sunnudagur, 2. mars 2008

Dagur frá námi

Fór á Arsenal - Aston Villa í gær ásamt með Bjarkey, tengdaforeldrunum og Sigþóri bróður hennar. Það leit nú ekki vel út með úrslitin, Aston Villa var 1-0 yfir þangað til á síðustu sekúndunum þegar bauninn, Nicklas Bendtner, skoraði með línupoti eftir kraðak í teignum. 1-1 voru því úrslitin sem eru kannski þolanleg fyrir Arsenal þar sem þeir eru enn á toppnum eftir þennan frekar slappa leik og eru að fara að fá menn úr meiðslum á næstu vikum sem ætti að hjálpa þeim í lokaslagnum. Stuðningsmenn Villa (sem sátu beint fyrir neðan okkur) voru hins vegar mjög ósáttir við þetta, en þeir töldu að þær 3 mínútir sem dómarinn bætti við væru löngu búnar.

Það er alltaf svolítið mögnuð upplifun að fara á fótboltaleik í Englandi. Þarna sýna fullorðnir menn vanþroska í verki og fá útrás fyrir bældar tilfinningar og beina þeim alla jafna að stuðningsmönnum andstæðinganna. Þetta virðist oft vera mikilvægari ástæða fyrir ferðinni á völlinn heldur en að horfa á fótbolta. Ég varð vitni að ófáum niðrandi orðbrögðum og handabendingum auk þess að lögreglan mátti hafa sig alla við að halda stuðningsmönnum liðanna í sundur á tímabili. Þetta virðist vera hluti af leiknum sem maður sér samt sjaldan í sjónvarpinu.

Það kom í ljós í vikunni að það verður ekki lengur umflúið. Nemendur í Quantitative Finance verða að vera töluvert vel að sér í "Stochastic Calculus" ætli þeir sér að ná 2 af 4 áföngum á þessari önn. Flestir í bekknum hafa gert atlögu að því að læra þessar rúnir, en fáir haft nokkurt erindi sem erfiði. Næstu dagar og vikur hjá mér munu því væntanlega vera helgaðar þessum fræðum sem Einstein notaði fyrstur til að lýsa tilviljanakenndri hreyfingu rafeinda um kjarna atóms. Ég þarf því að fara að koma "fattaranum" í gang sem fyrst ef ég ætla að komast í gegnum þetta nám. Vökunætur gætu verið á næsta leiti.

Annars flaug Bjarkey með foreldrum sínum og bróður í tveggja daga verslunar- og skemmtiferð til Amsterdam í morgun. Ég ákvað að ég hefði ekki tíma í það. Sé ekki eftir því núna eftir áðurnefnda uppgötvun.

Sumsé: Gamanið búið í bili og meira streð framundan.

Engin ummæli: