laugardagur, 9. febrúar 2008

Forritun á föstudagskvöldi

Vaknaði upp við það rétt í þessu að ég var búinn að eyða 6 klukkutímum samfellt í forritunarverkefni, án þess að taka eftir því. Merkilegt hvað þetta verður skemmtilegt þegar maður kann eitthvað smá í þessu. Mætti líkja þessu við tilraun til að leysa gestaþraut.

Það er sumsé bara þetta gamla að frétta. Glíman við verkefnin er byrjuð fyrir alvöru. Þetta er sá tími annar þar sem maður fílar sig samviskusaman fram úr hófi, þar sem flestir samnemendurnir eru lítið farnir að spá í verkefnunum. Hópurinn minn er hins vegar allur á sama meiði og vill klára þetta af sem fyrst sem ég er mjög sáttur við. Svo eru fögin líka farin að verða töluvert strembnari. Maður þarf því að halda mjög vel á spöðunum næstu 2 mánuðina ef skorið á að vera ásættanlegt þessa önnina. Svo þarf ég að fara að ákveða hvort ég ætli að skrifa lokaritgerð. Það myndi þýða ca. mánuð í viðbót fyrir framan tölvuna í júlí í staðin fyrir sumarfrí. En ég held að ég myndi bæta töluvert meiru við þekkinguna á því að skrifa ritgerð. En þetta veltur líka á því hvort ég finni eitthvað nógu áhugavert til að skrifa um.

Annars er búið að plana ferð á Arsenal - Aston Villa þann 1. mars, afmælisdegi bjórsins á íslandi, með tengdafamelíunni sem verður í verslunarferð um þá helgi. Á von á hörkuleik, sérstaklega þar sem Aston Villa er komið í baráttuna um Evrópusæti, jafnvel Meistaradeildarsæti, eins og staðan er núna.

Annars er frúin í afmæli hjá tveimur bekkjarsystkynum núna, þannig að maður er bara einn í koti með bjór við hönd í tilefni vikulokanna.

Fór í fótbolta í ca. 20 stiga hita í Regent´s park í dag. Ekki amarlegt, sérstaklega þegar maður hugsar til útihlaupanna í snjósköflunum á Egilsstöðum og Akureyri forðum og núverandi veðráttu heima, sem mér skilst að sé ekki álitleg.

Jæja, ætli maður fari ekki að skoða gamlar lokaritgerðir og sjái hvort manni detti eitthvað sniðugt í hug sem lokaritgerðarefni.

Engin ummæli: