mánudagur, 4. febrúar 2008

Nýr erfingi

Þau tíðindi urðu í gærmorgun að hún Siggalára systir mín varð léttari. Eignaðist hún strák og heilsast móður og barni vel. Svipar honum mjög til Gyðu, systur hans, þegar hún var nýfædd. Nema hvað að hann er töluvert minni. Enda fæddur 6 dögum fyrir tímann, en Gyða var einhverjum 2 vikum eftir tímann, ef ég man rétt. Fær nýstækkuð fjölskylda bestu kveðjur frá London.

Hins vegar er lítið að frétta af suðausturvígstöðvunum. Er að reyna að vera gríðarlega samviskusamur og skipulagður og taka önnina snemma til þess að dreifa álaginu. Það er samt meira en að segja það. Virðist alltaf vera sem maður þurfi einhverja tímapressu til þess að hlutirnir gangi almennilega. Maður reynir þá bara að nota tímann og velta fyrir sér mögulegum lokaritgerðarverkefnum. En það verður val um hvort maður vill skrifa lokaritgerð eða taka 3 auka áfanga. Ég hef nokkurn hug á ritgerðinni, að því gefnu að ég finni eitthvað nógu áhugavert og praktískt.

Skrapp í fótbolta á laugardaginn með nokkrum skólafélögum. Annars fór helgin í lærdóm og rólegheit bara. Bjarkey hefur verið á kafi í lærdómi, en hún er að skila fyrsta verkefni annarinnar á morgun, sem telur 50% af heilum áfanga.

Engin ummæli: