miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Fátt er svo með öllu illt

Þó að fjármálakrísan eigi eftir að reyna á þolrif margra og setja jafnvel á hausinn er klárt að hún mun örugglega einnig hafa jákvæð áhrif til lengri tíma. Ég trúi því allavega að til þess að mannkynið geti haldið áfram för sinni til betra samfélags verði annars lagið að stíga skref afturábak tímabundið áður en áfram er haldið. Ég held að eftirfarandi geti gerst á næstu árum:

Samhygð á eftir að aukast nú þegar þrengir að, sem kemur í stað eiginhagsmunapotsins áður. Fólk mun því læra meira hvert af öðru og þroskast sem einstaklingar.

Meiri tími verður til þess að huga að því mikilvæga í lífinu, í stað þess að vera alltaf að rembast við að klára verkefnastaflann fyrir tilsettan tíma.

Atvinnuleysi eykst til skemmri tíma, en svo vænti ég að verkefnaálagi verði dreift á atvinnulausa og þeir þannig virkjaðir. Þetta gæti t.d. gerst með styttingu vinnuskyldunnar, t.d. í 7 tíma á dag. Enn meiri tími í það sem skiptir raunverulega máli.

Fókusinn hjá fólkinu verður ekki lengur á lífsgæðakapphlaupið, heldur á það sem raunverulega skiptir máli; að hámarka hamingjuna.

Nú þegar kreppir að mun fólk huga betur að því að nýta allt sem best. Þetta dregur úr sóun og hægir á eyðingu náttúruauðlinda.

Neyðin kennir naktri konu að spinna. Tækniþróun gerist í stökkum. Ekki er ólíklegt að tekin verði stór skref í tækniþróun í náinni framtíð, þar sem oft virðist sem snilldin fæðist við kröpp kjör. Ekki ólíklegt að þessi þróun verði á sviði orkugjafa.

Í krísuástandi fæðast leiðtogar. Væntanlega hefur áhugi manna á pólitík vaxið mjög núna á síðustu vikum. Það má alveg búast við að við fáum notið ávaxtanna af því næstu áratugina.

Fólk verður víðsýnna. Gengur ekki að heiminum sem vísum eða að hægt sé að framlengja fortíðina inn í framtíðina. Heimurinn er flóknari en svo. Samfélagið verður því raunsærra og skemmtilegra.

Þetta er allavega það sem mér dettur í hug svona í fljótu bragði. Örugglega er þó margt fleira sem mætti tiltaka í þessum efnum.

4 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Já, alltsaman mjög satt og rétt.

Svo er maður farin að heyra svo mörg falleg orð, sem hafa þótt einstaklega ókúl árum saman. Eins og samhygð, samkennd og öll hin sam- orðin.

Ég hlakka til þegar einhver segir "manngildi."

Sigurvin sagði...

Jám, fólk annaðhvort að verða ofbeldishneigt eða væmið.

Erum á hraðri leið í að breytast í bandaríkjamenn ;)

Sigga Lára sagði...

Hih. Annars var ég að átta mig á því að allt það besta og snjallasta sem mannkynið hefur gert hefur líklega þróast uppúr almennilegri og rækilegri fátækt. Sennilega líka allt það versta.
Spennandi tímar...

Sigurvin sagði...

Nákvæmlega. Þeir sem ekki brotna á erfiðleikatímum eru sennilega mun betur mótíveraðir heldur en á góðæristímum. Þá veltur það væntanlega á því hvernig þeir eru innréttaðir hvort þeir vinni til góðs eða ills.