mánudagur, 13. október 2008

Frá sparifjáreigendum til skuldara

Þegar verðbólgan var hvað mest hérna fyrir langalöngu og áður en verðtryggingin kom til olli verðbólgan því að lán rýrnuðu og sparnaður "brann upp". Þannig að skuldarar græddu og sparifjáreigendur töpuðu. Þetta var þvert á markmið hins opinbera að hvetja til sparnaðar.

Í dag eru svipaðir hlutir að gerast, bara með öðrum hætti. Ríkisstjórnin er búin að gefa það út að þeir sem lenda í erfiðleikum með afborganir af húsnæðislánum verður hjálpað m.a. með því að láta Íbúðalánasjóð kaupa skuldirnar af bönkunum, lán fryst o.fl. Hvað upplifa sparifjáreigendur á sama tíma? Eignirnar brenna upp, hvort sem þær voru í lífeyrissjóðum, einstökum hlutabréfum eða í verðbréfasjóðum bankanna (nota bene, jafnvel þótt þær væru í fyrirfram tiltölulega eða mjög öruggum sjóðum).

Þannig að í krísuástandi virðist vera sem það sé eftirsóknarverðara að skulda heldur en að eiga, sama hverju stjórnmálum líður. Þannig myndi samvisku- og ábyrgðarlaus einstaklingur með mjög gott taugakerfi og þessa vitneskju sennilega bara steypa sér í skuldir og bíða eftir að hlutirnir reddist, eins og íslendinga er háttur. Ganga á stofnanir og biðja um aðstoð á grundvelli fávisku, líkt og margir lántakendur í erlendum gjaldmiðlum gera sér far um þessa dagana. Þannig myndi þessi einstaklingur hámarka efnisleg gæði sín á lífsleiðinni.

Væri nú ekki æskilegt að breyta þessu áður en næsta krísa dynur yfir? Hvort sem það verður eftir 50 eða 100 ár. Lykilatriði í þessum efnum er að koma fólki í skilning um grundvallaratriði í peningamálum. Þetta væri hægt að gera á skólastigi, eða bara í gegnum netið, þar sem öllum landsmönnum væri gert skylt að taka próf í fjármálum áður en þeim yrði gert kleift að kaupa íbúð eða bíl. Það er mjög auðvelt að framkvæma það með hjálp nútíma tölvutækni. Hugsanlegt væri líka að veita fólki ekki fjárræði fyrr en próf í fjármálum hefur verið staðið, alveg eins og fólki er ekki hleypt á bíl án bílprófs. Fólk sem skuldar ber samfélagslega ábyrgð. Það er skattfé samviskusamra og ábyrgra þegna íslands sem fer í að draga þetta fólk upp úr skítahaugnum sem það hefur mokað sig í undanfarin ár. Og það mun taka áraraðir í tilfelli íslendinga í dag.

Ef við gerðum fólk vitsmunalega ábyrgt fyrir gjörðum sínum með því að fræða það þá þurfa sparifjáreigendur ekki að skaðast eins mikið í krísum sem þessari í framtíðinni. Þeim örfáu óábyrgu aðilum sem rasa um ráð fram yrði leyft að fara á hausinn í friði, eins og drukkinn ökumaður sem er sviftur ökuskýrteininu, enda hefðu þeir stefnt jafnvægi í efnahagsmálum í voða.

2 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Senda alla á námskeið hjá Ingólfi í spara.is, eins og ég var á í gær. Mikill snillingur sem kennir mönnum þá einföldu staðreynd að neyslulán skyldu aldrei þrífast, og helst bara engin lán yfir höfuð og maður á ekki að eyða peningum sem maður á ekki. Hins vegar er ekkert mál að búa sér til þokkalegustu sjóði með smá útsjónarsemi.

Sigurvin sagði...

Já, þú mátt endilega fræða mig nánar um hans boðskap einhverntíma. Hann hefur aldeilis náð útbreiðslu hjá þjóðinni. Sem er vel.