laugardagur, 20. september 2008

Fjármálakrísan

Sjaldan eða aldrei hefur fjármálaheimurinn verið eins mikið í sviðsljósinu og sl. viku, og hefur hann þó verið mjög fyrirferðamikill undanfarinn áratug. Eins og oft áður þegar fjölmiðlar þurfa að fara að taka á málum verður umræðan yfirborðskennd og áherslupunktarnir ekki mjög góðir. Enda starfa ekki sérfræðingar á fjölmiðlum, heldur "alfræðingar" - fólk sem á að þekkja til alsstaðar, og gerir það. Bara ekki nógu vel. Afleiðingin verður oft á tíðum afvegaleidd og marklaus umræða sem getur leitt af sér ranghugmyndir almennings - sem geta verið mjög hættulegar samfélaginu. Ég ætla að reyna að bæta úr þessu hér. Svona fyrir þá sem ekki hafa botnað upp eða niður í því sem hefur verið í gangi undanfarið.

Orsakir:
Upp úr aldamótunum 2000 og eftir 11. sept. 2001 var bandarískur fjármálamarkaður í miklum erfiðleikum. Alan Greenspan brást þá við með því að lækka stýrivexti alveg niður í eitt prósent (2002). Þetta var allt gert í góðri meiningu (forðast gjaldþrotahrinu og fjöldaatvinnuleysi). Hins olli þetta auðveldara aðgengi að lánsfé, vegna þess að minni líkur eru á að fólk/fyrirtæki fari á hausinn þegar vextir eru lágir (af því að flestir skulda töluvert), þannig að bankar lánuðu þá bara meira, vegna þess að þeir treystu á lága vexti og þ.a.l. lágt gjaldþrotahlutfall. Peningarnir fóru að miklu leyti inn á fasteignamarkaðinn, vegna hjarðhegðunar samfélagsins, og jós þannig olíu á eld húsnæðisverðhækkanir, sem voru orðnar mjög miklar fyrir. Þessi stemming á fasteignamarkaðinum í BNA smitaðist svo yfir á önnur vestræn ríki.

Önnur orsök þess að fallið er svo hátt nú eru faldir í bónusgreiðslum til stjórnenda og annarra starfsamnna útlánafyrirtækja á heimsvísu. Sú staðreynd að í mörgum tilfellum fær starfsfólk hlutdeild í hagnaði fjármálafyrirtækja gerir það að verkum að það verður áhættusæknara. Dæmi: Ef valið stendur á milli þess að lána mjög góðum skuldara á 5% vöxtum eða meðalgóðum skuldara á t.d. 6% vöxtum, eru meiri líkur á að stjórnandinn velji verri skuldarann, vegna þess að hann fær hlutdeild í þessum auka vaxtatekjum (mismunurinn, 1%), en þó svo að hann fari á hausinn ber hann engan skaða af - grunnlaunin eru alltaf til staðar. Auk þess treystir hann á að vextir verði lækkaðir aftur, eins og upp úr 2000 til þess að bjarga skuldaranum frá þroti. Þetta eykur enn á útlán, hækkanir fasteignaverðs, verðbólgu, góðæri, stemmingu, ofurlaun, launamun, stéttaskiptingu.

Þriðja orsökin, sem hefur ekki hlotið mikla umgjöllun fjölmiðla (hér heima allavega), eru lánshæfismatsfyrirtækin. Þau gefa út opinber álit á hversu líklegt er að skuldarar standi í skilum. Þau brugðust trausti fjárfesta þegar þau gáfu út hæsta lánshæfismat á skuldabréfaafurðir sem m.a. innihéldu fasteignaskuldir slakra skuldara í BNA (nefnd undirmálslán á ísl.), sem hafði jafnvel verið neitað um lán hjá venjulegum bönkum þar í landi. Líklega hafa fá gjaldþrot síðan snemma á síðasta áratu, vegna vaxtastefnu Greenspan, einnig haft sín áhrif þarna.

Hlutverk Kína
Ókey. Bandaríkjamenn og mörg önnur vestræn ríki hafa verið að safna skuldum eins og enginn sé morgundagurinn undanfarin ár. En hver er þá að lána og þ.a.l. að fjármagna neysluna? Í raun eru það fyrirtæki út um allan heim sem hafa verið að kaupa þessi skuldabréf og er þetta því dreift út um allt. En meira vægi hafa þær þjóðir sem hafa verið að flytja út meira heldur en þeir flytja inn (eru þ.a.l. með viðskiptaafgang). Það er t.d. Kína sem hefur verið að flytja gríðarlega mikið út og notað andvirðið að miklu leyti til fjárfestinga erlendis. Þetta er að sjálfsögðu mun flóknara net, enda flæða verðbréf óhindrað út um allan heim í dag, en í grunninn er þetta það sem er að gerast. Kínverjar og fleiri ríki með viðskiptaafgang lána vesturlandabúum fyrir vörunum sem þeir framleiða fyrir okkur. Hægt er að stemma stigu við þessari þróun, m.a. með því að leyfa Kínverska Júaninu að fljóta. En Kínverjar hafa ekki viljað það enn sem komið er.

Afleiðingarnar
Á endanum gátu margir af fasteignaeigendum ekki staðið undir greiðslubyrgðinni og fasteignabólan byrjaði að springa, eins og ég var búinn að taka á í öðru bloggi. Afleiðing af þessu er að verðlítil lán sitja eftir í bönkum og fjármálastofnunum í BNA, og út um allan heim vegna skuldabréfavaafurðanna, sem seldar höfðu verið. Þegar eignir þínar (skuldabréf í þessu tilfelli) eru í raun mun minna virði en þú hélst og færðir í bækur eru orðnar meiri líkur á að þú lendir í vandræðum og farir á hausinn. Þetta er raunin sem hefur verið að líta dagsins ljós í auknum mæli sl. ár.

Bandaríkjastjórn hefur brugðist við með því að bjarga fáum útvöldum fjármálafyrirtækjum, sem eru of mikilvægar þjónustustofnanir við almenning til að þeir geti leyft þeim að fara á haustinn (Fannie Mae, Freddie Mac og AIG). Að auki er nú frumvarp fyrir þingi að Hið opinbera kaupi verðfallin skuldabréf á einhverju X verði. Þannig yrði til eins konar risastór ruslakista fyrir verðlítil skuldabréf. Kista þessi yrði kostuð af skattborgurum, og út á krít frá Kína, eins og áður hefur verið komið inn á. Það má segja að Bandaríska ríkið sé að leggja allt í sölurnar með þessari aðgerð og eru örlög bandarískra fyrirtækja og hins opinbera að miklu leyti samtvinnuð eftir þessar aðgerðir. Ekki er ólíklegt að lánshæfismatsfyrirtækin þurfi að lækka einkun sína á Bandaríska ríkið eftir þetta, enda hafa skuldir þeirra vaxtið gríðarlega við þetta. Vissulega liggja eignir á móti, en mikil óvissa er um raunverulegt verðgildi þeirra. Lægra lánshæfismat þýðir hærri vaxtakostnað fyrir þjóðina.

Skortsala
Best er fyrir hagkerfið ef verðbréf eru verðlögð sem næst raunverulegu virði þeirra á fjármálamörkuðum. Ef aðili sem á ekki hlutabréf en telur verð hlutabréfa of hátt þá getur hann beitt skortsölu til að hagnast á stöðunni og stuðlað að réttu verði á ný. Þá eru bréf fengin að láni, þau seld á markaði og keypt aftur á ákveðnum degi í framtíðinni og skilað til þess sem lánar bréfin. Skortsalinn hefur þ.a.l. hagnast ef verðið hefur lækkað í millitíðinni. Sá sem lánar fær greiðslu frá skortsalanum fyrir lánið á bréfunum. Það að banna skortsölu, eins og gert var í lok vikunnar (í BNA og Bretlandi), er til þess fallið að útiloka skoðanir þeirra sem standa utan við markaðinn og álíta hlutabréfaverð of hátt. Niðurstaðan verður hærra hlutabréfaverð heldur en fyrirtækin og hagkerfið stendur undir. Til lengri tíma litið hins vegar mun alltaf verða verðleiðrétting þar sem verðbréf horfa aftur til raunvirði þeirra. Því miður hefur skortsala hefur ekki verið stunduð hér á landi að neinu marki, en lífeyrissjóðir gætu haft miklar tekjur af verðbréfalánum til skortsala. Enda eiga þeir mikið af bréfum sem ekki er ætlunin að selja í nánustu framtíð.

Stóra spurningin núna fyrir flest vestræn ríki er sú sama: Tekst okkur að auka útflutning og minnka innflutning, og snúa þannig viðskiptahallanum í viðskiptaafgang, án þess að of margir fari á hausinn. Takist þetta ætti verðbólgan að minnka og vextir geta lækkað.

Þær spurningar sem margar vestrænar ríkisstjórnir hafa verið að standa frammi fyrir er hvaða fyrirtækjum skal bjarga frá gjaldþroti og hverjum ekki. Glapræði væri að bjarga öllum frá gjaldþroti, þar sem það myndi hafa svipuð áhrif og Greenspan hafði með sínum vaxtalækkunum og fjárfestar myndu álíta að áhætta væri varla til. Sama rússíbanareiðin myndi því hefjast aftur á fjármálamörkuðum. Mikilvægt er að leyfa fólki og fyrirtækjum að bera ábyrgð á gjörðum sínum, fara á hausinn í friði og vera þannig ákveðin viðvörun áður en næsta uppsveifla hefst. Menn verða að axla ábyrgð, þó svo að þeir höfðu ekki víðsýni til að sjá vandamálin í tæka tíð til að bregðast við þeim. Verði öllum bjargað frá gjaldþroti af ríkinu eru einfaldlega auknar líkur á að vestrænt ríki geti ekki staðið í skilum, sem auðvitað hefði gríðarleg áhrif á viðkomandi ríki. Að maður minnist nú ekki á að það er í rauninni hinn almenni skattborgari sem borgar þegar fjármálastofnunum er bjargað með þessum hættti; skattborgarar eru að bera þá ábyrgð sem stjórnendur fjármálastofnana hefðu átt að bera vegna sóknar sinnar í bónusgrieðslur.

Hvað á að gera?
Ég hef það á tilfinninguni að almenningur á Íslandi tengi engan vegin á milli skilaboða sem gefin eru í fjölmiðlum og raunveruleikans. Þannig er oft bísnast yfir því að ekki sé hægt að fá lán í dag, akkúrat það sem fólk á ekki að reyna við núverandi aðstæður. Þá hefur verið vinsælt að kenna krónunni um allt saman. Vel getur verið að betra sé að hafa annan gjalmiðli, en það leysir ekki núverandi vanda að skipta krónunni út.

Hvað á fólk þá að gera?
Draga úr neyslu (ekki kaupa sér flatskjái, bíla, o.fl. drasl. Ekki nema menn eigi fyrir því og telja sig nauðsynlega þurfa).
Spara (bíða með að fjárfesta þangað til auðveldara er að fá lán, setja peningana á bankareikning eða peningamarkaðssjóði, þar sem er líka hægt að fá mjög góða vexti)
Vinna
Hlúa að andlegri heilsu (það er fleira í þessu lífi en peningar og botnlaus neysla. Spurning um að lesa heimspekirit eða sjálfshjálparbækur ef menn eru að fara yfirum af eirðarleysi).

Málið er nefninlega það að ef fyrirtæki og heimili landsins eru rekin sómasamlega þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af gjaldmiðlum, hlutabréfamörkuðum og gjaldþrotum. Alveg á sama hátt og við þurfum að hafa minni áhyggjur af heilsunni ef við hreyfum okkur og borðum skynsamlega.

Ég vona að einhverjir séu einhverju nær eftir að hafa lesið þessa langloku.

3 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Ég held reyndar að almenningur sé mikið að draga úr neyslu. Og það held ég sé ekki síður út af krepputalinu í fjölmiðlunum en hækkununum á afborgunum og öllu.

Til hamingju með þennan svaaakalega langa pistil, annars.

Sigurvin sagði...

Takk fyrir það.

Já, almenningur er farinn að draga úr neyslu. Bara vonandi að það verði nógu mikið til að dempa lendinguna. Veltur á hversu ofdekruð okkar kynslóð er.

Sigga Lára sagði...

Ég held bara að menn hljóti hvort sem er að verða búnir að kaupa allt. ;-)