sunnudagur, 28. október 2007

Ristilkrampi

er ekkert sérstaklega skemmtilegur. Allavega m.v. það sem Bjarkey mátti upplifa um helgina. Hún gat lítið sem ekkert borðað og varla staðið. Læknirinn hennar á Siglufirði sagði að hann hefði látið hana fá næringu í æð í tvo daga á meðan hún væri að ná sér, ef hún væri á heimaslóðum. Það var á föstudagskvöldið sem þetta fór að láta kræla á sér (þá var ég í afmælispartíi, hversu vel sem það kann nú að hljóma) og náði hámarki í gær. Hún er orðin töluvert betri núna og er farin að borða aftur. Ekki þó orðin verkjalaus og getur ekki staðið lengi í einu. Vonast til að verða orðin góð á morgun, þar sem hún þarf að fara í miðannarpróf (þ.a. þetta var ekki besta tímasetningin fyrir veikindi).

Ég fékk mína lífsnauðsynlegu tölvu aftur á þriðjudaginn, einni og hálfri viku fyrr en ég reiknaði með, sem var mjög ánægjulegt. Ég hef hinsvegar ekki séð mér fært að blogga vegna anna. Vonandi næ ég að henda inn aðeins fleiri línum á næstunni, þó óvíst sé.

Búið að vera töluvert annríki í skólanum og það á bara eftir að aukast. Forritunarverkefni voru í hámæli sl. viku og þeim líkur væntanlega nú í vikunni. Þá verður öllum verkefnum í einum áfanga lokið á þessari önn og hægt að snúa sér að fullu að öðrum verkefnum (sem eru ærin).

Eins og áður var getið lenti ég í afmælisteiti á föstudaginn hjá pólverja í bekknum að nafni Bart (Já, hann er svolítið líkur nafna hans, Simpson). Teiti þetta var haldið á pöbb hér í borg og fór fram með ágætum. Þynnkuna á laugardaginn notaði ég svo til að skoða atvinnumöguleika hjá bönkunum í London (sótti um tvær vinnur í rælni) og að þjónusta Bjarkey eftir þörfum. Dagurinn í dag hefur svo farið í hlaup, áframhaldandi starfsumsóknir og áhorf á 1-1 jafntefli Liverpool og Arsenal, sem voru mjög ásættanleg úrslit, að mínu mati.

Búið er að ákveða Íslandsför í desember. Hún hefst 21. desember og lýkur 28. desember (millilanda- og innanlandslug eru samdægurs við heim- og útför). Sáum okkur þann kost vænstan að vera ekki yfir áramótin, þar sem þau eru óþægilega nálægt prófunum. Ákváðum að skipta liði og vera í heimahéruðum okkar, þar sem þessi tími er of lítill til skiptana.

Ekki fleira í fréttum í bili.

2 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Gyða var að skoða myndina af þér á úlfaldanum og ég sagði henni að þetta væri Siffi frændi. Og hún sagði "Iffi", svo þá veit hún það.
Þið Árni getið farið í keppni um jólin, hvort hún lærir á undan að segja Liverpúl eða Arsenal. ;-)

Sigurvin sagði...

Já, gaman af því. Ég vona nú að hún hafi verið búin að læra að segja "pabbi" áður :)
Ég hef nú engar áhyggjur af öðru en hún segi Arsenal á undan Liverpool - miklu skemmtilegra nafn (og lið, ef út í það er farið) :)