mánudagur, 21. janúar 2008

Próflok og bjórlagning

Jæja, síðasta prófið gekk bara þokkalega á fimmtudaginn. Sérstaklega ef miðað er við upplitið á mörgum af samnemendum mínum eftir þetta. Prófið var í lengri kantinum og lítið um léttar spurningar, þannig að allir voru í tímapressu og flestir þurftu að sleppa spurningum. Þetta rétt slapp hins vegar hjá mér, þó svo að ekki hafi öll svörin verið jafn beisin.

Eftir prófið var svo skundað á galeiðuna, þar sem menn nutu spennufallsins og jusu úr skálum sínum, hvers kyns sem þær nú voru. Menn ílengtust mismikið og þeir síðustu voru að tínast af pöbbaröltinu um klukkan þrjú, sem þykir nú töluvert seint á londonískan mælikvarða. Vart þarf að taka fram að eini íslendingurinn var í þessum hópi.

Á föstudaginn var svo uppteknum hætti haldið, en þá kom hollendingurinn Húni fljúgandi í heimsókn til London. Var því stefnan tekin á sötur með honum og Sigga, félaga hans sem staddur var hér á námskeiði í London. Þróaðis sötrið með ágætum og áður en við vissum af vorum við búnir að torga medium-rare nautasteik á mann, prófa velflestar krárnar við Leicester square, háma í okkur skyndibita af óskilgreindum götusala á subbulegu götuhorni í miðborginni og klukkan orðin tvö.

Laugardagurinn var hins vegar rólegri þar sem við félagarnir kíktum bara á enskan pöbb þar sem við gátum glápt á boltann. Drukkum ekkert svo marga bjóra það kvöldið og var ég kominn heim um kl. 11.

Sunnudaginn tók ég svo snemma og fór í íslendingafótbolta kl. 11, sem hefur verið viðtekin venja hjá mér í vetur, þegar mæting hefur verið næg og ég haft tíma. Eins og vani er hjá þessum hópi kíktu menn á kránna eftir æfinguna. Ég stoppaði nú stutt við þar, enda orðinn hálfbjórleginn eftir síðustu 3 daga.

Þetta er í stuttu máli það sem á mína daga dreif í fríinu. Búið að vera ágætis afslöppun. Næsta önn byrjaði svo í dag og lítur út fyrir að maður verði að byrja þetta strax af krafti til að lenda ekki í vandræðum fljótlega.

Engin ummæli: