þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Millibilsástand

Ég biðst velvirðingar á bloggleysi undanfarnar vikur. Ég er búinn að vera of upptekinn við að slappa af og að vera atvinnulaus síðan ég kom á klakann til að blogga.

Júlímánuðurinn var notaður í afslöppun á Egilsstöðum. Fótbolti, golf og bjór var þema mánaðarins eftir frækilega frammistöðu í náminu í vetur. Bjarkey eyddi mestum hluta mánaðarins á eigin heimaslóðum, þannig að við breiddum vel úr okkur landfræðilega eftir að vera búin að hýrast í sama kústaskápnum í London í heilan vetur.

Við fluttumst svo í Hafnarfjörðinn í lok júlí og Bjarkey byrjaði vinnu sína hjá Ríkisendurskoðun 1. ágúst. Ég hef sjálfur verið að leita að vinnu síðan eftir verslunarmannahelgi hérna fyrir sunnan. Hlutirnir eru farnir að þokast í rétta átt í þeim efnum. Allavega hef ég verið að fá viðtöl hjá nokkrum aðilum núna á síðustu dögum. Vonandi verður eitthvað meira að frétta af þeim málum á næstu dögum/vikum.

Annars þakka ég mínu sæla að vera þó allavega að leita að vinnu, en ekki að læra fyrir upptökupróf úti í London, eins og mjög margir af mínum bekkjarfélögum þessa dagana. Ég er búinn að fá allar einkunnir nema eina af síðustu önninni og ég er í séns að fá það sem er kallað "Merit" eða "dyggð", sem fæst fyrir 65% meðaleinkunn þarna í Bretlandi. Það væri nú gaman.

Engin ummæli: