sunnudagur, 8. júní 2008

Fréttir

Best að maður reyni að segja frá því hvað hefur verið að gerast hjá manni undanfarið (Þó svo að vangavelturnar séu nú óneitanlega skemmtilegri:)

Það var fótboltamót í skólanum á föstudaginn, þar sem ég og samnemendur mínir riðum enn rýrari hesti en frá síðasta móti í haust. Hvað um það, þetta var ágætis skemmtun og síðan var skroppið á pöbbinn í kjölfarið, þar sem verðlaunaafhendingin fór fram. Ég var reyndar ekki lengi þar sem maður var svolítið lúinn eftir vikuna. En það var heill kúrs keyrður í gegn í vikunni kl. 9 til 12 alla daga (rétt, ég er í námsmannagírnum og hef því verið að snúa sólahringnum í samræmi við líkamsklukkuna, ekki samfélagsklukkuna). Auk þess var ég tiltölulega nýbúinn að taka vel á því í "afmælispartíinu" mínu 19. maí, ásamt bekkjarfélögunum. Því var þörfin fyrir stífa drykkju er ekki orðin mikil að nýju.

En allavega, það fer að líða að lokum þessa náms. Þetta hefur liðið ótrúlega hratt og maður trúir því varla að maður hafi verið hérna í 9 mánuði. Þó er einn sprettur eftir enn og ég reikna ekki með að hann verði auðveldur, frekar en aðrir, sem sumir hafa verið nálægt því að ganga frá manni. Þangað til 30. júní, þarf ég semsagt að skila 4 hópverkefnum og taka eitt lokapróf, sem verður af erfiðari gerðinni.

En það er búið að plana heimförina. Flogið verður úr heimsborginni þann 30. júní og verður væntanlega notaður einn dagur fyrir sunnan í að skoða bíl og dóla með frúnni og tengdaforeldrunum, sem verða samferða okkur á klakann eftir verslunarferð hérna úti. Ég kem svo væntanlega austur í afslöppun og endurhæfingu 1. eða 2. júlí.

Af atvinnumálum er hinsvegar það að frétta að frúin er komin með vinnu hjá Ríkisendurskoðun fyrir sunnan. Ég hef verið að sækja um eitt og eitt starf fyrir sunnan og líka verið að leita fyrir mér hérna útifyrir. Lítið hefur gengið, enda ekkert nema uppsagnir og lítið verið að ráða á fjármálamörkuðum. Er þó að fara í viðtal á þriðjudaginn hérna í London hjá Mondrian sem "quant analyst", þannig að það er þó einhver von enn. En þó maður verði ekki kominn með vinnu í sumar þá er ég nú viss um að maður detti niður á eitthvað á endanum. Það er alltaf eitthvað að gera fyrir dugandi menn ;)

Annað var ekki í fréttum.

Engin ummæli: