laugardagur, 22. nóvember 2008

Eftirátryggingar

Magnað hvað maðurinn getur verið sjónlaus á hættur sem fylgja breytingum í umhverfinu á sama tíma og hann fórnar hverju sem er til að forðast endurtekningu á hamförum fortíðar.

Þetta má til dæmis merkja af:
1. Snjóflóðavarnargörðunum sem byggðir voru eftir flóðin á Vestfjörðum ´95.
2. Viðvaranarkerfið sem sett var upp eftir flóðin í Indlandshafi 2004.
3. Hugmyndir manna um að ganga í EB núna eftir fjármálakrísuna.

Af hverju var ekki búið að grípa til varúðarráðstafana áður en áföllin dundu yfir? Var enginn búinn að sjá hættuna af ofangreindum atburðum? Allavega voru þeir til sem vissu af möguleikanum af fjármálakrísunni. Á sama hátt er ég 100% viss um að þeir voru til sem vöruðu við hinum tveimur atburðunum. Af hverju ætli að það sé ekki hlustað á þessa menn? Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir:
1. Þetta er fólk sem eyðir tíma sínum í rannsóknir og er því ekki í eins miklum tengslum við valdamenn og þeir sem vinna jafnvel við að "networka".
2. Þar sem þetta fólk tilheyrir ekki stjórnmálaöflum komast viðlagaáætlanirnar ekki í stefnuskrár og fjárlög.
3. Þetta fólk er oft álitið bölsýnisfólk, sem er leiðinlegt að umgangast, þessvegna er best að hlusta ekki á það, forðast það og halda því utan við umræðuna. Þá líður öllum betur í ábyrgðarleysi sínu, geta notað fávisku sína til að verjast gagnrýni í framtíðinni og haldið áfram að byggja hús sín á sandi.
4. Það er miklu vinsælla meðal almúgans að vera jákvæður og byggja opp heldur en að vera fyrirhygginn og bregðast við mögulegum atburðum sem hafa aldrei gerst.

Nauðsynlegt er að þetta fólk fái meiri athygli í umræðunni og hjá stjórnmálamönnum í framtíðinni. Þá fara ráðstafanir okkar vonandi að bjarga einhverju, í stað þess að vera minnisvarðar um andvaraleysi og skort á fyrirhyggju. Það hefur varla fallið snjókorn á Íslandi frá snjóflóðunum á Vestfjörðum, spennan í jarðskorpunni á Indlandshafi minnkaði til muna með skjálftanum 2004, svo ekki eru líkur á viðlíka skjálfta næstu áratugina. Önnur eins fjármálakrísa og við eigum eftir að upplifa mun sennilega ekki sjást aftur á þessari öld.

Hins vegar er nóg af öðrum ógnunum sem þarf að fara að horfa til.
Sem dæmi má nefna Las Palma, sem er spænsk eldfjallaeyja úti fyrir ströndum Afríku. Næst þegar hún gýs eru góðar líkur á að stór hluti hennar hrynji í sjó og myndi 100 metra háa öldu, sem myndi skella á ströndum hafa svívirðilegar afleiðingar. Hægt er að lesa um þetta hér. Þetta hefur mjög lítið verið rætt, þrátt fyrir að svo virðist sem um gríðarlega ógn sé að ræða.

Svo eru það náttúrulega allar þær ógnir vegna veðurfarslegra breytinga. Læt eiga sig að endurtaka það allt. Hefur allt komið fram í fjölmiðlum.

Allavega, ég held að það sé kominn tími til að stjórnmálamenn láti þessi mál sig varða og hætta þessari sífelldu eftirámúgsefjun, sem hefur viðgengist síðustu áratugi, að því er virðist. Tryggjum fyrirá! ;)