mánudagur, 3. nóvember 2008

Vegna fjölda áskorana

Kemur hér blogg um verðbólgu og vexti.

Verðbólga er í rauninni bara þegar fólk er að reyna að nota of marga peninga til að kaupa of fáar vörur. Þegar allir eru í jollí fíling að taka lán á milljón til að eyða í vitleysu hækkar verð og þá er verðbólga. Þetta hefur verið raunin sl. 5 ár allavega á Íslandi. Síðan verður líka verðbólga ef ekki eru til nógu mikið af vörum til að selja fólki (t.d. þegar Dabbi kóngur leyfir ekki innflutning á öðru en því sem honum finnst nauðsynlegt). Í báðum tilfellum hækkar verð á vörum, og verðtryggð lán hækka í takt (sem lántakendum finnst ömurlegt), sem og verðtryggðar innistæður (sem eigendum þeirra finnst æðislegt). Í dag eru sumir lántakendur í hættunni á að fara á hausinn, þannig að eðlilega hafa kvartanir þeirra heyrist hærra en gleðihróp síðarnefnda hópsins.

Fræðilega séð eiga vextir að slá á verðbólgu. Þetta er af því að háir vextir valda auknum útgjöldum skuldara (sem eru mun fleiri en fjármagnseigendur), þannig að þeir hafa minna á milli handanna til að eyða í drasl. Hence, færri krónur að eltast við sömu vörur og þ.a.l. minni verðbólga. Þetta hefur hins vegar ekki virkað undanfarin ár, út af því að:

1. Meirihluta almennings hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
2. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama á hvaða vöxtum lánin eru.
3. Sumu fólki er nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðli lánið er.
4. Bönkunum hefur verið nákvæmlega sama í hvaða gjaldmiðlum lánin eru.

Þess vegna hafa bankarnir bara lánað meira og meira til fólks í allskonar gjaldmiðlum(fleiri peningar að eltast við sömu vörurnar), sem hefur yfirunnið áhrif hærri vaxta.

Svo gæti ég líka skrifað langan og leiðinlegan texta um að stýrivextir virki illa á Íslandi vegna þess að meirihluti lána eru verðtryggð, en ég nenni því ekki núna. Þetta samband ætti að virka hvort sem er til lengri tíma litið.

Hins vegar er staðan núna þannig að hálf þjóðin er að fara á hausinn. Sem þýðir miklu minna af peningum verður fyrir hendi í fyrirsjáanlegri framtíð til að eltast við vörur = minni verðbólga. Þó gæti líka orðið miklu minna af vörum fyrir hendi = meiri verðbólga. Það er því mikil óvissa framundan. Ég treysti mér þó til að spá fyrir um eitt: Fasteignaverð lækkar. IMF er að reyna að halda þessum fáu peningum sem eftir eru í landinu hérna með því að hækka vexti. Hliðaráhrifin eru hins vegar þau að fleiri fara á hausinn, og fyrr, en ella.

Ekki bara óvissa hvað varðar þróun í efnahagslífinu. Ég held að þjóðfélagið eigi eftir að taka stakkaskiptum. Yfirborðsleg bjartsýni undanfarinna ára mun víkja fyrir raunsæi, vonandi þó ekki svartsýni. Þetta verður mikill skellur fyrir mest skuldsettu skýjaglópana. Þetta verður "make or break" fyrir íslensku þjóðina næstu mánuði og ár. Það besta sem ég held að hægt sé að gera er að hætta að "vona" hitt og þetta (sbr. ráðamenn), sætta sig við stöðuna eins og hún er og það versta sem gæti gerst (ef menn hugsa þetta til enda er þetta ekki það slæmt). Ef fólk nær þessu fram á það mun auðveldara með að byggja sig og sína upp eftir áfallið.

Vona að þetta hafi verið skiljanlegt :)

10 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Þannig að: Vaxtahækkanir eru sumsé Seðlabankinn að ræna landsmenn í formi vaxtaálagningar til þess að fólk eyði ekki peningunum sem það á ekki í eitthvað annað. Eins og tildæmis nauðsynjavöru.

Hvaða djöfuls fokk?!?!

Ég er sammála um hugarfarsbreytinguna og held að hún sé alfarið af því góða. Er samt í fýlu yfir að þurfa að borga vitleysuna. Eins gott að ég fái vinnu og almennileg laun að námi loknu og að farið verði í finnsku leiðina alveg á milljón. Annars er ég farin í kjölfar vesturfaranna.

Sigurvin sagði...

Mja, það er reyndar ekki svo einfalt. Fólk á líka sparifé. Það vex hraðar þegar vextir hækka. Staðreyndin er bara sú að það eru miklu fleiri sem skulda meira en þeir eiga (þ.e. í peningum). Þess vegna er umræðan þannig að þetta sé að sliga þjóðina. Hins vegar var það alltaf fólkið sjálft sem ákvað á endanum að taka þessi lán, sama fyrir hverju það var (þó að bankarnir hafi líka prangað þessu inn á fólk).

Ég er nú ekkert sáttur við að þurfa að hirða upp skítinn heldur. En það er líka hægt að líta á þetta sem gríðarlega áskorun fyrir þjóðina, sem maður ætlar að taka þátt í. Svo gæti orðið fróðlegt að fylgjast með þróuninni utanfrá, svona sem áhugamaður um mannlegt eðli og samfélag manna :)

Sigríður Lára sagði...

Sparifé? Ég er líklega ein sparsamasta manneskja landsins. Enda á ég um 600.000 kall. En skulda um 24 milljónir, síðast þegar ég gáði. Tengdamamma mín er líka mjög sparsöm. En tapaði einum þriðja af sparnaðnum sínum í hruninu. Af því hann var í einhverjum sjóði sem "allir" sögðu að væri svo "sniðugur".

En, jæja. Peningar smeningar. Ég er svosem ekkert að farast úr því að telja krónurnar og færi létt með að standa af mér þetta ástand. Og finnst það í sjálfu sér mjög spennandi. Og finnst ekkert að því að borga hærri skatta og þarframeftir til að hægt sé að aðstoða venjulegt fólk sem á varla í sig.

En mér finnst við aðallega vera að fara að borga einkaþotu Bjólfanna og snekkjuna hans Jóns Ásgeirs. Og Kaupþingshöllina í Borgartúninu. Það voru nefnilega fyrst bankarnir sem ákváðu að taka erlend lán. Til að eyða í vitleysu. Og vitleysislán til að pranga inn á fólk. Og stela svo sparnaðnum í einhverja sjóði sem eru síðan bara týndir og tómir.

Ég held það sé löngu kominn tími til að finna sökudólgana og draga þá fyrir dóm. Því lengur sem er beðið með það er líklegra að sveltandi skríllinn taki málin í sínar hendur og þá er nú vissara að menn séu með marga lífverði og haldi sig helst í útlöndum. Það þarf ekki miklar rannsóknir í mannlegri eðlisfræði til að spá fyrir um það.

Sigurvin sagði...

Að sjálfsögðu eigum við að draga menn til ábyrgðar. Ég vil hins vegar meina að vítaverðu gáleisi ábyrgðarmanna innan fjármálastofnana og hins opinbera sé um að kenna. En ekki meðvitaðri misnotkun fámenns hóps innan fjármálastofnananna á aðstöðu sinni, sbr. umræðuna undanfarið. Að taka bara fyrir toppana í bönkunum væri eins og að hengja bakara fyrir smið. Það er regluverk hér sem á að fylgjast með og koma í veg fyrir að svona hlutir komi fyrir.

Okkar kynslóð er agalaus og þröngsýn, Siggalára. Þess vegna var hún auðveld bráð markaðssnillinganna í bönkunum sem sögðu eitt en svo skrifaði fólkið undir annað í græðgi sinni. Ég hef horft upp á þetta alla mína æfi án þess að skilja og margsinnis tekið rökræður við almenna borgara (jafnvel hagfræðimenntaða) um fasteignaverð sem á bara að geta hækkað, "örugg" erlend lán og margt fleira sem fólk lét plata sig í. Þessu var aldrei viðbjargandi. Allt of margir í þessu þjóðfélagi nenntu ekki að skilja hvernig hlutirnir virka og voru staðráðnir í að skuldsetja sig í topp fyrir því sem þeim langaði í og það strax. Þetta fólk ber líka ábyrgð.

Ég tapaði líka nokkrum 100.000 köllum á hruninu. Og á eftir að tapa meiru. En það er búið og gert. Ég var meðvitaður um áhættuna sem ég tók og ég ber skaðann. Ég veit vel að ég þarf að bera meiri skattabirgðar í framtíðinni. En ég get alveg sætt mig við það, þar sem heimurinn sem ég skildi aldrei almennilega hvernig gæti gengið er hruninn og við erum komin aftur í raunveruleikann þar sem þarf að hafa fyrir hlutunum.

Það væri mjög hollt ef "skríllinn" tæki til hendinni. Of lengi hefur sófakynslóðin lifað með lokuð augun. Við myndum enda uppi með heilbrigðara þjóðfélag á endanum, þótt síðar yrði.

Sigga Lára sagði...

Bíddu við? Á "skríllinn" að taka skellinn frekar en bankatopparnir? Er fávísi bankastjórnenda og útrásargemlinga afsakanlegri heldur en grandaleysi sófaliðsins?
Hættu nú alveg.

Þú gleymir því að fullt af fólki er í meðalgreind og neðar og hafði engar forsendur til að sjá í gegnum þá sem lögðu á sig mikið erfiði við lygavefinn sem spunninn var í kringum þetta allt saman. Bæði ég og þú erum í sæmilegum málum. Það er ekki tilviljun. Við vorum menntuð í undirstöðuatriðum hagkerfisfræði við eldhúsborðið heima hjá okkur strax í frumbernsku. Bara þumalputtareglur eins og að maður tekur ekki lán að óþörfu eru okkur algjörlega í blóð bornar.

En fæstir eru svo heppnir.

Vinkona mín í Bandaríkjunum segir þetta vera allt afnámi Bush á regluverkinu í Wall Street að kenna. Mér finnst alltaf gaman að geta kennt Bush um eitthvað nýtt.

En ég hef áhyggjur af því að þetta komi harðast niður á þeim sem enga sök bera eins og niðurskurður í þjóðfélaginu gerir alltaf.

Sigurvin sagði...

Hætta nú alveg?!?!
Var ég að afsaka gjörðir bankamanna?
Ef ég minnist á ábyrgð sófakynslóðarinnar, er ég þá að segja að gjörðir hennar séu óafsakanlegri en stjórnenda bankanna? Ertu örugglega að lesa það sem ég skrifa?

Ég er bara að reyna að koma með hugmyndir að lausnum á ástandi sem er með því alvarlegra sem vestræn þjóð hefur staðið frammi fyrir á síðari árum. Það verður ekki gert með dómsúrskurðum, þó að nauðsynlegt sé að draga menn til ábyrgðar.

Topparnir í bönkunum eru flestir eignalausir, eftir þjóðnýtingu bankanna, þannig að þeir myndu ekki borga nemu lítið brot af brúsanum. Annars er ég viss um að þeir fyrrum stjórnendur bankanna sem eru aflögufærir muni leggja sitt að mörkum til að reisa kerfið við ótilneyddir.

Deregulation á fjármálamörkuðum í BNA var sett af stað árið 1999 með lagabreytingu þegar Glass-Steagall lögin voru afnumin, þannig að Clinton, ber nú sennilega jafnmikla ábyrgð á því og Bush, sem hefur bara viðhaldið stefnunni.

Sigga Lára sagði...

"Ég vil hins vegar meina að vítaverðu gáleysi ábyrgðarmanna innan fjármálastofnana og hins opinbera sé um að kenna. En ekki meðvitaðri misnotkun fámenns hóps innan fjármálastofnananna á aðstöðu sinni, sbr. umræðuna undanfarið. Að taka bara fyrir toppana í bönkunum væri eins og að hengja bakara fyrir smið."

Sem sagt, þeir eru hafðir fyrir rangri sök, eða hvað?

"Okkar kynslóð er agalaus og þröngsýn [...] auðveld bráð markaðssnillinganna í bönkunum sem sögðu eitt en svo skrifaði fólkið undir annað í græðgi sinni."

"...fasteignaverð sem á bara að geta hækkað, "örugg" erlend lán og margt fleira sem fólk lét plata sig í. Þessu var aldrei viðbjargandi. Allt of margir í þessu þjóðfélagi nenntu ekki að skilja hvernig hlutirnir virka og voru staðráðnir í að skuldsetja sig í topp... [...] Þetta fólk ber líka ábyrgð."

Ert þú örugglega að skrifa það sem þú vildir sagt hafa?

Þarna ásakar þú fólk sem ekki vissi betur um að LÁTA plata sig og um græðgi og leti,en dregur skýlaust taum þeirra sem lögðu á ráðin um svikamyllur falskra markaðssetninga til að plata fólk til að taka lán sem það réði ekki við.

Ég held þú sért að tala um tiltölulega fámennan hóp sem þó hefur látið mikið á sér bera undanfarin ár. Hinn almenni almenningur var ekki svona gráðugur og hélt að mestu að sér höndum í góðærinu.

Samskipti mín við fólk og það sem menn eru að skrifa endurspeglar tvennt. Annars vegar eru menn fegnir að góðæriskjaftæðið með þeirri auðhyggju og heimskulega vermætamati sem því fylgdi sé nú á enda. Hins vegar eru menn reiðir yfir því að ársframleiðslum undanfarinna og komandi ára hafi verið stolið. Þeir sem "létu plata sig" fá að gjalda þess nú með aleigunni og rúmlega það.

Þú hefur mikla trú á göfuglyndi þjófanna, þykir mér. Ég held að reikningarnir á Cayman-eyjum og Jersey tæmist ekkert í þágu þjóðarskútunnar að frumkvæði eigendanna.

Sigurvin sagði...

Hm... Þetta er greinilega bara einhver misskilningur okkar á milli. Ég er alveg sammála þér að stjórnendur bankanna bera ríka ábyrgð í þessu máli, sem og ráðamenn þjóðarinnar sem virðast hafa sofið á verðinum. Ég vil hins vegar ekki meina að þessir aðilar hafi verið meðvitaðir um þá hættu sem þeir voru að leggja þjóðina í. Þarna er sennilega okkar helsta ágreiningsefni. En ég er sammála því að þessir aðilar beri ríka ábyrgð.

Þar sem mér fannst nóg hafi verið rætt og ritað um þátt þessara aðila í krísunni fannst mér þörf á að benda á þátt almennings. Það þarf nefninlega allt að leggjast á eitt til að skapa ástand sem það sem við sjáum í dag. Þess vegna gerði ég ofangreint að umræðuefni og ég stend við skoðun mína á þjóðarsálinni og villutrúnni sem hefur staðið yfir í allt of mörg ár. Það má svo deila um hvað þetta á við stóran hluta þjóðarinnar. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að fólk í kringum þig skuli vera svona skynsamt í fjármálum.

Ég er nú líka hálffeginn að góðærinu sé lokið, enda ól það á óraunsæi. Þetta mætti þó vera aðeins mýkri lending heldur en virðist stefna í.

En semsagt, mér sýnist við vera sammála um flest í þessu máli og um það sem við erum ekki sammála efast ég um að við verðum nokkurntíma sammála :) Kannski sem betur fer. Væri nú leiðinlegt ef allir yrðu allt í einu sammála um allt ;)

Sigga Lára sagði...

Já, ég get svo sem líka alveg verið sammála þér um það að ég held að enginn hafi gert sér grein fyrir því að svona hrun gæti átt sér stað. Ekki einu sinni topparnir, og í rauninni ekki ráðamenn heldur. Mig langaði frá upphafi góðæris að sjá fyrir endann á því, en hélt nú samt eiginlega að vitleysan ætti líklega eftir að lifa mig.

Ég held líka kannski að lögmál markaðarins eigi líka eftir að halda verðbólgunni niðri. Það á nefnilega enginn neina peninga svo menn verða að reyna að halda öllum verðum niðri til að selja eitthvað af einhverju. Ikke? Vaxtahækkanir geri því hvorki til eða frá, en allt innflutt hækkar af illri nauðsyn með gengishruninu.

Maður er nú bara að verða nokkuð sleipur í plebbaviðskiptafræði...

Sigurvin sagði...

Alveg sammála. Vextir munu ekki skipta neinu máli á næstunni, samanborið við mikilvægi þeirra ákvarðana sem blessaðir ráðamennirnir taka.