föstudagur, 25. janúar 2008

Start á önn 2

Önnur önnin fer bara ágætlega af stað. Við erum komin með þrjá nýja kennara. Tveir af þeim lofa góðu og sá þriðji er ekki alslæmur, frekar kærulaus samt, að því er virðist. Fyrsta vikan var þó nokkuð róleg, eins og vera ber. Hins vegar hefur verið nóg að gera að reyna að kynna sér stochastic calculus (ísl. þýðing fannst ekki), sem við þurfum fyrir fixed income (skuldabréfa) áfangann. Aðrir áfangar sem ég tek núna eru: Númerískar aðferðir og hagmælingar (áframhald frá síðustu önn) og svo er það Risk Analysis (Áhættugreining), sem ég held að gæti orðið mjög áhugaverður áfangi, eins og þeir allir reyndar.

Ég er kominn með verkefnahóp fyrir önnina, sem mér líst mjög vel á. Samanstendur hann auk mér af indverja/keníabúa/englendingi, sem ég vann með á síðustu önn og stóð sig langbest af samstarfsmönnunum, og ástrala, sem að mínu mati er einn sá klárasti í bekknum. Vænti því að verkefnavinna þessarar annar verði átakaminni en á síðustu önn. Þó hún verði að sjálfsögðu ekki létt.

Annars kom í ljós í dag, eftir að við Bjarkey vorum búin að snúa upp á flesta líkamsparta nánast allra starsmanna stúdentagarðanna í rúma viku, að það er ekki hægt að hreinsa loftstokkinn í íbúðinni okkar án þess að gera einhverjar meiriháttar ráðstafanir. En okkur grunar að þar leynist mygla, sem hafi verið að halda okkur meira og minna veikum frá því í haust. Virðist því vera að við höfum eftirfarandi kosti í stöðunni:
a. Lifa við þetta og hætta á hrun ónæmiskerfa,
b. Halda okkur að heiman eins og við getum til að sleppa við gerlana eða
c. Beita enn harðari aðgerðum í garð garðanna svo að þetta verði skoðað frekar.
Þrír slæmir kostir og bjálfalegt að þurfa að standa frammi fyrir svonalöguðu þegar maður borgar 90 þús. á mánuði fyrir þennan skáp og stendur í mastersnámi á sama tíma.

Já, svo fór ég í atvinnuviðtal í vikunni. Nýtt kompaní að nafni Phanero, sem er verið að setja af stað núna með vorinu. Staðan er "Quant Analyst", sem myndi aðallega fela í sér að fylgjast með og spá fyrir um þróun á flökti og fylgni á fjármálamörkuðum. Var mjög afslappað viðtal og í raun var þetta bara hugsað sem tækifæri fyrir umsækendur til að kynnast fyrirtækinu, og öfugt. Síðan verður bara að koma í ljós hvort manni verður boðið í annað viðtal, sem væntanlega yrði á faglegri grunni.

Annars stefnir í rólega helgi. Maður verður sennilega bara heima að læra. Reyni kannski að hlaupa í Regent´s Park á morgun, til að koma blóðinu á örlitla hreyfingu. Svo er fótbolti á sunnudaginn á sama stað.

Engin ummæli: