sunnudagur, 13. apríl 2008

Helgin og stress.

Vikan fór að mestu í prófundirbúning. Hljóðið í bekknum er frekar stressað þessa dagana. "Fixed Income" verður sennilega erfiðasta prófið sem við komum til með að takast á við í þessu námi. Enginn virðist öruggur með sig í þessu námsefni. Það verður fyrsta prófð hjá mér, 21. apríl og svo kemur 8 daga bil í næsta próf. Ein vika til stefnu og maður verður að nýta hana til fullnustu, ef maður ætlar að komast í gegnum þetta.

Við Bjarkey tókum okkur nú samt tíma í gær til að hitta Rögga, Lóló, Esther, Þorleif, Búa og Bjarna, félaga hans Búa. Túristuðumst aðeins með því að fara í London Eye og skoðuðum Parlamentið, Big Ben, skruppum á Trafalgar Square og borðuðum svo á Argentínskum stað í kjölfarið. Fengum snert að londonískri veðráttu, þar sem sól og blíða, þrumur og hellirigning skiptu deginum bróðurlega á milli sín. Útkoman var fín og gott að líta aðeins upp úr bókunum.

Svo asnaðist maður í dag til að horfa á MUFC - Arsenal á hverfispöbbnum, en þann leik unnu rauðu helvítin og því vinnur Arsenal enga dollu þetta tímabilið. En jæja, maður getur þá hætt að hugsa um það og einbeitt sér 100% að prófunum. Óþarfi að vera 2svar á viku á barmi taugaáfalls við fótboltaáhorf. Prófin geta alveg séð um þá deild.

Sumsé. Bara eitt á stefnuskránni: Próf. Óvíst með tíðni blogga á næstunni þar af leiðandi.

Engin ummæli: