föstudagur, 27. júní 2008

Endalokin nálgast!

Jæja, þá er farið að líða að lokum dvalar okkar hérna í Lundúnaborg. Brottför verður á mánudagskvöld og skil á íbúðinni um morgun sama dags. Óþarfi að vera að borga okurleiguna mikið lengur.

Annars fékk ég einkannir annarrar annar í vikunni. Náði öllu, sem er mikill léttir. Reyndar var það fag sem ég var hræddastur við að falla í það besta hjá mér. Á sama tíma fékk ég falleinkunn í faginu sem ég var hvað öruggastur með mig í, en góð einkunn fyrir verkefni annarinnar bjargaði mér þar. Hef sterkan grun um að kennarinn hafi ekki skilið skriftina mína. Töluvert fall var í bekknum í áðurnefndu áhyggjufagi, þannig að maður getur verið mjög sáttur við niðurstöðuna í heildina.

Rétt eftir að ég var búinn að fá einkannirnar fór ég í lokapróf í Fixed Income Arbitrage and Trading (Hagnanir og viðskipti með skuldabréf). Gekk bara ágætlega þar. Allavega er ég viss um að ég nái. Þar með ætti gráðan að vera í höfn. Allavega yrði ég mjög hissa ef ég fengi falleinkunn í einhverju af því sem eftir er.

Eitt verkefni er þó óklárað. MATLAB forritunarverkefni sem ég hef setið sveittur við stanslaust síðan eftir prófið í vikunni og er kominn með rassæri af. Það ætti þó að klárast á morgun. Vinn það með gæja með margra ára forritunarreynslu, þannig að útkoman stefnir í að vera í góðu lagi.

Lítið nýtt að frétta af vinnumálum. Fæ að vita með starfið hérna úti um miðjan júlí og ekki hefur verið svo mikið sem litið við mér á Íslandi. Skítt með það, verð í fríi í júlí og nenni ekki að spá of mikið í þessu á meðan.

Góðar stundir.

föstudagur, 20. júní 2008

Piss

Oft er talað um að pissa í skóinn sinn. Sjaldgæfara er að menn tali um að pissa í annarra skó. Ég get þó ekki séð nema að vænni hlandslettu hafi verið dembt í skó Dabba og félaga í Seðlabankanum af ríkisstjórninni þegar hún ákvað breytingar á Íbúðalánasjóði til þess að auðvelda aðgengi að fjármagni til íbúðakaupa í vikunni. Verðbólgan minnkar allavega ekki mikið við þetta. Ef ríkisstjórninn heldur áfram að vinna gegn verðbólgunni af jafn mikilli áræðni og dug og þessi aðgerð ber vott um fara stýrivextir örugglega ekki í nema 20% áður en hægja fer á.

Fór annars í annað viðtalið hjá Mondrian í morgun. Gekk þokkalega og er svona hæfilega bjartsýnn á að ég fái tilboð frá þeim. En miði er alltaf möguleiki. Svo eru alltaf aðrir fiskar í sjónum.

Kláraði svo eftir viðtalið verkefni annarinnar í "Energy and Weather derivatives" (Orku- og Veðurafleiður). Held að það sé mjög gott stykki og að við ættum að fá fína einkunn fyrir það.

Búinn að fá nokkrar einkannir undanfarið, sem ég hef gleymt að segja frá. Þær eru allar með ágætum og ljóst að ég búinn að ná einum áfanga á síðustu önn (Numerical Methods). Einkannir úr lokaprófum annarrar annar koma svo væntanlega í næstu viku (puttar krossaðir).

þriðjudagur, 17. júní 2008

Sumarpartý, viðtal, o.fl.

Við Bjarkey fórum í sumarpartí hjá skólanum í gær. Ætluðum nú ekki að lengi þar sem annir eru miklar þessa dagana. Það endaði á annan veg og við vorum ekki að skríða heim fyrr an um kl. hálfþrjú í nótt. Gerist á bestu bæjum, sérstaklega þegar fólk er í svona miklu stuði og frítt áfengi er í boði. En það var bara helv. gaman. Flestallir bekkjarfélagarnir mættu og mikil stemming, mikið af myndum teknar og mikið drukkið og spjallað. Ekki laust við að þynnka hafi því gert við sig á þjóðhátíðardaginn, sem hefur reyndar gerst nokkrum sinnum áður eftir 16. júní böll í Valaskjálf, þegar það var upp á sitt besta.

Annars er það að frétta að ég fékk annað viðtal hjá Mondrian, sem verður á föstudaginn. Skilst að það séu einhverjir 3-4 aðrir umsækjendur eftir, þannig að það virðist vera einhver möguleiki þarna. Starfið snýst um að aðstoða við stýringu á nýjum sjóði hjá þeim og sjá svo um sölu á honum til vogunarsjóða og annarra fjárfesta, sem flestir væru staðsettir í BNA. Þannig að um mikið af ferðalögum væri að ræða. Væri mjög góð reynsla, ef af yrði. En þetta kemur allt í ljós.

Fyrir utan þetta er maður bara að fókusa 100% á lokapróf "Fixed Income Arbitrage and Trading", sem verður á þriðjudaginn í næstu viku. Auk þess sem maður þarf að afgreiða eitt verkefnu í vikunni, sem er nánast fullfrágengið. Þannig að það er í nógu að snúast eins og venjulega.

sunnudagur, 8. júní 2008

Fréttir

Best að maður reyni að segja frá því hvað hefur verið að gerast hjá manni undanfarið (Þó svo að vangavelturnar séu nú óneitanlega skemmtilegri:)

Það var fótboltamót í skólanum á föstudaginn, þar sem ég og samnemendur mínir riðum enn rýrari hesti en frá síðasta móti í haust. Hvað um það, þetta var ágætis skemmtun og síðan var skroppið á pöbbinn í kjölfarið, þar sem verðlaunaafhendingin fór fram. Ég var reyndar ekki lengi þar sem maður var svolítið lúinn eftir vikuna. En það var heill kúrs keyrður í gegn í vikunni kl. 9 til 12 alla daga (rétt, ég er í námsmannagírnum og hef því verið að snúa sólahringnum í samræmi við líkamsklukkuna, ekki samfélagsklukkuna). Auk þess var ég tiltölulega nýbúinn að taka vel á því í "afmælispartíinu" mínu 19. maí, ásamt bekkjarfélögunum. Því var þörfin fyrir stífa drykkju er ekki orðin mikil að nýju.

En allavega, það fer að líða að lokum þessa náms. Þetta hefur liðið ótrúlega hratt og maður trúir því varla að maður hafi verið hérna í 9 mánuði. Þó er einn sprettur eftir enn og ég reikna ekki með að hann verði auðveldur, frekar en aðrir, sem sumir hafa verið nálægt því að ganga frá manni. Þangað til 30. júní, þarf ég semsagt að skila 4 hópverkefnum og taka eitt lokapróf, sem verður af erfiðari gerðinni.

En það er búið að plana heimförina. Flogið verður úr heimsborginni þann 30. júní og verður væntanlega notaður einn dagur fyrir sunnan í að skoða bíl og dóla með frúnni og tengdaforeldrunum, sem verða samferða okkur á klakann eftir verslunarferð hérna úti. Ég kem svo væntanlega austur í afslöppun og endurhæfingu 1. eða 2. júlí.

Af atvinnumálum er hinsvegar það að frétta að frúin er komin með vinnu hjá Ríkisendurskoðun fyrir sunnan. Ég hef verið að sækja um eitt og eitt starf fyrir sunnan og líka verið að leita fyrir mér hérna útifyrir. Lítið hefur gengið, enda ekkert nema uppsagnir og lítið verið að ráða á fjármálamörkuðum. Er þó að fara í viðtal á þriðjudaginn hérna í London hjá Mondrian sem "quant analyst", þannig að það er þó einhver von enn. En þó maður verði ekki kominn með vinnu í sumar þá er ég nú viss um að maður detti niður á eitthvað á endanum. Það er alltaf eitthvað að gera fyrir dugandi menn ;)

Annað var ekki í fréttum.