþarfi að vera að borga okurleiguna mikið lengur.

Annars fékk ég einkannir annarrar annar í vikunni. Náði öllu, sem er mikill léttir. Reyndar var það fag sem ég var hræddastur við að falla í það besta hjá mér. Á sama tíma fékk ég falleinkunn í faginu sem ég var hvað öruggastur með mig í, en góð einkunn fyrir verkefni annarinnar bjargaði mér þar. Hef sterkan grun um að kennarinn hafi ekki skilið skriftina mína. Töluvert fall var í bekknum í áðurnefndu áhyggjufagi, þannig að maður getur verið mjög sáttur við niðurstöðuna í heildina.

Rétt eftir að ég var búinn að fá einkannirnar fór ég í lokapróf í Fixed Income Arbitrage and Trading (Hagnanir og viðskipti með skuldabréf). Gekk bara ágætlega þar. Allavega er ég viss um að ég nái. Þar með ætti gráðan að vera í höfn. Allavega yrði ég mjög hissa ef ég fengi falleinkunn í einhverju af því sem eftir er.

Eitt verkefni er þó óklárað. MATLAB forritunarverkefni sem ég hef setið sveittur við stanslaust síðan eftir prófið í vikunni og er kominn með rassæri af. Það ætti þó að klárast á morgun. Vinn það með gæja með margra ára forritunarreynslu, þannig að útkoman stefnir í að vera í góðu lagi.

Lítið nýtt að frétta af vinnumálum. Fæ að vita með starfið hérna úti um miðjan júlí og ekki hefur verið svo mikið sem litið við mér á Íslandi. Skítt með það, verð í fríi í júlí og nenni ekki að spá of mikið í þessu á meðan.

Góðar stundir.

föstudagur, 20. júní 2008

Piss

Oft er talað um að pissa í skóinn sinn. Sjaldgæfara er að menn tali um að pissa í annarra skó. Ég get þó ekki séð nema að vænni hlandslettu hafi verið dembt í skó Dabba og félaga í Seðlabankanum af ríkisstjórninni þegar hún ákvað breytingar á Íbúðalánasjóði til þess að auðvelda aðgengi að fjármagni til íbúðakaupa í vikunni. Verðbólgan minnkar allavega ekki mikið við þetta. Ef ríkisstjórninn heldur áfram að vinna gegn verðbólgunni af jafn mikilli áræðni og dug og þessi aðgerð ber vott um fara stýrivextir örugglega ekki í nema 20% áður en hægja fer á.

Fór annars í annað viðtalið hjá Mondrian í morgun. Gekk þokkalega og er svona hæfilega bjartsýnn á að ég fái tilboð frá þeim. En miði er alltaf möguleiki. Svo eru alltaf aðrir fiskar í sjónum.

Kláraði svo eftir viðtalið verkefni annarinnar í "Energy and Weather derivatives" (Orku- og Veðurafleiður). Held að það sé mjög gott stykki og að við ættum að fá fína einkunn fyrir það.

Búinn að fá nokkrar einkannir undanfarið, sem ég hef gleymt að segja frá. Þær eru allar með ágætum og ljóst að ég búinn að ná einum áfanga á síðustu önn (Numerical Methods). Einkannir úr lokaprófum annarrar annar koma svo væntanlega í næstu viku (puttar krossaðir).

þriðjudagur, 17. júní 2008

Sumarpartý, viðtal, o.fl.

Við Bjarkey fórum í sumarpartí hjá skólanum í gær. Ætluðum nú ekki að lengi þar sem annir eru miklar þessa dagana. Það endaði á annan veg og við vorum ekki að skríða heim fyrr an um kl. hálfþrjú í nótt. Gerist á bestu bæjum, sérstaklega þegar fólk er í svona miklu stuði og frítt áfengi er í boði. En það var bara helv. gaman. Flestallir bekkjarfélagarnir mættu og mikil stemming, mikið af myndum teknar og mikið drukkið og spjallað. Ekki laust við að þynnka hafi því gert við sig á þjóðhátíðardaginn, sem hefur reyndar gerst nokkrum sinnum áður eftir 16. júní böll í Valaskjálf, þegar það var upp á sitt besta.

Annars er það að frétta að ég fékk annað viðtal hjá Mondrian, sem verður á föstudaginn. Skilst að það séu einhverjir 3-4 aðrir umsækjendur eftir, þannig að það virðist vera einhver möguleiki þarna. Starfið snýst um að aðstoða við stýringu á nýjum sjóði hjá þeim og sjá svo um sölu á honum til vogunarsjóða og annarra fjárfesta, sem flestir væru staðsettir í BNA. Þannig að um mikið af ferðalögum væri að ræða. Væri mjög góð reynsla, ef af yrði. En þetta kemur allt í ljós.

Fyrir utan þetta er maður bara að fókusa 100% á lokapróf "Fixed Income Arbitrage and Trading", sem verður á þriðjudaginn í næstu viku. Auk þess sem maður þarf að afgreiða eitt verkefnu í vikunni, sem er nánast fullfrágengið. Þannig að það er í nógu að snúast eins og venjulega.

sunnudagur, 8. júní 2008

Fréttir

Best að maður reyni að segja frá því hvað hefur verið að gerast hjá manni undanfarið (Þó svo að vangavelturnar séu nú óneitanlega skemmtilegri:)

Það var fótboltamót í skólanum á föstudaginn, þar sem ég og samnemendur mínir riðum enn rýrari hesti en frá síðasta móti í haust. Hvað um það, þetta var ágætis skemmtun og síðan var skroppið á pöbbinn í kjölfarið, þar sem verðlaunaafhendingin fór fram. Ég var reyndar ekki lengi þar sem maður var svolítið lúinn eftir vikuna. En það var heill kúrs keyrður í gegn í vikunni kl. 9 til 12 alla daga (rétt, ég er í námsmannagírnum og hef því verið að snúa sólahringnum í samræmi við líkamsklukkuna, ekki samfélagsklukkuna). Auk þess var ég tiltölulega nýbúinn að taka vel á því í "afmælispartíinu" mínu 19. maí, ásamt bekkjarfélögunum. Því var þörfin fyrir stífa drykkju er ekki orðin mikil að nýju.

En allavega, það fer að líða að lokum þessa náms. Þetta hefur liðið ótrúlega hratt og maður trúir því varla að maður hafi verið hérna í 9 mánuði. Þó er einn sprettur eftir enn og ég reikna ekki með að hann verði auðveldur, frekar en aðrir, sem sumir hafa verið nálægt því að ganga frá manni. Þangað til 30. júní, þarf ég semsagt að skila 4 hópverkefnum og taka eitt lokapróf, sem verður af erfiðari gerðinni.

En það er búið að plana heimförina. Flogið verður úr heimsborginni þann 30. júní og verður væntanlega notaður einn dagur fyrir sunnan í að skoða bíl og dóla með frúnni og tengdaforeldrunum, sem verða samferða okkur á klakann eftir verslunarferð hérna úti. Ég kem svo væntanlega austur í afslöppun og endurhæfingu 1. eða 2. júlí.

Af atvinnumálum er hinsvegar það að frétta að frúin er komin með vinnu hjá Ríkisendurskoðun fyrir sunnan. Ég hef verið að sækja um eitt og eitt starf fyrir sunnan og líka verið að leita fyrir mér hérna útifyrir. Lítið hefur gengið, enda ekkert nema uppsagnir og lítið verið að ráða á fjármálamörkuðum. Er þó að fara í viðtal á þriðjudaginn hérna í London hjá Mondrian sem "quant analyst", þannig að það er þó einhver von enn. En þó maður verði ekki kominn með vinnu í sumar þá er ég nú viss um að maður detti niður á eitthvað á endanum. Það er alltaf eitthvað að gera fyrir dugandi menn ;)

Annað var ekki í fréttum.

fimmtudagur, 29. maí 2008

Ógnun/Tækifæri?

Hækkun olíuverðs hefur verið mikið til umjöllunar undanfarið um allan heim. Atvinnubílstjórar kveina og biðja ríkið um skattalækkanir til að gera þeim reksturinn auðveldari. Ef mörg ríki myndu varða við þessari ósk myndi þetta náttúrulega bara auka eftirspurn og heimsmarkaðsverðið myndi fara enn hærra - olíufurstum til ánægju, ríkisstjórnum til armæðu og olíuneytendur munu ekki verða fyrir áhrifum - til lengri tíma litið. Málið er nefninlega að framboð af olíu er komið upp undir ákveðið þak sem olíuhreinsunarstöðvar heimsins anna - um 84 milljón tunnur á dag.

Það er skrítið að fylgjast með stefnuleysinu í heimsmálunum stundum. Þegar veðrahamfarir eiga sér stað kvarta menn yfir gróðurhúsaáhrifum og lofa betrun til að bæta úr skák. Svo þegar á að fara að rukka meira fyrir olíuna kvarta menn í staðin fyrir að slá tvær flugur í einu höggi og stuðla að bættu andrúmslofti og spara í leiðinni. Það er allavega klárt mál að það eru ótal leiðir til að spara í olíuneyslu ef menn einfaldlega nenna að spá í því. Ég nefni bara vistakstur, sem ég efast um að margir hafi kynnt sér og getur sparað ég-man-ekki-hvað marga tugi prósenta í bensíneyðslu. Vandinn er að sumir sjá bara ógnanir í breytingum.

Aðrir sjá tækifæri í þessu. Þar á meðal eru flutningafyrirtæki sem einbeita sér að því að fjárfesta í sparneytnari bílum og þjálfa bílstjórana upp í að vera meðvitaða um eyðsluna. Sum fyrirtæki finna tækifæri til að nýta olíuna betur en áður. Toyota er eitt af þeim með Priusinn og hafa stórgrætt á. Svo eru það náttúrulega orkufyrirtæki sem nýta "hreinar" náttúruauðlindir til orkuframleiðslu, þar getur maður nefnt jarðvarma og Enex á Íslandi.

Það sem ratar í fjölmiðlana er mótmæli bílstjóra á sköttum og gjöldum á olíu. Ég held að þessi neikvæða umfjöllun smiti út frá sér og menn fókusa of mikið á ógnanirnar í stöðunni. Því miður. En það er samt skrítið að sjá bílstjóra í Bretlandi og á Íslandi mótmæla sköttum á olíu nánast á sama tíma. Sennilega eru menn bara að reyna að finna blóraböggul fyrir þessum verðum, sem er náttúrulega ekki til (nema þeir sjálfir kannski). Bílstjórarnir og flutningafyrirtækin verða bara að velta verðhækkununum yfir á gjaldskrárnar hjá sér svo þeir lendi ekki í vandræðum með reksturinn.

Bottom line: Ég held að fólk verði einfaldlega að sjá tækifærin í þessum breytingum. Almenningur getur hjólað/labbað/tekið strætó í vinnuna eða keypt sér sparneytnari bíla (og sparað á þessu enn meira en áður!) og fyrirtæki geta auðveldlega hagnast á þessu ef þau einfaldlega sjá þessar breytingar sem tækifæri, ekki ógnun.

laugardagur, 10. maí 2008

Hraðsoðin fjármálaheimspeki

Peningar eru ekkert annað en mælikvarði á virði. Ef mig langar í bjór þá versla ég bjór ef verðið á honum er lægra en sem svarar hversu mikils virði hann er fyrir mig og hversu aflögufær ég er um peninga. Til þess nota ég fjármagn sem ég öðlaðist með því að skapa virði fyrir aðra. Hér ber að athuga að "virði" er ávallt mat einstaklingsins sjálfs, enda er hann hæfastur til þess að meta það í hverju tilfelli.

Alþjóðavæðingin með samgöngu-, fjarskipta- og upplýsingabyltingunni hefur ollið því að möguleikar fólks til að skapa virði verða stöðugt jafnari óháð fæðingarstað og staðsetningu einstaklingsins hverju sinni. Þetta gerir eftirfarandi að verkum:
Efnahagur þjóða verður stöðugt jafnari (ef frá eru taldar öfgafullar undantekningar sem orsakast af spilltum pólitíkusum, sbr. Robert Mugabe í dag).
Ríkir verða ríkari hraðar heldur en fátækir verða minna fátækir samhliða því að fyrirtæki stækka vegna samlegðaráhrifa og stjórnendur ausa í sjálfa sig aukinni risnu í krafti stærðarhagkvæmni. Þessi þróun verður þó ekki haldið út í hið endalausa, þar sem of stórum fyrirtækjum fylgja ákveðin skipulagsvandamál.
Fólk sem gegnir sömu störfum mun verða jafn vel launað, óháð staðsetningu. Þetta hefur valdið tímabundnum pirringi hjá verkamönnum á vesturlöndum (kannski fyrir utan Ísland, sem ekki er sérstaklega til umræðu hér).
Samhliða því að fleiri hafa efni á nauðsynjavöru og eftirspurn nálgast framleiðslugetu náttúruauðlinda hækkar verð á hrávöru til lengri tíma litið. Þetta hefur sést í öfgafullum mæli að undanförnu á olíu- og matvælamarkaði.

Er þessi þróun eitthvað sem menn ættu að óttast? Ég held ekki. Eftir þessa þróun verður staðan sú að styrkur hvers lands verður nýttur á bestan mögulegan máta til virðissköpunar. Hvort sem það felst í nýtingu á náttúruauðlindum, staðsetningu eða öðru. Einnig verður mannauðurinn í heiminum nýttur á sem bestan máta til virðissköpunar, þar sem jafn hæfir einstaklingar hafa sömu möguleika óháð fæðingarstað. Vesturlandabúar geta því ekki búist við að vera hærra launaðir heldur en aðrir jarðarbúar í framtíðinni, nema að þeir séu hæfari á einhvern hátt til virðissköpunar, sama hvort þeir eru verkamenn úr Jökuldal eða bankastjórar í New York.

Þróunin í þessa átt er langt frá því að vera slétt og felld, eins og við höfum séð sl. áratug eða svo. Meiriháttar verðbólur á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum hafa hamlað henni undanfarið og skapað "falskan" vöxt á vesturlöndum. Orsakir þessara atburða eru sennilega grafnar í mannlegt eðli og menn verða að búast við annað veifið. Það breytir því ekki að langtímaþróunin verður að mínu mati eins og ég lýsti að ofan. Sem er vel.

En þó svo að einsleitni og kerfislægni fer fjármálamörkuðum vel (að því gefnu að um gott kerfi sé að ræða) er ég ekki að segja að það sama fari öðru í heiminum vel. T.d. er mikilvægt að standa vörð um fjölbreytilega menningu í heiminum. Það verður ekkert gaman ef öll menning verður Amerísk. Sama hvort um er að ræða Færeyska hringdansa eða Afríska bumbuslagara.

Ofangreint byggir á eftirfarandi forsendum:
Skattalöggjöf þjóða heimsins verði sífellt einsleitari.
Pólitík þróast í átt frá spillingu og til aukins lýðræðis hjá þróunarlöndunum (Líklegt í ljósi síaukins upplýsingaflæðis).
Maðurinn er ekki haldinn einhverri dulinni sjálfsútrýmingarhvöt. Sbr. sífellt versnandi heilsufar vesturlandabúa.

Kannski svolítil einföldun á raunveruleikanum, en lengri færsla hefði sennilega gert marga þreytta og aðra þunglynda.

föstudagur, 9. maí 2008

Veðrið

Það er búið að vera yfir 20 stiga hiti alla vikuna. Mjög ákjósanlegt svona þegar önnin er að byrja og smá tími aflögu til að taka því rólega. Fór t.d. í fótbolta í gær með bekkjarfélögunum og er að fara aftur á morgun með Cass og á sunnudaginn með íslendingunum. Reyndar verða afköst í námi töluvert minni af þessum sökum (sennilega komið svar við spurningu minni hérna um daginn varðandi læsihlutfall heimsins). Ég hélt t.d. athyglinni ekki lengur en í 3 tíma að VBA (forritun) í dag. Ákvað þá að rölta aðeins um og skrapp niður á Oxford Street. Keypti ekkert, eins og mér er lagið, og sýndist vera frekar dræm verslun mv. frábært veður og seinnipart föstudags. Ætli það sé ekki að koma samdráttur hérna í UK eins og í US.

Bjarkey flaug til Íslands í dag til þess að vera við fermingu yngsta bróður síns, Sigþórs, sem verður á sunnudaginn. Hún fer svo í starfsviðtal á þriðjudaginn, áður en hún flýgur til baka. Já, við höfum aðeins verið að leita fyrir okkur með vinnu á klakanum líka, enda þýðir ekki að vera með of miklar kenjar varðandi starfsmöguleika þegar ástandið á fjármálamörkuðum er orðið eins og það er.

Planið hjá mér um helgina er því tvíþætt: fótbolti og forritun. Ætla að reyna að vera á undan VBA kennaranum að fara yfir efni áfangans svo ég þurfi ekki að mæta í tíma hjá honum (þar sem hann er arfaslakur kennari). Sýnist það ætti ekki að vera mikið mál, þar sem við erum með fína bók í þessu. Það er því hugsanlegt að maður hafi tíma í eitthvað fleira um helgina, hvort sem hann fer í nám eða afþreyingu.

þriðjudagur, 6. maí 2008

Heimsmet í kjaftæði?

Hvað gera menn þegar þeir geta ekki leyst af hendi verkefni og þurfa að skrifa skýrslu um niðurstöðurnar? Svo virðist sem nánast allur bekkurinn minn hafi verið í þessari aðstöðu með verkefnið sem var skilað í dag. Einhverju þurfti að skila og því framleiddum við einhvern þann ómerkilegasta pappír sem framleiddur hefur verið sem var haldið uppi með kenningum sem við skildum ekki til fulls og tilviljanakenndum tilvitnunum í kóða sem virkaði ekki.

Bjarta hliðin á þessu máli er þó sú að við þurfum ekki nema 15% út úr þessu verkefni, þar sem við fengum 85% fyrir það fyrra. Gætum sloppið þar sem svo að segja allir voru í sömu stöðu og við, þannig að bekkurinn í heild fær sennilega nokkra "erfiðleikapunkta" gefins. En þessu verkefni reynir maður að gleyma sem allra fyrst.

Það var því gríðarlega gott að komast út eftir að við skiluðum í dag og uppgötva að það var 25 stiga hiti og sól. Var víst búið að vera svona í nokkra daga, en ég hafði ekki tekið eftir því. Þannig að maður skrapp út í Regent´s Park í skokk. Maður er nú orðinn óttarlegur vesalingur eftir þetta nám og getur varla hlaupið í meira en 10 mínútur án þess að standa á öndinni. Vonandi að maður hafi meiri tíma til hreyfingar á 3. önninni, sem byrjar eftir 3 tíma.

fimmtudagur, 1. maí 2008

Próflok! - Þó ekki annarlok

Jæja, þá er því lokið. Síðasta prófið kom ekki mikið á óvart og var því í léttari kanntinum. Það hefði nú samt alveg getað gengið betur hjá manni, en þetta var próf af þeirri gerðinni sem ég er ekkert sérstaklega sterkur í. Þ.e. að leggja sem mest á minnið án þess að þurfa að skilja nokkuð af þessu. Ef maður hefði reynt að skilja þetta almennilega hefði maður þurft að eyða hálfri ævinni í það. En ég held að maður sé allavega sloppinn í gegnum þetta, sem er fyrir mestu.

Eftir prófið ákváðum ég og tveir hópfélagar mínir að setja geðheilsuna framar öðru svona til tilbreytingar og leyfðum okkur að fá okkur í glas. Sumir af bekkjarfélögunum tóku annan pól í hæðina og fóru beint út í skóla til að vinna í síðasta verkefni annarinnar sem á að skilast á þriðjudaginn í næstu viku. Þetta verður jafnframt sennilega erfiðasta verkefnið sem við tökumst á við. Sem betur fer þurfum við bara að fá 15% fyrir þetta verkefni, þar sem við skoruðum svo vel í fyrra verkefni áfangans. En helgin mun fara í þetta, sem þýðir að annir 2 og 3 munu liggja saman, þar sem næsta önn byrjar á mánudaginn. Megastuð!

Stefni samt á að gefa mér 1-2 tíma í hlaup/fótbolta um helgina.

miðvikudagur, 30. apríl 2008

One to go

Annað prófið var í gær. Risk Analysis. Þetta var sennilega léttasta prófið sem við tökum og gekk bara eftir því. Maður hefði þó örugglega geta staðið sig betur ef maður væri enn jafn mótiveraður eins og í byrjun náms. Tempóið er farið að detta niður hjá manni, eins og reyndar hjá flestum í bekknum.

Síðasta prófið er á morgun, Econometrics. Það ætti að vera í lagi, að því gefnu að kennarinn komi með réttu spurningarnar. Það er nefninlega aðal kúnstin hérna úti að læra ekki allt námsefnið, heldur sérhæfa sig, þar sem það er yfirleitt val á prófunum (svara 3 af 5 spurningum er algengt).

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Veit einhver...

Af hverju læsi virðist óalgengara eftir því sem nær dregur miðbaug? Slævgandi áhrif hita á einbeitingu?

http://en.wikipedia.org/wiki/Image:World_literacy_map_UNHD_2007_2008.png

Áhrif segulsviðs jarðar á heilastarsemi?

Ákaflega athyglivert.

mánudagur, 21. apríl 2008

Púff!

Fyrsta prófi annarinna er þar með lokið. Þetta verður að teljast eitt erfiðasta próf sem ég hef tekið og óvíst að maður sleppi í gegn. Öllum sem ég hef talað við gekk illa og sumum var heitt í hamsi vegna ósamræmis á milli upplýsinga sem kennarinn veitti um prófið og þess sem raunin svo varð. Það verða því sennilega margir sem þurfa að fara í upptökupróf í ágúst/september í haust. Mögulegt er að þetta próf hafi verið hugsað sem sía, þar sem mjög fáir féllu á haustprófunum.

En það þýðir víst ekki að dvelja við það. Verð að byrja fljótlega að undirbúa næstu tvö próf sem verða á þriðjudag og fimmtudag í næstu viku. Vænti þess þó að þau verði minni fyrirstaða en prófið í dag, sérstaklega þriðjudagsprófið.

Ég hef þó leyft mér að slappa af í kvöld áður en næsta törn byrjar. Verst að það er orðið svo langt síðan maður leyfði sér að gera eitthvað annað en að læra að maður veit ekki hvað maður á að gera við sig...

...kannski maður skipuleggi undirbúning næstu tveggja prófa.

Bjarkey er að fara í fyrsta prófið á miðvikudaginn. Hún fer svo í þrjú í næstu viku: mánudag - miðvikudag - föstudag. Næsta vika hjá okkur verður því í beinann ættlegg af helvíti. Eða eitthvað svoleiðis. Gaman að því!

sunnudagur, 13. apríl 2008

Helgin og stress.

Vikan fór að mestu í prófundirbúning. Hljóðið í bekknum er frekar stressað þessa dagana. "Fixed Income" verður sennilega erfiðasta prófið sem við komum til með að takast á við í þessu námi. Enginn virðist öruggur með sig í þessu námsefni. Það verður fyrsta prófð hjá mér, 21. apríl og svo kemur 8 daga bil í næsta próf. Ein vika til stefnu og maður verður að nýta hana til fullnustu, ef maður ætlar að komast í gegnum þetta.

Við Bjarkey tókum okkur nú samt tíma í gær til að hitta Rögga, Lóló, Esther, Þorleif, Búa og Bjarna, félaga hans Búa. Túristuðumst aðeins með því að fara í London Eye og skoðuðum Parlamentið, Big Ben, skruppum á Trafalgar Square og borðuðum svo á Argentínskum stað í kjölfarið. Fengum snert að londonískri veðráttu, þar sem sól og blíða, þrumur og hellirigning skiptu deginum bróðurlega á milli sín. Útkoman var fín og gott að líta aðeins upp úr bókunum.

Svo asnaðist maður í dag til að horfa á MUFC - Arsenal á hverfispöbbnum, en þann leik unnu rauðu helvítin og því vinnur Arsenal enga dollu þetta tímabilið. En jæja, maður getur þá hætt að hugsa um það og einbeitt sér 100% að prófunum. Óþarfi að vera 2svar á viku á barmi taugaáfalls við fótboltaáhorf. Prófin geta alveg séð um þá deild.

Sumsé. Bara eitt á stefnuskránni: Próf. Óvíst með tíðni blogga á næstunni þar af leiðandi.

sunnudagur, 6. apríl 2008

2x 1-1 og Global warming

Þetta voru tveir keimlíkir leikir á milli sömu liða sem maður varð vitni að í vikunni. Báðir fóru 1-1 þar sem fyrri hálfleikurinn var í daufara lagi en í seinni hálfleik var Arsenal allsráðandi, án þess þó að skapa sér mörg færi. Og Liverpool beitti skyndisóknum. Arsenal hefði átt að fá víti í seinni hálfleik í báðum leikjunum. Maður hélt að titillinn væri úr sögunni, en þá tók Man.Utd. sig til og gerði jafntefli við Middlesbrough í dag. Þannig að enn er veik von.

Í veðurfréttum er það helst að það hefur verið hátt í 20 stiga hiti og sól núna síðustu vikuna, maður fór út að skokka í stuttbuxum, heyannir voru byrjaðar í Regent´s Park og ofnæmið var farið að gera vart við sig. Það kom því nokkuð á óvart að vakna upp við snjókomu og hvíta jörð í morgun. Sérstaklega þar sem snjó hefur ekki fest í vetur (fyrir utan kjölfarið á hagléli um páskana). Fór í tilefni að því út að hlaupa í garðinum þar sem fólk á öllum aldri og frá öllum heimsálfum skemmti sér konunglega við að búa til snjókarla. Sjálfsagt hafa margir þarna verið að sjá snjó í fyrsta skiptið, ef miðað er við ákefðina og vinnubrögðin hjá fólki við snjókarlagerðina (menn voru fæstir búnir að uppgötva upprúll-aðferðina, heldur báru bara snjóinn í höndunum í kallinn).

Sjálfsagt taka fáir þetta alvarlega sem hluta af Global warming. Þyrfti sennilega frosthörku í nokkra daga á vormánuðum svo laufblöð og gras haldist gul langt fram á sumar í borginni. Fólk er of "ignorant" til þess að vakna við þetta m.v. það sem á undan hefur gengið án viðbragða.

Jæja, best að halda áfram í hagmælingunum!

fimmtudagur, 3. apríl 2008

2x Arsenal - Liverpool

Fór óvænt á Arsenal-Liverpool í gær. Sævar, fyrrum yfirmaður minn hjá ÍV, hafði samband um hádegið þar sem hann var með 2 miða á leikinn sem honum vantaði að losna við. Þannig að ég ákvað að slá fyrirlestrinum sem ég var með í morgun upp í kæruleysi og skella mér ásamt félaga mínum úr náminu. Sé ekki eftir því, þetta var fínn leikur þó svo að úrslitin hafi ekki verið neitt sérstök: 1-1 og erfiður leikur eftir á Anfield. En Arsenal átti m.a. að fá víti og voru mun betri mestallann leikinn.

Svo var unnið fram til hálffjögur í nótt í fyrirlestrinum. Hann gekk þrátt fyrir allt bara ágætlega.

Svo fer maður aftur á Arsenal - Liverpool á laugardaginn, núna með Bjarkey, en þá eru liðin að spila í deildinni. Þannig að það er nóg að gera í fótboltafárinu núorðið. Þetta er líka besti tíminn til þessa, þar sem það er hæfilega langt í prófin og styttist í lok tímabilsins.

Annars er ég búinn að fá 2 einkannir í vikunni: 85% í Econometrics, sem var einstaklingsverkefni og 85% líka fyrir C++, sem var hópverkefni. Þannig að maður er sáttur við þróunina eins og er. Eigum samt eftir að fá nokkrar einkannir úr allri þessari verkefnasúpu, vonandi bara að það verði á svipuðum nótum.

Á morgun er best að maður skreppi í Regent´s Park að hlaupa og reyni síðan að komast eitthvað áfram í upplestrinum.

sunnudagur, 30. mars 2008

Einkannir og verkefnaskil

Jæja, þá eru einkannir haustannar loksins ljósar. Svo sem engar flennieinkannir, meðaleinkunn um 62%. En öllu var náð, sem er fyrir mestu. Bjarkey hins vegar sáttari við sitt, en hún er með í kringum 80%, eins og staðan er núna, sem er sennilega með því hæsta í bekknum.

Svo var helsti verkefnakúfurinn að klárast á föstudaginn. Skilaði einu verkefni sem telur heilan áfanga og einu 25% hópverkefni. Eins og venjulega voru allir að klára þetta á síðustu klukkutímunum/mínútunum, þannig að menn voru hálfdasaðir á pöbbnum í kjölfarið. Menn slepptu því djamminu þetta föstudagskvöldið.

Fram undan er sumsé upplestrar"frí", en fyrsta prófið er 21. apríl. Reyndar þarf ég líka að skila 50% hópverkefni 14. apríl, þannig að það verður feykinóg að gera, eins og venjulega.

Helgin fór því að mestu í útihlaup, afslöppun og skipulagningu fyrir næsta mánuðinn. Við Bjarkey fórum reyndar líka í bíó í gærkvöldi á 10,000 BC, sem var allt í lagi svo lengi sem maður hugsaði ekki um svívirðilegar sögulegar staðreyndarangfærslur, sem nóg var af.

Á laugardaginn nk. förum við Bjarkey svo á Arsenal-Liverpool á Emirates! Sú heimsókn verður í boði ÍV, en þeir voru svo rausnarlegir að gefa mér 2 miða á leik að eigin vali í deildinni í kveðjuskyni sl. haust. Fínt að geta tekið einn dag í eitthvað annað en lærdóm svona mitt í prófundirbúningnum.

Já, og svo voru Siggalára "meðalstóra" systir og Árni að skýra um sl. helgi. "Friðrik" var fyrir valinu, sem er í hausinn á föður Árna, sem féll frá rétt um ári áður en sá litli fæddist.

Fyrir utan áframhaldandi taugaveiklun á fjármálamörkuðum er ekkert annað í fréttum.

laugardagur, 22. mars 2008

Ísland hvað?

Í gær fórum við Bjarkey í sól og blíðu út í Waitrose að kaupa í páskamatinn ofl. Þetta væri nú svosem ekki til frásögu færandi, nema hvað að þegar við vorum komin heim aftur um hálftíma síðar var orðið heldur betur þungbúið. Stuttu seinna heyrðust þrumur og örskömmu seinna var komið... HAGLÉL! og það af sverari gerðinni. Held að ég hafi varla verið vitni að öðru eins á Íslandi. Höglin örugglega um 1 cm í þvermál og stóð élið í um mínútu. Jörðin var orðin grá eftir þetta. Breytilegt veðurfar er semsagt að finna víðar en á Íslandi, öfugt við það sem mér hefur fundist samhljóða álit íslendinga vera.

Kíkti annars aðeins út í gærkvöldi og hitti Halldór hollending, sem er í heimsókn í London yfir helgina og kvaddi Kacper, pólskan félaga minn og skiptinema í Cass, sem er að hverfa aftur til heimalandsins á morgun. Bara rólegt pöbbarölt og var kominn heim fyrir miðnætti. Ekki til ofdrykkjunnar boðið vegna verkefnaálags.

Já, og svo tók ég próf á fimmtudaginn í Risk analysis og fékk 86%. Prófið var reyndar fáránlega létt, en gott að fá eitt svona til að hífa meðaleinkunnina aðeins upp. Skilaði 25% verkefni í econometrics í gær og er að vinna í stóru verkefni (gildir 2/3 af heilum áfanga) sem á að skilast nk. föstudag ásamt með öðru 25% verkefni. Eftir það verður helsti kúfurinn liðinn hjá, án þess að hægt sé að segja að það verði rólegt.

Á morgun er planið að háma í sig lamb í hádeginu með frúnni og fara svo út að borða með Halldóri og Bjarkey á malasískan stað. Þess á milli verður borðað íslenskt páskaegg og unnið í risaverkefninu. Þetta verður því þéttur páskadagur á alla kanta. :)

Gleðilega Páska!

mánudagur, 17. mars 2008

Sjö prósent

Gjaldeyrismarkaðir bjóða yfirleitt ekki upp á meiri sveiflur en hlutabréfamarkaðir frá degi til dags, en í dag var breyting þar á. 7% veiking á gjaldmiðli er fáheyrt. Það er helst að álíka hafi gerst í Rússlandi undir Borís Jeltsín eða við hrunið í Argentínu á 10. áratugnum. Munurinn er hins vegar sá að Ísland er þróað, (að því að við teljum okkur trú um) nútímalegt hagkerfi. Vissulega er skuldsetning landans á heimsmælikvarða en ástæða þessarar hreyfingar er fyrst og fremst að leita í vandræðum yfirskuldsettra fjárfesta sem hafa sennilega loksins neyðst til að gefast upp og loka stöðum sínum. Þetta ætti því að vera tímabundið ástand og krónan að koma til baka í framtíðinni. Hún gæti reyndar mögulega veikst eitthvað meira, en það væri þá bara tímabundið.

Eftir að hafa eytt smá tíma hérna úti hefur maður fengið nýja sýn á íslenskt hagkerfi og þá sérstaklega vegna atorkunnar í fólkinu. Það þarf ekki annað en að fara út í búð til að sjá muninn. Fjórtán ára krakkinn á kassa í Bónus á íslandi myndi taka 35 ára indverjann í Teskó í nefið hvað varðar afgreiðsluhraða. Svona er þetta varðandi flest hérna úti. Engin framleiðni. Að maður tali nú ekki um infrastrúktúrinn. Ísland er áratugum á undan Bretlandi varðandi gæði fasteigna, að því að mér virðist. Svo er það náttúrulega ódýra og hreina orkan sem við höfum heima, sem hefur og á eftir að fleyta okkur mjög langt í framtíðinni. Sérstaklega ef menn róa sig aðeins og rembast ekki við að koma upp álveri á hverjum útára helst í gær og setja með því allt kerfið á hliðina í óskilgreindan tíma. Það er ekki hollt.

En mestu tækifærin liggja þó í fólkinu. Þekking á eftir að verða í sífellt meira mæli sú náttúruauðlind sem skapar mest virði í heiminum. Til þess að geta hugsað þarf súrefni og af því hafa íslendingar nóg af, ólíkt mörgum öðrum þjóðum eins og t.d. kínverjum. Menntastigið er sífellt að aukast og menn eru orðir sjóaðri í alþjóðaviðskiptunum.

Ég held því að framtíðin sé björt. Það er aðeins spurning hvað millitíðin ber í skauti sér.

Annars kláraði ég eitt 25% verkefni um helgina, sem á að skila á föstudaginn nk. Kláraði minn hluta af 25% hópverkefni, sem á að skila föstudaginn 28. Samt er bilað að gera og maður sér ekki út úr verkefnastaflanum. 10% próf í Risk Analysis á fimmtudaginn, svo þarf ég að fara að byrja á verkefni sem telur heilan áfanga og á að skila 28. mars o.s.frv. Stuð.

Gaf mér samt tíma til að hitta Manna á laugardagskvöldið, sem var á ferðinni með pabba sínum í borginni til að sjá Arsenal - Middlesbrough. Kíkti í mat og nokkra bjóra með þeim - og fór svo aftur heim í verkefnavinnu þegar það var frá. Stuð.

sunnudagur, 9. mars 2008

Sama gamla

Vikan fór í verkefnavinnu. Veitti mér þann munað að fara í fótbolta á laugardaginn að venju svo ég bilist ekki af lærdómi. Fór reyndar líka í mjög stutt, fámennt og góðmennt afmæli hjá pólskum félaga mínum úr skólanum síðdegis á laugardag.

Næsta vika verður áframhaldandi verkefnavinna og púl. Það styttist í helstu skiladagana sem verða flestir á síðarihluta mánaðarins. Síðan kemur hann Manni, félagi minn, að sjá Arsenal-Middlesbrough um næstu helgi, vonandi næ ég að skrapa saman nokkrum mínútum í vikunni til að hitta hann.

sunnudagur, 2. mars 2008

Dagur frá námi

Fór á Arsenal - Aston Villa í gær ásamt með Bjarkey, tengdaforeldrunum og Sigþóri bróður hennar. Það leit nú ekki vel út með úrslitin, Aston Villa var 1-0 yfir þangað til á síðustu sekúndunum þegar bauninn, Nicklas Bendtner, skoraði með línupoti eftir kraðak í teignum. 1-1 voru því úrslitin sem eru kannski þolanleg fyrir Arsenal þar sem þeir eru enn á toppnum eftir þennan frekar slappa leik og eru að fara að fá menn úr meiðslum á næstu vikum sem ætti að hjálpa þeim í lokaslagnum. Stuðningsmenn Villa (sem sátu beint fyrir neðan okkur) voru hins vegar mjög ósáttir við þetta, en þeir töldu að þær 3 mínútir sem dómarinn bætti við væru löngu búnar.

Það er alltaf svolítið mögnuð upplifun að fara á fótboltaleik í Englandi. Þarna sýna fullorðnir menn vanþroska í verki og fá útrás fyrir bældar tilfinningar og beina þeim alla jafna að stuðningsmönnum andstæðinganna. Þetta virðist oft vera mikilvægari ástæða fyrir ferðinni á völlinn heldur en að horfa á fótbolta. Ég varð vitni að ófáum niðrandi orðbrögðum og handabendingum auk þess að lögreglan mátti hafa sig alla við að halda stuðningsmönnum liðanna í sundur á tímabili. Þetta virðist vera hluti af leiknum sem maður sér samt sjaldan í sjónvarpinu.

Það kom í ljós í vikunni að það verður ekki lengur umflúið. Nemendur í Quantitative Finance verða að vera töluvert vel að sér í "Stochastic Calculus" ætli þeir sér að ná 2 af 4 áföngum á þessari önn. Flestir í bekknum hafa gert atlögu að því að læra þessar rúnir, en fáir haft nokkurt erindi sem erfiði. Næstu dagar og vikur hjá mér munu því væntanlega vera helgaðar þessum fræðum sem Einstein notaði fyrstur til að lýsa tilviljanakenndri hreyfingu rafeinda um kjarna atóms. Ég þarf því að fara að koma "fattaranum" í gang sem fyrst ef ég ætla að komast í gegnum þetta nám. Vökunætur gætu verið á næsta leiti.

Annars flaug Bjarkey með foreldrum sínum og bróður í tveggja daga verslunar- og skemmtiferð til Amsterdam í morgun. Ég ákvað að ég hefði ekki tíma í það. Sé ekki eftir því núna eftir áðurnefnda uppgötvun.

Sumsé: Gamanið búið í bili og meira streð framundan.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Uppfærsla

Það sem hefur gerst hjá mér frá síðustu færslu er eftirfarandi:
1. Fór í paintball um sl. helgi ásamt bekkjarfélögunum. Ég var að prófa þetta í fyrsta skipti og mæli klárlega með þessu fyrir þá sem hafa gaman að því að hafa gaman.
2. Skrapp aðeins á barinn eftir skóla á föstudaginn með nokkrum af bekkjarfélögunum. Það var stemming.
3. Fór út að borða með bekkjarfélögum í gærkvöldi á Mexíkóskan stað í Covent Garden. Það var stuð.
4. Fór í fótbolta í gær og um síðustu helgi. Það var gaman.
Fyrir utan þetta hef ég lítið annað gert en að læra. Við Bjarkey reynum þó að taka okkur tíma frá náminu annars lagið til að dorma yfir imbanum, en það er nú ekkert of oft sem það gerist. Það er líka búið að vera mikið að gera hjá henni. Miðannarpróf, starfsviðtöl og verkefnavinna.
Svo þarf ég að fara að ganga frá því hvort ég ætli að skrifa lokaritgerð eða ekki. Er farinn að hallast frekar að því að taka 3 auka áfanga í staðin fyrir ritgerð. Held að það sé meira að græða á því. Ég myndi þá líka klára skólann 13. júní mv. það plan.
Ástandið á fjármálamörkuðum gerir það að verkum að maður hefur varla hugleitt að sækja um vinnu nýlega. Ekki það að maður sé eitthvað að örvænta. Maður hefur séð ýmis atvinnutækifæri hér í borg ef maður er opinn fyrir nýjungum. T.d. væri hægt að fá vinnu sem blaðadreifari á einhverju götuhorninu, handsápudælari á einhverjum barnum hér í borg eða götusópari. Tækifæri fjármálaverkfræðinga eru allstaðar, bara ef menn eru vakandi.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Tjáningaþörf

Magnað hvað menn hafa mismikla þörf fyrir að tjá sig og deila lífi sínu með öðrum. Ástæður þessa eru sennilega mjög mismunandi. Genetískar og/eða áunnar.

Altént er ljóst hvar ég lendi á skalanum, sbr. Þetta blogg :)

Það hefur sumsé ekki mikið verið fréttnæmt að gerast undanfarið að mínu mati, fyrir utan námsstreðið sem er eiginlega hætt að vera fréttnæmt.

Sé til hvort tjáningaþörfin verði kannski fyrir hendi um helgina.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Forritun á föstudagskvöldi

Vaknaði upp við það rétt í þessu að ég var búinn að eyða 6 klukkutímum samfellt í forritunarverkefni, án þess að taka eftir því. Merkilegt hvað þetta verður skemmtilegt þegar maður kann eitthvað smá í þessu. Mætti líkja þessu við tilraun til að leysa gestaþraut.

Það er sumsé bara þetta gamla að frétta. Glíman við verkefnin er byrjuð fyrir alvöru. Þetta er sá tími annar þar sem maður fílar sig samviskusaman fram úr hófi, þar sem flestir samnemendurnir eru lítið farnir að spá í verkefnunum. Hópurinn minn er hins vegar allur á sama meiði og vill klára þetta af sem fyrst sem ég er mjög sáttur við. Svo eru fögin líka farin að verða töluvert strembnari. Maður þarf því að halda mjög vel á spöðunum næstu 2 mánuðina ef skorið á að vera ásættanlegt þessa önnina. Svo þarf ég að fara að ákveða hvort ég ætli að skrifa lokaritgerð. Það myndi þýða ca. mánuð í viðbót fyrir framan tölvuna í júlí í staðin fyrir sumarfrí. En ég held að ég myndi bæta töluvert meiru við þekkinguna á því að skrifa ritgerð. En þetta veltur líka á því hvort ég finni eitthvað nógu áhugavert til að skrifa um.

Annars er búið að plana ferð á Arsenal - Aston Villa þann 1. mars, afmælisdegi bjórsins á íslandi, með tengdafamelíunni sem verður í verslunarferð um þá helgi. Á von á hörkuleik, sérstaklega þar sem Aston Villa er komið í baráttuna um Evrópusæti, jafnvel Meistaradeildarsæti, eins og staðan er núna.

Annars er frúin í afmæli hjá tveimur bekkjarsystkynum núna, þannig að maður er bara einn í koti með bjór við hönd í tilefni vikulokanna.

Fór í fótbolta í ca. 20 stiga hita í Regent´s park í dag. Ekki amarlegt, sérstaklega þegar maður hugsar til útihlaupanna í snjósköflunum á Egilsstöðum og Akureyri forðum og núverandi veðráttu heima, sem mér skilst að sé ekki álitleg.

Jæja, ætli maður fari ekki að skoða gamlar lokaritgerðir og sjái hvort manni detti eitthvað sniðugt í hug sem lokaritgerðarefni.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Nýr erfingi

Þau tíðindi urðu í gærmorgun að hún Siggalára systir mín varð léttari. Eignaðist hún strák og heilsast móður og barni vel. Svipar honum mjög til Gyðu, systur hans, þegar hún var nýfædd. Nema hvað að hann er töluvert minni. Enda fæddur 6 dögum fyrir tímann, en Gyða var einhverjum 2 vikum eftir tímann, ef ég man rétt. Fær nýstækkuð fjölskylda bestu kveðjur frá London.

Hins vegar er lítið að frétta af suðausturvígstöðvunum. Er að reyna að vera gríðarlega samviskusamur og skipulagður og taka önnina snemma til þess að dreifa álaginu. Það er samt meira en að segja það. Virðist alltaf vera sem maður þurfi einhverja tímapressu til þess að hlutirnir gangi almennilega. Maður reynir þá bara að nota tímann og velta fyrir sér mögulegum lokaritgerðarverkefnum. En það verður val um hvort maður vill skrifa lokaritgerð eða taka 3 auka áfanga. Ég hef nokkurn hug á ritgerðinni, að því gefnu að ég finni eitthvað nógu áhugavert og praktískt.

Skrapp í fótbolta á laugardaginn með nokkrum skólafélögum. Annars fór helgin í lærdóm og rólegheit bara. Bjarkey hefur verið á kafi í lærdómi, en hún er að skila fyrsta verkefni annarinnar á morgun, sem telur 50% af heilum áfanga.

föstudagur, 25. janúar 2008

Start á önn 2

Önnur önnin fer bara ágætlega af stað. Við erum komin með þrjá nýja kennara. Tveir af þeim lofa góðu og sá þriðji er ekki alslæmur, frekar kærulaus samt, að því er virðist. Fyrsta vikan var þó nokkuð róleg, eins og vera ber. Hins vegar hefur verið nóg að gera að reyna að kynna sér stochastic calculus (ísl. þýðing fannst ekki), sem við þurfum fyrir fixed income (skuldabréfa) áfangann. Aðrir áfangar sem ég tek núna eru: Númerískar aðferðir og hagmælingar (áframhald frá síðustu önn) og svo er það Risk Analysis (Áhættugreining), sem ég held að gæti orðið mjög áhugaverður áfangi, eins og þeir allir reyndar.

Ég er kominn með verkefnahóp fyrir önnina, sem mér líst mjög vel á. Samanstendur hann auk mér af indverja/keníabúa/englendingi, sem ég vann með á síðustu önn og stóð sig langbest af samstarfsmönnunum, og ástrala, sem að mínu mati er einn sá klárasti í bekknum. Vænti því að verkefnavinna þessarar annar verði átakaminni en á síðustu önn. Þó hún verði að sjálfsögðu ekki létt.

Annars kom í ljós í dag, eftir að við Bjarkey vorum búin að snúa upp á flesta líkamsparta nánast allra starsmanna stúdentagarðanna í rúma viku, að það er ekki hægt að hreinsa loftstokkinn í íbúðinni okkar án þess að gera einhverjar meiriháttar ráðstafanir. En okkur grunar að þar leynist mygla, sem hafi verið að halda okkur meira og minna veikum frá því í haust. Virðist því vera að við höfum eftirfarandi kosti í stöðunni:
a. Lifa við þetta og hætta á hrun ónæmiskerfa,
b. Halda okkur að heiman eins og við getum til að sleppa við gerlana eða
c. Beita enn harðari aðgerðum í garð garðanna svo að þetta verði skoðað frekar.
Þrír slæmir kostir og bjálfalegt að þurfa að standa frammi fyrir svonalöguðu þegar maður borgar 90 þús. á mánuði fyrir þennan skáp og stendur í mastersnámi á sama tíma.

Já, svo fór ég í atvinnuviðtal í vikunni. Nýtt kompaní að nafni Phanero, sem er verið að setja af stað núna með vorinu. Staðan er "Quant Analyst", sem myndi aðallega fela í sér að fylgjast með og spá fyrir um þróun á flökti og fylgni á fjármálamörkuðum. Var mjög afslappað viðtal og í raun var þetta bara hugsað sem tækifæri fyrir umsækendur til að kynnast fyrirtækinu, og öfugt. Síðan verður bara að koma í ljós hvort manni verður boðið í annað viðtal, sem væntanlega yrði á faglegri grunni.

Annars stefnir í rólega helgi. Maður verður sennilega bara heima að læra. Reyni kannski að hlaupa í Regent´s Park á morgun, til að koma blóðinu á örlitla hreyfingu. Svo er fótbolti á sunnudaginn á sama stað.

mánudagur, 21. janúar 2008

Próflok og bjórlagning

Jæja, síðasta prófið gekk bara þokkalega á fimmtudaginn. Sérstaklega ef miðað er við upplitið á mörgum af samnemendum mínum eftir þetta. Prófið var í lengri kantinum og lítið um léttar spurningar, þannig að allir voru í tímapressu og flestir þurftu að sleppa spurningum. Þetta rétt slapp hins vegar hjá mér, þó svo að ekki hafi öll svörin verið jafn beisin.

Eftir prófið var svo skundað á galeiðuna, þar sem menn nutu spennufallsins og jusu úr skálum sínum, hvers kyns sem þær nú voru. Menn ílengtust mismikið og þeir síðustu voru að tínast af pöbbaröltinu um klukkan þrjú, sem þykir nú töluvert seint á londonískan mælikvarða. Vart þarf að taka fram að eini íslendingurinn var í þessum hópi.

Á föstudaginn var svo uppteknum hætti haldið, en þá kom hollendingurinn Húni fljúgandi í heimsókn til London. Var því stefnan tekin á sötur með honum og Sigga, félaga hans sem staddur var hér á námskeiði í London. Þróaðis sötrið með ágætum og áður en við vissum af vorum við búnir að torga medium-rare nautasteik á mann, prófa velflestar krárnar við Leicester square, háma í okkur skyndibita af óskilgreindum götusala á subbulegu götuhorni í miðborginni og klukkan orðin tvö.

Laugardagurinn var hins vegar rólegri þar sem við félagarnir kíktum bara á enskan pöbb þar sem við gátum glápt á boltann. Drukkum ekkert svo marga bjóra það kvöldið og var ég kominn heim um kl. 11.

Sunnudaginn tók ég svo snemma og fór í íslendingafótbolta kl. 11, sem hefur verið viðtekin venja hjá mér í vetur, þegar mæting hefur verið næg og ég haft tíma. Eins og vani er hjá þessum hópi kíktu menn á kránna eftir æfinguna. Ég stoppaði nú stutt við þar, enda orðinn hálfbjórleginn eftir síðustu 3 daga.

Þetta er í stuttu máli það sem á mína daga dreif í fríinu. Búið að vera ágætis afslöppun. Næsta önn byrjaði svo í dag og lítur út fyrir að maður verði að byrja þetta strax af krafti til að lenda ekki í vandræðum fljótlega.

mánudagur, 14. janúar 2008

Þriðja og næstsíðasta

Econometrics (hagmælinga) prófið gekk bara ágætlega í dag. Erfitt að segja þó þar sem tímapressan var töluverð og villuhættan verður alltaf meiri við þær kringumstæður. En ég held að ég hafi örugglega náð þessu allavega.

Annars vorum að fá einkannir fyrir tvö af verkefnunum og hljóðaði það upp á 68% og 72%, sem bæði voru yfir meðaltali bekkjarins, sem er alltaf ákveðinn áfangi.

Síðasta prófið hjá mér verður svo á fimmtudaginn í derivatives (afleiðum). Er ég bara þokkalega bjartsýnn fyrir það þó svo að erfiðara sé orðið að halda einbeitingu svona þegar liðið er á prófatíð.

Bjarkey fer hins vegar í síðasta prófið sitt á morgun og getur þá slappað aðeins af fram í næstu viku, þegar næsta önn hefst.

Lítið annað er í fréttum. Helgin fór bókstaflega öll í lærdóm eins og næstu 2 dagar munu gera líka.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

2. búið - 2 eftir

Jæja, þá er annað prófið búið. Það var í "Numerical methods" (númerískum aðferðum). Það gekk langt frá því eins vel og fyrsta prófið. Ég er búinn að komast að því að þetta fyrirkomulag bretans að fólk velji hvaða spurningar það ætlar að svara er með því bjánalegra sem ég hef séð. Sérstaklega þegar maður rekur sig á að efnið sem maður velur er notað sem sía yfir allt prófið (þ.e. mjög erfið spurning svo enginn nái 10). Þetta kom á daginn í dag þar sem spurningin sem ég valdi valdi (33,3% af prófinu) var úr síðustu 2 blaðsíðunum úr kaflanum sem ég las og var það eina sem ég skildi ekki fullkomlega. Hvernig á manni að detta í hug að akkúrat það sem kennarinn talar ekki um vegi svona mikið á prófi. Fáránlegt. Það er lágmark að menn kunni almennilega að skrifa próf ef menn ætla að vera með svona valspurningar.

Semsagt: Eyddi litlum tíma í fyrsta prófið og gekk vel en eyddi gríðarlegum tíma í þetta fag og gekk illa. Kannski að maður sleppi bara algjörlega lærdómi fyrir næsta próf, sem er Econometrics á mánudaginn. Þetta verður alltaf hálfgert lottó hvort eð er.

Bjarkey er búin að taka tvö próf í vikunni, á þriðjudag og í dag og hefur gengið ágætlega/vel í þeim báðum.

Annars erum við Bjarkey búin að vera svolítið slöpp undanfarið og er okkur farið að gruna að loftið í íbúðinni sé ekki í lagi. Ætlum að láta taka loftræstinguna (basically gat í loftinu á baðinu og í eldhúsinu) í gegn. Ég sá eitthvað grænt teygja sig þar út í gær. Gæti verið að orsaka þetta rugl. Ekki búið að vera eðlilegt hvað við höfum verið mikið veik síðan við komum hingað.

Fátt annað er í fréttum. Nema að ég fann hvernig maður stillir á íslenskt lyklaborð í Windows Vista (eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir). Held ég slaki kannski aðeins á í kvöld áður en að hafist verður handa við undirbúning næsta prófs.

mánudagur, 7. janúar 2008

1 buid - 3 eftir

Jaeja, ta er fyrsta profi annarinnar lokid. Thad var tekid nu middegis og var i 'Asset Pricing', eda 'Eignaverdlagning' - eins og thad myndi sennilega utleggjast a islensku. Thetta gekk bara nokkud vel. Serstaklega midad vid ad veikindi min settu strik i reikninginn i undirbuningnum fyrir thetta prof. Hef ad ollum likindum nad thessu, sem er alltaf nr. 1.

Naest a dagskra er svo 'Numerical Methods', eda 'Numeriskar adferdir' a fimmtudaginn. Reikna med ad thad verdi erfidasta profid a onninni og enda hef eg eytt mestum tima i undirbuning fyrir thad af ollum profunum. Allt verdur sett a fullt fyrir thad nuna thegar eg verd buinn ad slappa nog af eftir fyrsta profid.

Bjarkey fer i sitt fyrsta prof a morgun og svo er naesta a fimmtudaginn. Heyrist hun vera i agaetis malum fyrir slaginn.

Annars voru aramotin hja okkur Bjarkey thannig ad vid bordudum bara herna heima (vegna slappleika hja mer). Eftir tad og thegar eg var buinn ad drekka nog Viski til thess ad hafa mig af stad forum vid nidur ad 'London Eye', thar sem adal flugeldasyningin var. Vorum reyndar svolitid langt fra flugeldasyningunni og saum ekki mikid, thar sem nokkur hundrud thusund manns voru ad reyna ad troda ser eins nalegt og their gatu. Eyddum sidan einum og halfum tima i ad labba heim, thar sem nedanjardarlestarnar voru allar lokadar i kjolfarid vegna oryggisradsstafana. En thetta var samt agaet upplifun. Held ad eg hafi aldrei sed svona margt folk samankomid. Myndi samt ekki nenna thessu aftur, held eg.

Annad er svosem ekki i frettum. Thad eina sem madur gerir thessa dagana er ad laera og gera sinar natturulegu tharfir.