laugardagur, 8. desember 2007

Verðskuldaður dagur aflöppunar

Jæja, þá er verkefnavinnu annarinnar lokið. Öllum þremur var skutlað í skilahólfið 10 mínútum fyrir skilafrest kl. 16:00 í gær. Vorum þó með fyrri hópum til að skila. Gott að fólk nýtir tímann vel. Ég er bara þokkalega sáttur við afraksturinn, m.v. hópadráttinn. Reyndar voru aðilar sem voru óheppnari. Til dæmis félagi minn frá Egyptalandi, sem svaf ekkert í tvo sólahringa fyrir skilafrestinn og gerði í raun öll verkefnin sjálfur, þar sem hópfélagarnir voru nánast með öllu ónothæfir.

Um kvöldið var svo samkvæmi fyrir nemendur og starfsmenn nokkurra brauta skólans á "Home Bar", rétt hjá Cass. Var þar boðið upp á fríar veitingar og snittur. Þátttaka var ágætt, sérstaklega þegar horft er á hve menn þjáðust af svefnleysi eftir vikuna. Ölvun var eftir atvikum. Ég var þó skynsamur og tók síðustu lestina heim, kl. hálfeitt. Það breytti því hins vegar ekki að timburmenn voru yfir meðallagi í dag, enda er maður langt frá því að vera í einhverju drykkjuformi eftir törnina undanfarið.

Dagurinn fór því bara í svefn og leti þangað til núna rétt áðan að ég fór í smá hreingerningu á heimilinu, sem veitti ekki af eftir vanhirðu sl. mánaðar. Næst á dagskrá verður svo að skipuleggja upplestrarfríið svo ég hafi tíma til að skutla í mig steikinni og slíta utan af pökkunum á aðfangadag.

Annars er Bjarkey í bekkjarpartíi núna. Ég sá mér ekki fært að fara með vegna slappleika/leti, eftir gærkvöldið. Greinilegt að maður er ekki eins djammfýsinn eins og hérna í denn.

Engin ummæli: