mánudagur, 20. október 2008

Ábyrgð og fyrirgefning

Einkennilegt hvað menn hlaupast alltaf undan merkjum þegar kemur að því að lýsa yfir ábyrgð á hruninu sem við erum að upplifa. Það er eins og menn séu alveg logandi hræddir við afleiðingarnar ef þeir gangast undir minnstu ábyrgð í stjórnmálum yfirhöfuð. Hugsanlega hefur þetta fólk ekki fengið mikla fyrirgefningu í æsku frá móður sinni eftir prakkarastrikin.

Menn ættu nú að fara að átta sig. Það vita allir sem vilja hverjir bera ábyrgðina. Það eina sem þeir vinna með þessari þvermóðsku er að þeir eru vanhæfir til að byggja upp eftir hrunið, af því að engin mistök hafa verið viðurkennd. Ef engin mistök hafa verið gerð, er þá einhver ástæða til að breyta út af einhverju í regluverki fjármálamarkaða, peningamálastjórn, fjármálastjórn hins opinbera eða öðru sem við kemur þessu rugli?

Því segi ég að ef enginn gengst við ábyrgð á þessu þá hlýtur íslenska þjóðin að krefjast þingkosninga og það verður flóðbylgja nýs fólks inn í stjórnmálaflokkana sem hreinsar út gömlu gildin. Vel menntað fólk á sviði viðskipta- og hagfræði, sem er nýbúið að missa vinnuna úr bönkunum og upplifði afleiðingar mistakanna frá fyrstu hendi, í stað gamalla íþróttakennara og skottulækna sem hafa verið allt of lengi við stjórnvölinn. Þetta getur gerst að því gefnu að fólk er ekki orðið of samdauna sjónvarpsdagskránni og aðgerðarleysinu sem mín kynslóð ólst upp við. Sem er reyndar líklegt.

Ef hins vegar þeir hinir ábyrgu taka við sér og gangast við ábyrgðinni þá treysti ég engum betur til að byggja upp eftir þetta heldur en þessu sama fólki. Það hlýtur að vera af vilja gert til að bæta fyrir mistök sín, enda hefur það hlotið fyrirgefningu þjóðarinnar fyrir, eitthvað sem jafnvel móðirinn gat einhverra hluta ekki veitt. Það hlýtur að vera einhvers virði.

Og þetta tal um að það verði tími síðar til að finna sökudólgana eru náttúrulega bara dylgjur. Þetta tekur ekki nema nokkrar sekúndur í sjónvarpi (eða með sjálfum sér, fyrir þá sem eru ekki það hátt settir) og þá geta viðkomandi farið að einbeita sér að uppbyggingunni með góðri samvisku.

Það er engin skömm að því að viðurkenna mistök eða skipta um skoðun. Það veit fólk sem stefnir einlæglega að því að bæta samfélagið, sama hvað eigin stolti líður.

Engin ummæli: